19.12.1952
Efri deild: 44. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

174. mál, jafnvirðiskaup og vöruskipti

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er til þess að greiða fyrir viðskiptum við þau lönd, sem aðeins geta eða leyfa að kaupa íslenzkar útflutningsvörur gegn greiðslu í framleiðsluvörum sinna eigin landa. Væri ábyrgð sú, sem hér er farið fram á, eigi veitt, mundi það valda því, að framleiðendur yrðu að taka á sig alla áhættu af viðskiptunum og yrðu auk þess að bíða eftir greiðslu þangað til inn hefðu verið fluttar vörur frá viðkomandi löndum og þær seldar hér, en þetta mundi torvelda mjög alla framleiðslu á útflutningsverðmætum landsmanna. Eftir upplýsingum frá Landsbankanum er í þessum mánuði ekki um að ræða neinar verulegar upphæðir, hvorki sem innstæðu erlendis né skuldir við erlenda banka í sambandi við þessi viðskipti. Töp á slíkum viðskiptum hafa engin orðið nema í sambandi við breytingar á gengi krónunnar 1950, en þau töp voru jöfnuð með gengishagnaði á öðrum sviðum. Hefur því ekki komið til fyrir ríkissjóð að greiða neitt vegna slíkrar ábyrgðar. Það er einnig upplýst, að vel gæti komið til mála, að ýmist yrði tap eða gróði á slíkum viðskiptum, og mundi bankinn gera þar jöfnuð á, er til kæmi, enda er ábyrgðin gefin til þess að tryggja, að bankinn fái ekki á sig neinar verulegar hallagreiðslur af viðskiptunum. Með tilvísun til þess, sem ég hef þegar lýst, leggur n. til einróma, að frv. verði samþ. óbreytt.