14.11.1952
Neðri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

10. mál, áburðarverksmiðja

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv., sem síðast talaði, bar fram mjög margar fyrirspurnir til ríkisstj. í sambandi við þá langloku, er hann hélt hér um áburðarverksmiðjuna. Ég ætla nú ekki að ræða þessar fsp. né svara þeim, enda mætti það æra óstöðugan að fara að eltast við allt, sem hann drap á í ræðu sinni. En hv. þm. hefði vel mátt blífa hv. þm. og getað sparað sjálfum sér þennan langlokufyrirlestur um það, að áburðarverksmiðjan sé hreint einkafyrirtæki og að ríkissjóður hafi afsalað sér öllum rétti til hennar. Greindir og glöggir menn hljóta að leggja á sig mikla sjálfsafneitun til þess að leika svo einfeldnislegt hlutverk í búningi hins lægsta lýðskrumara, eins og hv. 2. þm. Reykv. hefur gert með þeirri löngu ræðu, sem hann var að ljúka.

Það má vel viðurkenna, að l., eins og þau liggja nú fyrir, þyrftu einhverra breytinga við, eftir að ákveðið var að hafa rekstur verksmiðjunnar í því formi, sem heimilað er í 13. gr. l. En það út af fyrir sig breytir ekki því, að það félagsform, sem verksmiðjunni hefur verið sett, er fyllilega löglegt. Ég vil benda hv. þm. á það, að Sþ. kýs þrjá af fimm stjórnarmönnum verksmiðjunnar. Ég vil enn fremur benda honum á það, að ríkissjóður á 6 millj. af 10 millj. Og enn vil ég benda honum á það, að samkvæmt l. má ekki greiða hluthöfum í arð af verksmiðjunni meira en allt að 6%. M.ö.o., það er tekið fyrir það í eitt skipti fyrir öll, að hver, sem í verksmiðjunni á, geti nokkurn tíma fengið af hlutafé sínu meira en 6% í arð. Þetta ætti að geta gert hverjum skynsömum manni ljóst, að ríkissjóður hefur bæði töglin og hagldirnar í rekstri og stjórn verksmiðjunnar. Þó að verksmiðjan sé rekin í hlutafélagsformi, hefur ríkissjóður í krafti sins hlutafjár og í krafti þess, að Alþ. kýs 3 stjórnarmennina, öll ráð verksmiðjunnar og rekstrarins í hendi sér. Það er því barnalegt að tala um, að hér sé um einkafyrirtæki að ræða, sem ríkissjóður hafi ekkert með að gera og ráði ekkert yfir. Það eru ekki nema menn eins og hv. 2. þm. Reykv., sem geta látið sér slík orð um munn fara, menn, sem ekki vila fyrir sér að varpa fram fullyrðingum, sem eru ekki veruleikanum samkvæmar. — Hann minntist á það, að ég hefði átt hlut að því, að þessu fyrirkomulagi var komið á á sínum tíma, þegar l. um áburðarverksmiðju voru til meðferðar í þinginu. Það er alveg rétt, og eina ástæðan, sem ég taldi fram fyrir því, að þetta ætti svo að vera, var sú, að fyrirtækið yrði betur rekið með þátttöku einstaklinga heldur en ef ríkið ætti það eitt og stjórnaði því einvörðungu. Ég er sannfærður um, að það á eftir að koma í ljós, að þetta er rétt. Það á eftir að koma í ljós, að þessu fyrirtæki verður líklega betur stjórnað, en nokkru öðru fyrirtæki, sem ríkið á, vegna þess að hagsmunir einstaklinganna koma þarna til greina og gera sig gildandi í stjórn verksmiðjunnar. Ég álít, að allur rekstur, sem ríkið leggur í, ætti að vera byggður upp á þennan hátt, til þess að tryggja það, að fyrirtækin séu vel rekin.