11.12.1952
Neðri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

17. mál, þingsköp Alþingis

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. N. hefur kynnt sér þær breyt., sem hv. Ed. hefur gert á þessu frv. frá því að það fór frá Nd., og þó að breytingarnar séu allmiklar að fyrirferð, þá eru þær nú fremur efnislitlar.

Það eru styttir nokkuð þeir frestir, sem ákvæði þingskapa ákveða, bæði frá því að borin eru fram mál, þar til þau megi koma til umræðu, og einnig eftir að mál hafa komið úr n.

Þessi atriði öll eru þess eðlis, að venja er að veita undanþágu frá ákvæðum þingskapanna, og hafa þau þá í raun og veru litla þýðingu orðið í þingsköpunum, úr því að í reyndinni er lítið farið eftir þeim, og er þá réttara að rýmka þessi ákvæði, svo að ekki þurfi að leita afbrigða fyrir því, hvenær málin megi komi til meðferðar.

Þessar efnisbreytingar eru þess vegna litlar, og er byggt á þeirri reynslu, sem fengin er um meðferð mála hér í þinginu.

Aðeins er það eitt atriði í þessum breytingum, sem er með nokkuð öðrum hætti nú eftir frv. en það er í þingsköpum.

Eins og hv. þingdeildarmenn hafa vafalaust í huga, þá heimila þingsköpin afbrigði frá þeim venjulegu reglum, með því að samþykki ráðherra komi til. Þessu er þannig breytt í þessum þingsköpum, eða þessu frv., að ef atkvæði eru fyrir því, þá eru afbrigði talin samþykkt, ef ráðherra synjar ekki leyfisins, en nú er það svo orðað, að afbrigði megi fá, ef ráðherra leyfir. Í framkvæmdinni hefur þetta nú verið svo, að það hefur verið skoðað, að afbrigði væru heimil, þó að ráðh. hafi ekki verið við og ekki getað sagt til um sitt leyfi fyrir afbrigðum. Þarna er að vísu ekki farið með slíka framkvæmd eftir strangasta lagastaf, en það hefur þótt óhjákvæmilegt, svo að ekki yrðu tafir á afgreiðslu mála fyrir þessar sakir. Það mundi þess vegna hafa verið skoðað eftir ákvæðum þingskapanna, að ef einn ráðherra leyfði, þá væru afbrigði heimil.

Samkv. þessari breytingu mundi nægja, að ef einn ráðherra væri á móti, þá væru afbrigði ekki leyfð. Ég bendi á þetta, svo að hv. þdm. geri sér grein fyrir því, hver munur kann að vera á þessu, en ég geri ekkert úr því, að þetta hafi neina praktíska þýðingu upp á afgreiðslu mála í þinginu, svo að frá því sjónarmiði skipti það ekki neinu verulegu máli, þó að ákvæðið verði haft á þann veg, sem gert er ráð fyrir í frv.

N. vill ekki af sinni hálfu gera neitt úr þessu og mun geta fallizt á frv. eins og það liggur nú fyrir.