05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (3614)

173. mál, almannatryggingar

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 341, er um breytingu á l. um almannatryggingar og snertir aðeins ellilífeyrisþega, sem dvelja á elliheimili eða hliðstæðri stofnun.

Það er nú þannig, að mönnum ber ekki saman um það, hvort það muni vera alveg rétt. sem er þó ofan á um greiðslu ellilífeyris að hjón hafi saman lægri lífeyri en ef tveir einstaklingar væru. En það er alveg áreiðanlegt og víst, að ef annað eða bæði af hjónum dvelja á elliheimili eða sjúkrahúsi. þá þurfa þau fulla ellilífeyrisuppbót alveg eins og einstaklingar.

Fyrri till. í þessu frv. gengur út á það, að þessu skuli vera breytt þannig. Nú er að vísu í l. frá 1951 ákvæði um það, að það sé heimilt, ef hjón eru eigi samvistum af heilsufarslegum ástæðum eða öðrum, ef tryggingar á að meta jafngildar, að úrskurða hvoru hjónanna um sig fullan einstaklingslífeyri. En hér er gert ráð fyrir því, að þetta skuli verða að reglum.

Í l. um almannatryggingar frá 1946, sem frv. þetta er til breytinga á, er gert ráð fyrir því, að það sé heimild til þess að hækka lífeyri ellilífeyrisþega, ef hann dvelur á elliheimili eða hjúkrunarheimili, um allt að 40%, ef um það er sótt. Einnig segir þar, að Tryggingastofnunin geti séð ellilífeyrisþega fyrir vist á elliheimili, og mundi þá væntanlega liggja í því, að Tryggingastofnunin ætti að greiða að minnsta kosti þau 40% umfram venjulegan ellilífeyri, sem gert er ráð fyrir í greininni.

Í till. þeirri, sem hér er lögð fram í þessu frv., er gert ráð fyrir því, að þetta skuli verða að reglu, og er það eingöngu gert með það fyrir augum, að það gamla fólk, sem dvelur á þessum hjúkrunarstofnunum, skuli ekki þurfa ævinlega að ganga bónarveg að því að fá þessa hækkun, sem því er nauðsynleg, ef það á að komast af með þau gjöld, sem því er ætlað að greiða og nauðsynlegt er að það greiði á þessum stöðum.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri. Legg ég til, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.