13.10.1952
Efri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

61. mál, manntal 16, okt. 1952

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég held, að það sé sjálfsagt að láta þetta frv. fara til n. og sjálfsagt að athuga það í sambandi við lög eða frv., sem hér er komið fyrir þingið, um vegabréf, — það er að vísu frv., sem er ætlazt til, að gildi um vegabréf manna, sem fara úr landi, en jafnframt hefur verið talað um það allhávært undanfarið, í blöðunum t.d., að menn, sem keyptu áfengi, þyrftu að geta sannað aldur sinn, o.s.frv., og enn er talað um það, að sums staðar hér á landi þurfi menn vegabréf til þess að komast ferða sinna. Ég vil athuga þetta frv. í sambandi við vegabréfafrv. og hvort ekki er hægt að koma því þannig fyrir að skylda menn hér á landi til að bera kort, sem sýni, hverjir þeir eru, og þar með þá líka, að menn fái ákveðin lögheimili, en nú eru margir menn í landinu, sem ekki eiga lögheimili. Ég vil þess vegna fá þetta frv. í allshn., og ég vil í henni athuga þetta allt saman, hvort það er ekki hægt að tengja þetta saman, því að við vitum vel, að það eru til á hverju ári, — ja, það er sízt náttúrlega, þegar árið endar á 10, — að það eru alltaf til við venjuleg manntöl menn, sem hvergi eru taldir og hvergi borga sín gjöld, og það þarf að reyna að sporna við því, og þau l., sem við eigum um heimilisföng, gera það ekki. Ég vil þess vegna leggja til, að frv. fari til allshn., eins og ráðh. stakk upp á, og vinna að því í n., að þetta verði allt athugað saman.

Þá ástæðu að leggja þetta frv. fram núna; vegna þess að vélarnar eru komnar, skil ég nú satt að segja ekki, því að það er ekki enn þá búið að vinna úr manntalinu 1950, sem þá var gert lögum samkv. 1. des. um allt land og þá líka skráðir þeir, sem voru fjarverandi, og allir þeir, sem voru staddir, og það hefur ævinlega sýnt sig við hvert 10 ára manntal, þegar manntalið hefur endað á heilum tug, að skráðir staddir einhvers staðar eru ævinlega fleiri, en heimilisfastir taldir einhvers staðar. Og nú á ekki að skrá þá stöddu, heldur á einungis hver húsráðandi að gefa upp eftir lögunum, hverjir eigi lögheimili á hans heimili, — ég hef t.d. nú í augnablikinu 3 gesti heima hjá mér, og ef þeir eru ekki farnir þann 16., þá á ég engan þeirra að telja. Það á að telja þá þar, sem þeir eiga heima, og ég hef enga vissu fyrir, að þeir séu taldir þar. Það er ekki venja að gera það í manntölunum, sem fara fram árlega, heldur bara í manntölunum, sem fara fram 10. hvert ár, og þess vegna held ég, að þarna sé veila í l., en það er nú ekki hægt að breyta því hvað það snertir hér eftir fyrir manntalið. Það er búið að bera skýrslurnar í hús til húsráðenda og þeir beðnir að fylla á þær og hafa þær til þann 16., svoleiðis að miða það við þann dag og hafa þær þá til, þannig að því verður ekki breytt hvað færslu snertir á skýrslunum, þó að ég telji þetta galla á þeim, að láta ekki telja þá, sem eru staddir alls staðar, eins og er í 10 ára manntölunum. En sem sagt, ég vil reyna að athuga hitt samt, og þess vegna óska ég eftir að fá það í allshn.