16.10.1952
Efri deild: 9. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (3455)

63. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa lög um húsaleigu vakið allmikið umtal sérstaklega í þessum bæ og hér á hv. Alþingi undanfarin ár. Ég hef nú reynt að kynna mér nokkuð það frv., sem liggur hér fyrir á þskj. 63, og tel rétt að láta koma fram nokkrar athugasemdir í sambandi við málið hér við 1. umr., vegna þess að ég á ekki sæti í þeirri hv. n., sem flytur frv. og fær það svo til frekari athugunar. Og í sambandi við það vildi ég þá fyrst og fremst mega vænta þess, að áður en málið verður látið ganga til 2. umr. hér í þessari hv. d., þá verði það sent til umsagnar til aðila hér í þessum bæ, þ. e. Fasteignaeigendafélagsins og Félags leigutaka eða hvað það heitir, svo að þeim gefist kostur á því að koma fram þegar á fyrsta stigi málsins þeim athugasemdum, sem þeir telja að nauðsynlegt sé að athuga og ræða við n., áður en frv. kemur til 2. umr. Ég tel, að það sé eðlilegasta meðferðin á málinu.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að fyrstu kaflar frv. muni ekki vekja mjög mikinn ágreining í deildinni, svo framarlega sem felld er í burtu 1. gr. frv. eins og hún er nú, því að hún tilheyrir reyndar öðrum köflum og mun að sjálfsögðu vekja nokkurt umtal og nokkurn ágreining. En að öðru leyti eru þeir aðrir kaflar allir, sem hæstv. ráðh. minntist á, þess eðlis, að þeir munu ekki vekja stórkostlegan ágreining um málið. Þó eru þar einstök atriði, sem mér sýnist að sé mjög vafasamt að sé hægt að leggja á leigusala eða leigutaka, eins og t. d. það, að menn skuli samkv. 12. gr. skila húsum sínum meindýralausum og svo leigutaki aftur að skila því í þannig ástandi þegar hann skilar því. Við þekkjum það nú hér í þessum bæ og sjálfsagt ekki siður annars staðar, að baráttan við meindýrin er svo stórkostlegt mál, að það er varla á valdi sérhvers húseiganda eða sérhvers leigutaka að ráða þar einn um.

Þá vildi ég einnig beina því til hv. n., hvort hún mundi geta upplýst fyrir 2. umr., hvaða kostnað það hefði í för með sér fyrir aðila að láta meta og taka út alla leigu, eins og gert er ráð fyrir í frv. Hér er um nýmæli að ræða, sem mun kosta allmikið fé. Að vísu er þetta í ábúðarlöggjöfinni, og það mun vera komið þaðan fyrir áhrif þeirra manna, sem eru henni vel kunnugir, en það er sýnilegt, að þetta kemur til með að kosta viðkomandi aðila, hver sem greiðir það, margfalt meira fé, en það kostar hlutfallslega að taka út jarðir í sveitum landsins. Hér er um að ræða að taka út, — ja, kannske herbergi á hverjum mánuði, ef einstaklingum eru leigð herbergi, ef til vill íbúðir tvisvar sinnum á ári, ef skipt er um eigendur. svo að það út af fyrir sig hlýtur að hafa stórkostlegan kostnað í för með sér. Væri ákaflega fróðlegt að fá einhverja hugmynd um þann kostnað, áður en frv. fer út úr þessari deild, og þá er eðlilegast, að það komi frá n., áður en það kemur til 2. umr.

Ég vil einnig leyfa mér að benda hér á, að hér er nýmæli, sem er vafasamt að sé hægt að leggja á leigutaka, að hann skuli greiða eða bæta allt það tjón, sem hlýzt af gáleysi eða vanrækslu hans sjálfs. Ef á að taka þessi ákvæði bókstaflega, á hann að sjálfsögðu að greiða brunabætur, sem kynnu að stafa af því, að hann hefði farið óvarlega með eld. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á þetta, úr því að málið er hér til umr. Ég veit, að það hefur ekki vakað fyrir þeim, sem sömdu löggjöfina. Það hefur sjálfsagt vakað fyrir þeim, að hann ætti aðeins að bæta það, sem ekki væri bætt með almennum vátryggingum, en það verður nú ekki skilið öðruvísi, eins og það er hér í frv., heldur en að honum beri að bæta allt það tjón, sem hlýzt af gáleysi eða vanrækslu af hans hendi.

Ég skal ekki á þessu stigi ræða meira um sjálft frv. Það veltur svo ákaflega mikið á því, eins og ég tók fram í upphafi, hvort 1. gr. frv. verður samþ. eða ekki, hvort tilefni gefst til þess að ræða raunverulega 10. og 11. kafla frv. Sé þar aðeins um heimildarlög að ræða, þá er það látið á vald viðkomandi sveitarstjórnar, og gefst þá miklu minna tilefni til að ræða um þau ákvæði, sem þar standa. Sé hins vegar ætlazt til þess, að þessum ákvæðum sé beitt skilyrðislaust einhvern ákveðinn tíma, t. d. til 14. maí 1955, eins og ákveðið var í 1. gr., þá horfir málið að sjálfsögðu allt öðruvísi við, og gefst þá tækifæri til þess að ræða það milli umr., eftir því sem séð verður, hvaða breytingum málið tekur hér í þessari hv. deild. En ég legg alveg sérstaka áherzlu á. — og er það að gefnu tilefni, — að annaðhvort verði frv. sent til umsagnar, — það þarf ekki að tefja málið, — eða hv. n. kalli a. m. k. þessa aðila til sín og fái frá þeim allar þær upplýsingar, sem þeir vilja gefa í sambandi við málið, og þær upplýsingar séu látnar hv. d. í té, áður en málið er afgreitt til 3. umr.