12.11.1952
Sameinað þing: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (3715)

27. mál, smáíbúðarhús

Flm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Hæstv. forsrh. kaus að fara mjög hörðum orðum um mig og mína framkomu hér og sagðist fullyrða, að ég hefði ekki minnsta vit á þessum málum, sem ég væri að tala um, og dró inn í þessar umræður starfsemi mína í mínum hreppi t. d., sem kemur ekki þessu máli við.

Ég skal játa það, að ég tel mig ekki byggingarfróðan mann, — ég hef ekkert lært til þess, — en ég hef fjallað um í mínum hreppi mörg hundruð af umsóknum og teikningum af húsum, rætt við mörg hundruð manna, sem hafa verið í þeirri aðstöðu að vilja sjálfir reyna að bæta úr sinni sáru húsnæðisþörf og neyð í mörgum tilfellum. Ég þori að fullyrða, að hæstv. ráðherra hefur ekki sjálfur kynnzt þörfum þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, og því, hvernig reglur fjárhagsráðs hafa komið fram við þá í þeirra viðleitni, betur en ég. Það er það, sem ég hef fram yfir hann í þessu máli, að ég hef árum saman fylgzt með viðleitni manna til þess að bæta úr húsnæðisþörf sinni með þeim hætti að vinna sjálfir að því að byggja hús yfir höfuð sér. Ég hef líka fylgzt með starfsemi fjárhagsráðs. Ég hef fengið í hendur mörg hundruð leyfi þess, og ég verð að segja, að ég hef ekki enn þá getað komið auga á nokkrar skynsamlegar reglur, sem það ráð fari eftir í sínu starfi. Ég er reiðubúinn til að ræða um fjárhagsráð og þess starf í þessum málum og öðrum miklu nánar við hæstv. ráðh., sem þetta ráð virðist vera svo kært, ef hann óskar.

Hæstv. ráðh. margendurtekur það, að ég hafi sagt, að allir þeir 900 menn, sem hafa fengið fjárfestingarleyfi fyrir smáíbúðarhúsum, hafi átt í deilum við fjárhagsráð. Þetta hef ég aldrei sagt, og hæstv. ráðh. var engin vorkunn að taka rétt eftir því, að ég hef ekki sagt, að þeir væru allir í deilum við fjárhagsráð út af gerð húsa sinna. Hæstv. ráðh. fullyrti, að það væri aðeins lítið brot af þeim. Ég hef sagt og stend við það, að það er mjög mikill hluti þeirra, fjöldi þeirra. Og fjöldi þeirra hefur orðið sér stórlega í óhag og til skaða að beygja sig fyrir hinni heimskulegu og skaðlegu reglu fjárhagsráðs. Hinir, sem neituðu að beygja sig fyrir henni, voru kærðir fyrir dómstólunum nú í september, rétt áður en þing kom saman, og krafizt sekta eða fangelsisdóma á hendur þeim, og kom hæstv. ríkisstj. ekki í veg fyrir það, þótt hún virðist hafa fylgzt með þessu máli.

Hæstv. ráðh. er enn með það, að það sé aðeins ein teikning í Rvík, sem hér sé deilt um. Ég get upplýst hæstv. ráðh. um það, að af þeim 900 leyfum, sem hafa verið veitt af fjárhagsráði síðan í september í fyrra, er meira en helmingur veittur út á land utan Reykjavíkur, svo að það kemur ekki til mála, að það sé út af einni teikningu í Rvík, enda er það öllum kunnugt, sem nokkuð vita um þetta mál, öðrum en hæstv. ráðh.

Það er fjöldinn allur af þeim mönnum, sem hafa kosið að byggja sér 80 m2 íbúðarhús, eins og frekast er leyft af gólffleti, sem hefur átt í vandræðum og deilum nokkrum við fjárhagsráð, vegna þess að hann hefur ekki fengið að hafa, eins og hann óskaði, skynsamlega hátt ris á húsum sínum. Þetta er málið. Hinir, sem hafa kosið að hafa minni gólfflöt og hærra ris, hafa ekki verið að deila við fjárhagsráð út af risi húsanna. En í þessari deilu hafa þessir menn, sem standa í að byggja sér húsin, haft með sér alla sérfróða menn, en fjárhagsráð hefur ekki kvatt sér til ráðuneytis, svo að vitað sé eða borið hafi verið fram, nokkurn byggingarfróðan mann, þegar ákvörðun hefur verið tekin um þessar reglur. Það hefur ekki komið fram.

Í þáltill. minni er lagt til, að reglurnar um þessi hús, sem nú í ár verða byggð um 1000 af og fjárhagsráð gerir sjálft ráð fyrir að verði byggð um 1100 af næsta ár, verði teknar til endurskoðunar og þegar sú endurskoðun fari fram, þá verði óskað eftir till. frá húsameisturum og öðrum byggingarmönnum um þær reglur, sem settar verði um gerð þessara húsa. Nú segir hæstv. ráðh., að þessar reglur séu í endurskoðun. Verða þá byggingarfróðir menn kvaddir til ráða, t. d. samtök byggingarmeistara, húsameistara og annarra byggingarfróðra manna? Verður leitað til þeirra nú um till. um það, hverjar þessar reglur verði? Það hefur ekki verið gert. Fjárhagsráð gerði það ekki, áður en það setti sínar reglur í september í fyrra. Verður það gert nú? Ég vil spyrja hæstv. ráðh. Hann veit það vafalaust, því að hann vakir svo yfir sinu kæra fjárhagsráði. Brýtur nú fjárhagsráð svo odd af oflæti sínu, að það vilji spyrja byggingarfróða menn um það, hvar skynsamlegt sé að setja mörkin og reglurnar um þessi hús, sem er útlit fyrir að verði byggð yfir þúsund af á næsta ári? Og hví mætti Alþingi, sem hefur veitt þessu fjárhagsráði þetta mikla vald til þess að ákveða í hverju einstöku tilfelli, hvernig hús manna megi vera, hvort þau megi hafa þessa og þessa rishæð, ekki fylgjast með þessari endurskoðun? Hví mætti þn. hér á hv. Alþingi, sem fengi þessa till. til athugunar, ekki fylgjast með því hjá fjárhagsráði, hvernig sú endurskoðun eigi að fara fram og hvort byggingarfróðir menn verði spurðir ráða? Það er mál, sem hv. Alþingi varðar stórlega um, hverjar þær reglur verða, sem settar verða að lokinni þessari endurskoðun. Mér finnst því full ástæða til þess, einmitt vegna þeirra stórkostlegu mistaka, sem hér hafa ómótmælanlega átt sér stað hjá fjárhagsráði, að hv. Alþingi eða þn. fylgist nú með því, hvernig þessar reglur verða nú endurskoðaðar og hvaða reglur verði settar. Ég get því ekki séð, að það sé ekki full ástæða til þess, að þessu máli, þar sem einmitt er upplýst af hæstv. ráðh., að það sé í endurskoðun, verði vísað til þn. eins og öðrum málum og einmitt sú þn., sem fær það til athugunar, fylgist með endurskoðun fjárhagsráðs á þessum reglum.