18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Brynjólfur Bjarnason:

Hæstv. fjmrh. var að fræða hv. þdm. á því, að þó að skatturinn af iðnaðarvörunum yrði afnuminn, þá yrði það ekki til þess að létta af iðnrekendum, vegna þess, eins og hann sagði, að skatturinn leggst alls ekki á þá, heldur á þá, sem vöruna kaupa. Þetta eru nú ekki annað en undanbrögð hjá hæstv. fjmrh. Það vita allir, að það er leyfilegt að leggja skattinn á vöruna. En það, sem hér er um að ræða, er sú staðreynd, að iðnrekendur gætu lagt alla þá kauphækkun, sem verkalýðsfélögin fara nú fram á, á vöruna, og samt mundi vöruverð íslenzkra iðnaðarvara geta stórlækkað, ef söluskatturinn félli niður. Það er þetta, sem hér er um að ræða, og það skilur hæstv. fjmrh. eins vel og aðrir. Auk þess mundi þetta beinlínis verða hagur fyrir iðnrekendur, bæði að því leyti til, að sumt af þessum skatti leggst óhjákvæmilega á þá eða einstök fyrirtæki í iðnaðinum, eins og hv. þm. Barð. sýndi réttilega fram á, í sinni ræðu. Þar sem um er að ræða margsköttun og skatturinn leggst þyngra á eitt fyrirtæki en annað, þá er það greinilegt, að til þess að standast samkeppni er ekki mögulegt fyrir slík fyrirtæki að jafna það með því að leggja þann aukaskatt, sem þau hafa orðið að greiða, á vöruna. Og svo það, sem er aðalatriðið og gildir fyrir alla iðnrekendur, að með því að sleppa við söluskattinn mundu þeir stórspara rekstrarfé, og mundi það þess vegna einnig verða þeim stórkostlegur stuðningur beinlínis. En það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er, að hér er um að ræða eins konar verndartolla fyrir erlenda framleiðslu, sem keppir við íslenzkan iðnað, og þetta hefur alltaf verið ein höfuðröksemdin fyrir því, að sjálfsagt er að afnema þennan skatt, og hefur margsinnis verið sýnt fram á það í umræðunum um söluskattinn. Það var reynt að sýna fram á það, þegar söluskatturinn var á lagður, hversu mikil fjarstæða þessi skattur væri, einmitt vegna þess að hann verkar sem verndartollur fyrir erlenda framleiðslu, sem keppir við innlenda framleiðslu. Að þessu leyti er hverjum manni sýnilegt, hver stórhagur það mundi vera fyrir iðnrekendur að sleppa við þennan skatt einnig beinlínis.

Hv. frsm., 1. þm. Eyf., vildi í fyrsta lagi mótmæla því, að söluskatturinn kæmi þyngst niður á þeim fátækustu, þeim, sem minnst hefðu úr að spila. Þetta hlýtur nú hv. frsm. að sjá eins og allir aðrir landsmenn, að skattur, sem leggst jafnt á allar vörur, hvort sem þær eru nauðsynlegar ellegar ónauðsynlegar, kemur tiltölulega þyngra niður á hinum fátæku og verður á þeim þyngstur baggi, erfiðast fyrir þá að standa undir honum, og einmitt þess vegna er söluskatturinn ranglátastur allra skatta. Þess vegna er ég á móti söluskattinum, alveg óháð því, hver er tekjuþörf ríkissjóðs, vegna þess að ég álít, að allir aðrir skattar séu betri, en söluskatturinn, það sé ekki hægt að finna ranglátari skatt. Þegar af þeirri ástæðu, hvað sem öðru líður, er ég andstæður söluskattinum. — Hv. þm. sagði, að ég hefði aldrei bent á það, hvað ætti að koma í staðinn fyrir söluskattinn. Það hefur margsinnis verið bent á það af þm. Sósfl. hér á Alþ. frá upphafi, hvernig hægt væri á réttlátari hátt að afla ríkinu tekna. Ég get nefnt sem dæmi að taka einkasölu á innlendum framleiðsluvörum, sem gefa mjög mikinn gróða. Það hafa meira að segja oftar, en einu sinni af hálfu sósíalista verið lögð fram frv. hér á Alþingi um það efni. Enn fremur er vitað, að það er hægt að spara mjög mikið að ósekju af útgjöldum ríkissjóðs. Það er hægt að draga mjög úr ríkisbákninu. En mér virðist, að frv. það, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþ. um framkvæmdabanka, beri ekki mikinn vott um áhuga hæstv. ríkisstj. í því efni. Gróði ýmissa aðila í þessu þjóðfélagi, ýmissa aðila, sem ekki eru beint í framleiðslunni, nemur hundruðum milljóna, og það er hægt að ná til þessa gróða með ýmsum ráðstöfunum, sem ég raunar skal játa, að núverandi hæstv. ríkisstj. er ekki líkleg til.