27.10.1952
Efri deild: 15. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í C-deild Alþingistíðinda. (3545)

93. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem liggur fyrir á þskj. 115, hef ég leyft mér að flytja hér í tilefni af þeirri reynslu, sem ég hef öðlazt í starfi mínu sem leigubifreiðarstjóri. Ég hef sem sé komizt á snoðir um það, að merkingu gatna og ekki síður einstakra húsa í kaupstöðum og þá fyrst og fremst þar, sem ég hef kynnzt þessu, bæði hér í Reykjavík og á Akureyri, er allmikið ábótavant og það svo, að það getur undir sumum kringumstæðum valdið talsverðum erfiðleikum og töfum að finna ákveðið hús, sem maður er beðinn að fara í. Af því hljótast stundum veruleg óþægindi, ekki aðeins fyrir viðkomandi bifreiðarstjóra, heldur líka fyrir það fólk, sem hefur pantað bíl á ákveðnum stað og ef til vill er tímabundið, þannig að einhver veruleg töf á því, að bíllinn komi á tiltekinn stað, geti valdið því, að viðkomandi maður komist ekki þangað, sem hann hafði ætlað sér, fyrir tilsettan tíma, — og ýmis önnur óþægindi geta af þessu hlotizt fyrir utan það, að af því hlýzt oft óþarfur akstur og þar með óþarfaeyðsla á dýrmætum varningi, sem fluttur er hingað til landsins fyrir erlendan gjaldeyri, en ekki verður komizt af án þess að hafa við slíkan rekstur sem þennan. Ég hef þess vegna komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri ástæða til þess að setja um þetta einhver ákvæði í l. til þess að tryggja það, að merkingar á götum og húsum væru það greinilegar, að ekki þyrfti að valda neinum óþægindum eða erfiðleikum að finna hvert hús, sem bifreiðarstjórar eða aðrir þurfa að komast til, hvort heldur er að nóttu eða degi.

Ég tel eðlilegt, að ef settar eru um þetta reglur í l., þá verði það miðað við þá staði á landinu, sem eru skipulagsskyldir að l., því að þetta er mjög skylt því efni, og hef þess vegna líka flutt frv. sem breyt. á l. um skipulag kauptúna og sjávarþorpa. Eins og hv. alþm. hafa sjálfsagt þegar gert sér grein fyrir, þá er miðað við það, að inn í þau l. verði bætt nýjum kafla um þetta efni, um merkingu gatna og húsa, og eru þá helztu atriðin í frv. þau, að samkv. 1. gr. skuli skylt á þessum tilgreindu stöðum, þ. e. a. s. þeim stöðum, sem skipulagsskyldir eru að l., að merkja greinilega allar götur og vegi og að skilti með nöfnum gatnanna séu fest upp á öllum gatnamótum, þannig að alltaf sé hægt að sjá, þegar maður kemur í eina götu, hvaða heiti hún ber. Þessu mun nú vera nokkurn veginn framfylgt svona í þessum helztu kaupstöðum. t. d. hér í Reykjavik. Þó finnast þess dæmi, að götur eru alls ekki merktar, svo að það er ástæða til þess líka, ef sett er um þetta regla á annað borð, að taka upp ákvæði um það.

Í 2. gr. eru fyrirmæli um það, að einnig skuli auðkenna öll hús, sem standa við skipulagðar götur eða vegi, með númerum og að númeratölunum skuli þannig fyrir komið á húsunum, að auðvelt sé að lesa þær utan frá götu eða vegarbrúninni. Ég held, að sé óhætt að fullyrða það, að þessu atriði sé þó nokkuð mikið ábótavant, m. a. hér í höfuðborginni. Það er allvíða, sem vantar númeraplötur á húsin, og jafnvel held ég að megi fullyrða það, að finna megi götur hérna í Reykjavík, þar sem ekki sé númer á einu einasta húsi, þ. e. a. s. ekki merkt á húsið neitt númer. Sömuleiðis á það sér líka stað, þar sem breiðir forgarðar eru fyrir húsum, að þó að númeraplötur standi á húsinu sjálfu, þá verða þau númer í mörgum tilfellum að minnsta kosti alls ekki lesin utan frá götunni vegna fjarlægðarinnar, eða þá í öðrum tilfellum, þó að fjarlægðin sé ekki mjög mikil, að trjágróður í þessum forgörðum skyggir svo á húsin, að ekki er með neinu móti hægt að sjá húsnúmerin utan frá götunni. Það, eins og gefur að skilja, veldur því, að númerið kemur ekki að gagni fyrir þann, sem fer um götuna og er að leita að því, ef það sést ekki þaðan. Þess vegna álit ég að sé nauðsynlegt að hafa í þessum reglum ákvæði um það, eins og hér er gert, að númerunum verði þannig fyrir komið, að það sé auðvelt að lesa þau utan frá götubrúninni, og ef það sé ekki hægt vegna fjarlægðar eða vegna þess að eitthvað skyggi á númerið utan frá götunni, þá verði það ekki haft á húsinu sjálfu, heldur á götuhliðinu. Þá hef ég sett hér einnig fyrirmæli um það, að ef hús á þessum skipulögðu stöðum standa það óreglulega, eins og enn þá á sér nokkuð viða stað, að ekki þyki fært að taka þau í númeraröð neinnar götu, þá skuli þeim gefið heiti og þau séu þá einnig merkt, — ef þau ekki hafa númer, þá náttúrlega stendur ekkert númeraskilti á þeim, — en í staðinn skuli þá skilti með heiti hússins fest á það eða með þeim hætti, að það verði auðveldlega lesið, eins og mælt er fyrir um númerin á þeim húsum, sem þar undir heyra.

Ég veit ekki, hvort mönnum — hv. þingmönnum t. d. — er það almennt kunnugt, að t. d. hér í Reykjavík, sem maður skyldi ætla að auðveldast væri að skipuleggja í þessu efni. er mjög mikið um það, að hús eru ekki númeruð. Það er kannske ekki rétt að nefna neinar tölur í því sambandi, vegna þess að ég hef ekki neinar ábyggilegar eða nákvæmar tölur um það, en ég hygg, að það muni skipta jafnvel hundruðum húsa hér í Reykjavík, sem ekki hafa neitt götunúmer, heldur ýmist heiti eða þá alls engin auðkenni. Og það gefur auðvitað að skilja, að það getur verið miklum erfiðleikum bundið fyrir jafnvel þá, sem eru allvel kunnugir í bænum, ef þeir eiga að geta fundið úr hundruðum húsa víðs vegar um bæinn og hér í útjöðrum hans hús, sem þeim er sagt ákveðið heiti á, ef þegar þangað kemur er ekkert auðkenni á húsinu, sem hægt er að átta sig á, enda eru mýmörg dæmi um það, að slíkt hefur valdið ýmsum óþægindum og bagalegum töfum. Ég held, að það sé þess vegna nauðsynlegt líka í sambandi við þetta að merkja þessi hús ekkert síður en þau, sem eru númeruð við göturnar, og ef þannig stendur á, að ekki þykir fært að hafa þau í númeraröð neinnar götu, þá sé ekki annað fyrir hendi heldur en að gefa þeim nafn og auðkenna þau greinilega með því nafni.

Síðan er hér í e-lið greinarinnar reynt að draga upp meginreglu fyrir því, hvaða aðferð skuli nota, þegar verið er að ákveða númeraröð húsanna. Það má kannske deila eitthvað um það, en um það efni hef ég reynt að fylgja þeirri reglu, sem mér skilst að notuð hafi verið hér í höfuðstaðnum og mundi þess vegna gera sem minnst rask á því, sem fyrir hendi er í því efni á þessum fjölmennasta stað, sem l. kæmu til með að ná til, ef þetta frv. verður samþ. En ég held það sé heppilegt, ef þetta frv. á annað borð er samþ., að þá sé þó höfð einhver ákveðin meginregla, sem farið yrði eftir, til þess að þannig yrðu, að svo miklu leyti sem hægt er, samræmdar reglurnar á öllum þeim stöðum, sem l. kæmu til með að ná til. — Þá hef ég einnig sett fyrirmæli um það, að þegar ákveðin er númeraröð húsa við götur, þá megi ekki auðkenna hús með bókstaf auk götunúmersins. Það er þó nokkuð mikið um það, og ég býst við, að það sé aðallega frá eldri tíma, að hús eru númeruð ekki aðeins með raðtölunni, heldur einnig bætt við bókstöfum, þannig að kannske 3–4 hús bera sama götunúmerið, en auk þess A. B, C og D. Þetta veldur þó nokkrum óþægindum við að finna húsin, þ. e. a. s., þegar maður fer eftir götunni, þá telur maður svona í huganum um leið og maður fer fram hjá hverju húsi, en ef slíkir bókstafir — kannske hver af öðrum — koma inn í númeraröðina, þá ruglast maður náttúrlega mjög í þeirri tölu og kemur þess vegna að allt öðru húsi en maður ætlar að, ef maður horfir ekki stöðugt á númeraröðina, en það er eins og gefur að skilja nokkuð erfitt, þar sem mikil umferð er á götunum. Ég held, að það sé heldur engin ástæða til þess að hafa þetta þannig, heldur sé sjálfsagt að láta númeraröðina ganga sinn eðlilega gang, en nota ekki þessar bókstafamerkingar, nema því aðeins að sé að ræða um hús, sem ekki standa í götulínunni, heldur annaðhvort bakhús eða hús, sem standa á einhvern hátt fjær götunni og ekki heyra þess vegna beinlínis númeraröðinni til.

Þá er einnig hér nýmæli um það, að lýsa skuli upp númerin að nóttu til, þ. e. a. s., eins og það er orðað hérna, að lýsa númerið upp með útiljósi frá húsinu og að það sé skylt að láta útiljósið loga lögboðinn ljósatíma ökutækja. Það kann að vera, að mönnum finnist þetta óþarfa hótfyndni og sé verið að gera húseigendum og öðrum, sem hlut eiga að máli, óþarfan kostnað með þessu, en ég held, að það sé hvort tveggja, að sá kostnaður þurfi ekki að vera tilfinnanlegur, og svo hitt, að ef menn á annað borð fallast á það, að það sé nauðsyn á því að merkja hús yfirleitt greinilega, þannig að lesa megi númerin eða nafnheiti húsanna utan frá götunni, þá gildir það auðvitað ekki síður, heldur enn þá fremur yfir þann tíma, sem myrkur er og að öðru leyti er erfiðara að átta sig á númerum eða nöfnum húsa. En þar sem kunnugt er, að sá tími er hér á landi mjög langur í skammdeginu og yfir vetrarmánuðina, sem myrkur grúfir yfir, þá tel ég, að það sé enn nauðsynlegra að haga svo til, að hægt sé að lesa númerin ekkert síður yfir þann tíma sólarhringsins.

Síðan eru hér ákvæði varðandi framkvæmdaratriði þessa máls, þannig að bæjarstjórnum og hreppsnefndum er þar falið að sjá um framkvæmdir á þessum merkingum og merkingar á götum og vegum séu kostaðar af viðkomandi bæjar- eða hreppsfélagi, en merkingar á húsunum sjálfum af húseigendum, og býst ég við, að það sé það sama og yflrleitt giIdir í þessum efnum nú.

Að síðustu er svo ákvæði um það, að ef þarf að breyta þinglesnum samningum eða öðrum skuldbindingum, sem hvila á húsunum, vegna þess að húsið fengi annað númer þegar þetta kæmi til framkvæmda, þá skuli slíkar breytingar á samningum vera undanþegnar stimpilgjaldi.

Svo er loksins ákvæði um gildistöku l. og þar gefinn frestur til þess að koma þessu efni í það horf, sem frv. mælir fyrir, til 30. sept. næsta ár. Ég tel, að það ættu ekki að vera neinir sérstakir erfiðleikar á því, ef frv. yrði samþ. á þessu þingi — væntanlega fyrir áramót — að koma þessu til framkvæmda á þeim tíma, sem hér er tilgreindur.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta efni að svo komnu, en vil vænta þess, að þó að þetta kannske sé ekkert stórmál, þá vilji þó hv. þdm. fallast á, að það sé þörf á því að hafa þessar merkingar gatna og húsa í því lagi, sem hér er gert ráð fyrir, og vilji þess vegna fallast á að samþ. þetta frv. — Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn.