08.10.1952
Efri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (3443)

28. mál, orlof

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Árið 1942 færði íslenzkum alþýðusamtökum mjög mikilvæga ávinninga á ýmsum sviðum. Aðdragandi þeirra var sem kunnugt er skæruhernaðurinn svo nefndi, og árangurinn birtist í samningum Dagsbrúnar við atvinnurekendur síðari hluta sumars 1942. Með þeim samningum var viðurkenndur 8 stunda vinnudagur, og auk þess var orlof verkamanna samningsbundið tvær vikur á ári, og skyldu atvinnurekendur greiða verkamönnum orlofsfé, þannig að þeir héldu launum í leyfi sínu. Á næsta ári gaf Alþ. síðan samningi þessum lagagildi með l. um orlof, en þau eru mjög mikilvægur áfangi í réttindabaráttu íslenzkrar alþýðu. Ég veit, að ég þarf ekki að ræða um menningarlegan ávinning af þessari lagasetningu, sjálfsagða hvíld og hressingu eða það, hvernig íslenzk alþýða hefur kynnzt landi sínu betur, en fyrr með stórauknum ferðalögum. Ég veit, að allir alþm. telja þessi l. sjálfsagt menningarmál. En þar með er ekki sagt, að l. hafi verið fullkomin við fyrstu smið, og með frv. því, sem hér er flutt, eru lagðar til þrjár breyt. á þessum l.

Meginbreytingin er sú, að sumarleyfið lengist upp í 18 virka daga eða sem svarar þriggja vikna orlofi og að orlofsfé hækki í samræmi við það upp í 6½% af kaupi. Þriggja vikna orlof er nú orðið mjög algengt hjá embættismönnum, starfsmönnum og ýmsum iðnaðarmönnum og mun af almenningi vera talinn mjög eðlilegur og hæfilegur tími, og erlendis hefur þriggja vikna almennt orlof færzt mjög í vöxt á undanförnum árum. Væri hægt að rekja um það mörg dæmi, en eðlilegasta hliðstæðu má telja hin Norðurlöndin, sem oft hafa verið okkur fyrirmynd í félagsmálum, og munu þó þeir, sem hægast vilja fara í þeim málum, viðurkenna, að þau geri sig ekki sek um neina ofrausn á þessu sviði og rasi ekki um ráð fram. Norðmenn samþ. l. um almennt þriggja vikna orlof þegar 1947, og hafa þau gefið hina beztu raun og þykja nú jafnsjálfsögð og tveggja vikna orlof áður. Svíar hafa framkvæmt sömu breytingu, og á s. l. vetri tryggðu dönsku alþýðusamtökin öllum meðlimum sínum þriggja vikna orlof með heildarsamningum við atvinnurekendur. Við erum þannig orðnir eftirbátar hinna Norðurlandanna á þessu sviði, og er með frv. aðeins lagt til, að við fylgjumst með þeim.

Í annan stað leggur frv. til, að orlofsrétturinn nái einnig óskertur til hlutarsjómanna. Í orlofsl. er ráð fyrir gert, að atvinnurekendur greiði hlutarsjómönnum hálft orlofsfé, en helmingur fjárins sé tekinn af hlut sjómannanna sjálfra. Verður ekki séð, að nein sanngirni mæli með því, að hlutarsjómenn séu afskiptir á þessu sviði, og hafa þeir raunar oft meiri þörf orlofs, en ýmsir aðrir.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að fyrningarákvæðum laganna verði breytt. Í 15. gr. orlofsl. segir: „Kröfur á hendur vinnuveitendum samkvæmt lögum þessum falla úr gildi fyrir fyrning, ef þær hafa ekki verið viðurkenndar eða lögsókn hafin innan loka næsta orlofsárs eftir að kröfurnar stofnuðust.“ — Þessi tilhögun er óeðlileg. Þess eru mörg dæmi, að af þessu ákvæði hafa hlotizt óþægindi og misskilningur. Virðist eðlilegra, að fyrning orlofsfjár fylgi algerlega sömu reglum og fyrning kaupgjalds, og er það lagt til í þessu frv.

Ég minntist á það í upphafi, að verkamannafélagið Dagsbrún hefði tryggt meðlimum sínum tveggja vikna orlof eftir harða, en nokkuð sérstæða deilu 1942. Nú er svo komið, að íslenzku alþýðusamtökin hafa gert að sinni kröfuna um þriggja vikna orlof, og er enginn ágreiningur um þau mál innan þeirra. Var þetta ein meginkrafa samtakanna á baráttudegi þeirra 1. maí s. l., og á því er enginn vafi, að alþýðusamtökin munu ekki lengi fást til þess að láta það viðgangast, að íslenzkir verkamenn séu eftirbátar félaga sinna á Norðurlöndum á þessu sviði. Ef Alþingi fæst ekki til að breyta orlofslögunum, benda allar líkur á, að aukið orlof verði knúið fram af verkalýðsfélögunum sjálfum í samningum við atvinnurekendur, samningum, sem ef til vill fengjust ekki fyrr, en eftir kostnaðarsamar deilur. Þetta er ekki sagt sem nein hótun, enda er ég ekki bær um að hóta neinu á þessu sviði. Þetta er aðeins að horfast í augu við staðreyndir og reynslu undanfarinna ára.

Annað hliðstætt réttindamál mætti vera Alþingi nokkur aðvörun. Árum saman lágu fyrir þingi frumvörp um breytingar á vökulögunum, sem tryggðu sjömönnum 12 stunda hvíld á sólarhring. Alþingi fékkst aldrei til að sinna þessu frv., og afleiðingin varð sú, að sjómenn háðu tvö langvinn verkföll til að tryggja sér þessa sjálfsögðu hvíld, en þær vinnustöðvanir kostuðu þjóðina marga tugi milljóna króna. Allar líkur benda á, að hægt hefði verið að komast hjá þessari stórfelldu sóun á verðmætum, ef Alþingi hefði gáð að sér og farið að till. um 12 stunda hvíld, og sú hvíld mun senn verða talin svo sjálfsagt réttlætismál, að enginn mun vefengja hana. Ég tel víst, að Alþingi læri af þessari reynslu og hindri, að til hliðstæðra atburða komi út af þeirri breytingu á orlofslögunum, sem hér er lögð til og verður tvímælalaust framkvæmd með samningum utan þings, ef hún fæst ekki afgreidd hér á þingi nægjanlega snemma.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.