07.10.1952
Sameinað þing: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

1. mál, fjárlög 1953

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ef ákveðið væri í stjórnarskrá landsins, að hver sá þm., sem flytur þjóð sinni vísvitandi ósannindi og rangfærslu í ræðu frá Alþingi eða kemur fram í umr. á annan óþinglegan hátt, skyldi missa við það þingsetu, þá hefði tilheyrendum áreiðanlega verið hlíft við að hlusta á sumt af því, sem þeir hv. þrír þm. hafa látið frá sér fara, sem hér hafa talað á undan mér.

Í tilefni af ummælum hv. þm. Ísaf. vil ég aðeins segja það, að þau sýna greinilega, hversu smeykur þessi hv. þm. er við dóm fólksins við Ísafjarðardjúp yfir verkum hans og flokks hans. Lítilsvirðingarorðum hans um einstök byggðarlög við Djúp tel ég óþarft að svara.

Fjárlfrv. fyrir árið 1953, sem ráðh. hefur lagt hér fram og er til 1. umr., er í höfuðatriðum lítið frábrugðið fjárl. yfirstandandi árs. Heildartekjurnar eru áætlaðar nærri 12 millj. kr. hærri, án þess þó að gert sé ráð fyrir nokkrum nýjum tekjustofni. Mestur hluti hækkunarinnar er áætlaður af hærri tekjum frá tekju- og eignarskatti, tekjuskattsviðauka og stríðsgróðaskatti, eða alls 71/2 millj. kr. Hækkun tekna af stimpilgjöldum er áætluð 1.2 millj. kr., og hækkun á tekjum af ríkisstofnunum er áætluð rúml. 2 millj. kr. Aðrar áætlaðar hækkanir eru smávægilegar og skipta ekki máli.

Í 2. gr. tekjubálksins, 14. tölul., er gert ráð fyrir 300 þús. kr. tekjum af erfðafjárskatti. Á síðasta Alþ. var þessum tekjustofni ráðstafað með sérstökum l. til þess að sinna öðru ákveðnu hlutverki. Er liðurinn því tekinn á frv. fyrir mistök, sem sjálfsagt er að leiðrétta. En við það lækkar tekjuáætlunin um þá upphæð og hagstæður áætlaður greiðslujöfnuður sömuleiðis, en hann er á frv. áætlaður 560 þús. kr., eða 2.1 millj. kr. óhagstæðari, en á fjárl.

Af tekjuáætlun er því ljóst, að fjmrh. hefur ekki hugsað sér að leggja fram á þessu þingi frv. til nýrra skattal. eða beita sér fyrir því, að gerðar verði raunhæfar endurbætur á ríkjandi skattalöggjöf. Kom þetta og nokkuð fram í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan. Mun það valda þjóðinni miklum vonbrigðum. — Á síðasta Alþ. var samþykkt þáltill. frá sjálfstæðismönnum um að skipa mþn. til þess að gera till. um nýja og réttlátari skattalöggjöf og leggja þær fyrir það þing, sem nú situr. Er bæði vitað og viðurkennt, að skattalöggjöf sú, er vér búum við, er úrelt, óheilbrigð og í mörgum atriðum beinlínis ranglát. Það er einnig vitað, að margir þm. líta svo á, að réttlát og viturleg skattalöggjöf skapi traustari grundvöll undir fjárhagsafkomu fyrirtækja og einstaklinga og skapi þar með betri og öruggari vinnuskilyrði fyrir almenning, en bein og jafnan óviss fjárframlög úr ríkissjóði eða önnur bein afskipti af atvinnumálunum, eins og orðið hefur að láta í té á síðari árum beinlínis vegna hinna óhollu áhrifa skattalaganna á atvinnulífið í landinu. Það er því mjög aðkallandi, að n. ljúki sem fyrst störfum og afhendi þinginu till. sínar. Væri æskilegt, að þetta gæti orðið þegar á þessu þingi. Sé þess enginn kostur, er nauðsynlegt að fá vitneskju um, hvenær þess er að vænta, að verkinu verði lokið, því að hvorki þingmenn né þjóðin munu sætta sig við, að mál þetta verði dregið lengur, en eðlilegt er.

Það verður að teljast mikil bjartsýni að áætla nærri 8 millj. kr. hærri tekjur á næsta ári af tekjustofni, sem háður er afkomu þessa árs, eins og tekjuskatturinn er, nema því aðeins að á bak við liggi fyrirhuguð hækkun á gildandi skattstiga. Það er kunnugt, að síldveiði hefur aldrei brugðizt svo hrapallega sem í ár, og það er einnig kunnugt, að lokun fjarða og flóa fyrir dragnótaveiði hefur bakað mikið tjón ýmsum mönnum, sem áður höfðu af henni alldrjúgar tekjur, og ekkert fengið í staðinn. Það er enn fremur kunnugt, að varla er að vænta meðaltekna frá landbúnaðinum. Framleiðendur til lands og sjávar hafa mætt meiri erfiðleikum í ár vegna hækkandi kaupgjalds, meiri takmarkana á markaði og margs fleira, sem allt kemur til með að hafa áhrif á afkomu fyrirtækja og einstaklinga. En allt þetta hefur áhrif á tekjuskattinn á næsta ári. Þá er einnig ljóst, að hvað sem líður álögðum tekjuskatti undanfarið, þá er innheimta hans miklu lakari, en æskilegt væri, og sýnir ekkert betur, hve ótryggur tekjustofn hann er. Annars gefa hinar áætluðu hækkanir á tekjuliðunum fullt tilefni til þess að ætla, að ríkisstj. sé ákveðin í því að stuðla að því eftir megni að skapa atvinnuvegunum og því fólki, sem við þá starfar, möguleika til þess að inna af hendi allar þær greiðslur, sem renna eiga í ríkissjóðinn af fyrrnefndum tekjustofnum. Allt annað væri blekking, sem mundi hefna sin og skapa margvíslega erfiðleika, sem fyrst og fremst bitnuðu á ríkisstj. og ríkissjóði, en öruggasta leiðin að því marki hefði einmitt verið setning nýrra og viturlegra skattalaga.

Ég mun láta þessar aths. nægja um tekjubálk frv. á þessu stigi málsins.

Við athugun og samanburð á gjaldabálknum sést, að áætluð gjöld hafa hækkað um tæpar 20 millj. kr. á rekstrarreikningnum á fjárl. Kemur hækkunin nokkurn veginn jafnt niður á alla liði frv. nema þá, sem tilheyra verklegum framkvæmdum. Áætluð útgjöld til þeirra eru viðast hvar áætluð nokkru lægri, en í fjárl. Af þessu er ljóst, að útgjaldahækkunin stafar svo að segja eingöngu af hækkandi launum, enda er það greinilega tekið fram í aths. frv. Það hefur jafnan verið áhyggju- og umræðuefni á hverju þingi undanfarin ár að sjá fjárl. hækka um tugi milljóna af þessum ástæðum. Og það er alveg ljóst, að verði ekki unnt að spyrna hér við fótum, endar það að lokum með því, að það verður eina verkefni hæstv. fjmrh. og Alþ. að tryggja á einn eða annan hátt greiðslur launa til þeirra, sem sækja þau í einni eða annarri mynd í ríkissjóðinn. Væri þingsetan þá orðin ömurlegt starf, er svo væri komið málum. Við umr. um þessi mál á siðasta þingi var upplýst, að fjöldi starfsmanna ríkisins, m.a. við menntastofnanir og víðar, hafði raunverulega 60–90 þús. kr. árslaun frá ríkinu, þótt launal. ákvæðu þeim eigi meira, en 40–50 þús. kr. Þóttu upplýsingar þessar svo athyglisverðar, að rétt þótti að fyrirskipa gagngerða athugun á þessum málum, og var því samþ. í sambandi við afgreiðslu ákveðins lagafrv. svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði:

Ríkisstj. lætur fara fram fyrir 1. júní n.k. athugun á launum og viðbótarlaunum starfsmanna ríkis og ríkisstofnana, svo að ljóst sé, hverjar heildartekjur þeirra eru í launum frá ríkissjóði eða ríkisfyrirtækjum, samfara upplýsingum um þann vinnutíma, sem aðili lætur í té fyrir greidd laun. Að lokinni þeirri athugun og á grundvelli þeirra upplýsinga, sem þannig liggja fyrir, skal ríkisstj. gera á ný till. um verðlagsuppbætur á laun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana og leggja þær síðan ásamt upplýsingunum fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Upplýsingar þær, sem hér um ræðir, fylgja ekki fjárlfrv., en væntanlega verða þær látnar Alþ. í té svo tímanlega, að unnt verði að athuga það fyrir afgreiðslu frv. við 2. umr. Hins vegar má segja, að hæstv. fjmrh. beri fram till. um verðlagsuppbætur á laun starfsmanna ríkisins, þar sem alls staðar er reiknað með ákveðinni hækkandi verðlagsvísitöluuppbót á laun, með þeim afleiðingum til útgjalda, sem ég hef lýst hér að framan. Verði þessar till. samþ., hækka enn laun þeirra manna, sem gáfu tilefni til rannsóknarinnar, í 70–100 þús. kr. að óbreyttum aukalaunum, án þess þó að þeir skili jafnlöngum vinnudegi og almennur verkamaður. Þykir mér skylt að láta þetta koma hér fram, þar sem skýrsla um rannsókn málsins fylgir ekki frv., en upplýsingar þessar hafa hins vegar vakið geysithygli meðal almennings.

Í 14. gr. B. á fjárlagafrv. eru áætlaðar 56 millj. kr. til kennslumálanna einna, en auk þess eru áætlaðar nokkrar milljónir á öðrum greinum til fræðslumálanna í ýmsum myndum. Við þetta bætast síðan stórar upphæðir frá sveitarsjóðunum, og þótt ríkið reisi og reki skóla viða um land og flestir séu jafnan fullskipaðir, hópast fólk á öllum aldri að öðrum menntalindum, svo sem bréfaskólum, námsflokkafræðslu, einkaskólum, námskeiðum og mörgu fleiru. Það er því ljóst, að menntaþrá fólksins á sér engin takmörk, og er það vel. En það sannar þá líka hitt, að engin nauðsyn bar til þess að lengja með lögum skólaskylduna, sem kostar ríkissjóð of fjár. En sé þess að vænta, sem allt bendir til, að framlög ríkissjóðs til fræðslumálanna verði framvegis hæsti liður útgjaldanna á fjárl., er full ástæða til þess að láta fara fram á því athugun, hvort það menntakerfi, sem við búum við, sé það hagkvæmasta, bezta og hollasta, sem völ er á, og hvort það sé alveg lífsnauðsyn, að margir af þeim mönnum, sem mennta þjóðina, þurfi að hafa allt að því 100 þús. kr. árstekjur.

Það hefur jafnan þótt nokkrum erfiðleikum bundið að afgreiða fjárl. fljótt og vel á síðasta þingi fyrir kosningar. Stjórnarandstaðan og jafnvel þm. yfirleitt hafa þá enn meiri áhuga fyrir því að koma fram málum sínum og halda þá venju fremur fast á kröfum sínum og óskum. Er út af fyrir sig ekkert við það að athuga. Slíkt kann að gefa þingi og stjórn enn gleggri mynd af þörfum þjóðarinnar á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Hitt verður hinn ábyrgi hluti þingsins jafnan að hafa hugfast, að úr öllum þörfum þjóðar, sem enn á flest ógert og hefur takmarkaða getu, er ekki unnt að bæta á einu ári, hversu góður vilji sem er fyrir hendi, og breytir þar engu um, þótt kosningar standi fyrir dyrum. Það er engin lausn vandamála að flana að framkvæmdum með það eitt fyrir augum að skapa mönnum eða flokkum fylgi við einar kosningar, ef síðar skyldi koma í ljós, að engir möguleikar eru til að ljúka þeim á eðlilegan hátt eða að víkja verður til hliðar öðru, sem þjóðinni mundi vera hollara að framkvæma, því að það má aldrei gleymast, að það, sem þjóðinni er mestur hagur að til tryggingar afkomu almennings bæði til lands og sjávar, á að hafa forgangsrétt hverju sinni.

Þótt Sjálfstfl. hafi ekki lagt til hæstv. fjmrh. í núverandi ríkisstj., þá hefur hann þó heitið honum fylgi og fullum stuðningi í sambandi við afgreiðslu viturlegra fjárl. og jafnan haldið það heit í hvívetna. Hann mun því á þessu þingi sem fyrr standa að afgreiðslu fjárl. með fullri ábyrgðartilfinningu, alveg án tillits til þess, að kosningar eiga að fara fram á næsta ári, og væntir þess sama af samstarfsflokknum í þinginu. Virðing þingsins liggur nú við sem fyrr, að fjárl. verði afgreidd greiðsluhallalaus fyrir árslok og að hlúð verði í hvívetna að öllu því, sem skapar varanleg verðmæti fyrir þjóðina, og um þessi meginatriði vill Sjálfstfl. hafa fulla samvinnu.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins ræða að öðru leyti einstaka liði frv. Því verður nú, er þessari umr. hefur verið frestað, vísað til fjvn., og gefst þar tækifæri til þess að ræða einstök atriði þess og marka þá stefnu, sem endanlega verður lagt til að fylgt verði við afgreiðslu þess út úr þinginu.

Það fjárhagskerfi, sem þjóðin hefur búið við siðan snemma á árinu 1950, er núverandi ríkisstj. tók við völdum, hefur, eins og kunnugt er, haft viðtæk áhrif á fjárhag ríkisins, afkomu atvinnuveganna og einstaklinganna í landinn. Meðan Sjálfstfl. fór einn með ríkisstj. eftir síðustu almennar kosningar, undirbjó hann þetta mál í öllum aðalatriðum og lagði til, að fallizt skyldi á till. hans til þess að bjarga atvinnuvegunum og fjárhag ríkisins. Eins og þá var komið málum, voru atvinnuvegirnir að stöðvast í raun og veru. Vöruskorturinn í landinu var þá slíkur, að biðraðir stóðu tímunum saman við hverja búð, sem hafði eitthvað að selja. Svarti markaðurinn var stór tekjulind fyrir einstaka menn, en ekkert af þeim gróða fór í ríkissjóð eða í sveitarsjóðina. Neytandinn varð að velja á milli að greiða hið krafða verð eða vera án vörunnar. Um ekkert var barizt jafnhatrammlega og um innflutningsog gjaldeyrísleyfin. Allra bragða var neytt til þess að klófesta þau, einnig á svörtum markaði, því að hver sem hlaut þau í ríkum mæli öðlaðist jafnframt bæði arð og völd, enda var lögð höfuðáherzla á það í kosningunum 1949 af Framsfl., að frambjóðendur lofuðu því að vinna að auknum innflutningsfríðindum fyrir kaupfélögin og Sambandið. Sjálfstfl. var fullkomlega ljós sú hætta, sem almennu frelsi stafaði af þessu ástandi í þjóðfélaginu. Hann tók því upp baráttu fyrir meira frelsi í innflutningi og viðskiptum, með þeim árangri, að nú er svarti markaðurinn dauður, biðraðirnar horfnar, búðirnar fullar af vörum og fólkinu frjálst að verzla þar, sem það telur sér hagkvæmast. Hið skráða verð á erlendum gjaldeyri var þá í engu samræmi við kaupmáttinn innanlands, enda boðið margfalt í hann á svörtum markaði. Verði hans var því breytt til samræmis við annað verðlag í landinu. Hundruðum milljóna var varið til styrktar bátaflotanum, og fór sú upphæð vaxandi við hver áramót. Þessum bótagreiðslum var hætt og þeim létt af ríkissjóði. Útgerðarmönnum var hins vegar leyft að selja nokkurn hluta gjaldeyrisins með hærra verði til kaupa á vörum, sem ekki voru lífsnauðsynlegar til framfærslu almenningi. Settar voru reglur um greiðslur launa til tryggingar því, að hagur launþega yrði ekki fyrir borð borinn. Tveir stærstu stjórnmálafl. á Alþingi komu sér saman um að framkvæma þessar till., en minnsta flokkinn skorti manndóm til þess að taka þátt í þeirri uppbyggingarstarfsemi. Skýrsla hæstv. fjmrh. um fjárhagsafkomu ríkissjóðs og fjárlfrv. sjálft, sem samið er með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur af þessu kerfi, síðan það var tekið upp, bera þess glöggt vitni, að afkoma almennings í landinu og afkoma ríkissjóðs hefur á allan hátt verið betri en jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að vona þann tíma, sem þjóðin hefur búið við þetta kerfi, sem Sjálfstfl. lagði grundvöllinn að og barðist fyrir að tekið yrði upp til að komast yfir þá erfiðleika, sem þá steðjuðu að. Og þó hefur þjóðin á þessu tímabili orðið fyrir óvanalega þungum áföllum vegna aflaleysis og erfiðs tíðarfars. Hin harða gagnrýni stjórnarandstöðunnar á þetta fyrirkomulag — án þess þó að geta bent á nokkuð annað betra — breytir engu um þessar staðreyndir. Að stjórnarflokkarnir eru ákveðnir í að halda þessari stefnu áfram nú, þrátt fyrir kosningar á næsta ári, sýnir kannske hvað bezt, hversu vel hún hefur gefizt. Ríkisstj. hefur að vísu ekki tekizt að stöðva dýrtíðina í landinu á þessu tímabili. En það hefur ekki heldur neinum þjóðum tekizt, sem við skiptum við. Þar fer vöruverð og kaupgjald sífellt hækkandi, og það hefur óviðráðanleg áhrif á vöruverð og dýrtíð hér á landi, sem ekki verður ráðið við nema með niðurgreiðslum úr ríkissjóði, sem taka verður aftur af fólkinu í sköttum. Þann hluta dýrtíðarinnar, sem stafar af hækkandi kaupgjaldi, er tæplega á meðfæri neinnar ríkisstj. að takmarka einhliða. Til þess þarf samkomulag við launastéttirnar, og öllum er kunnugt um, að það er ekki fyrir hendi. Mikill meiri hluti launþega telur sér enn trú um það, að með flestum krónum séu kjör þeirra tryggust. Meðan sú skoðun er ríkjandi, verður ekki létt verk að stöðva dýrtíðarskrúfuna, einkum á meðan erlent vöruverð fer sífellt hækkandi. Hitt hefur ríkisstj. aftur á móti gert, að sýna fullan vilja á því að styðja atvinnuvegina, eins og nú skal sýnt fram á.

Þegar nýsköpunarstjórnin tók við völdum árið 1944, lýsti hún því yfir fyrst allra ríkisstjórna, að hún vildi vinna að því ötullega, að allir landsmenn gætu haft atvinnu við sem arðvænlegastan atvinnurekstur. Gerði hún jafnframt þá þegar margar raunhæfar og viðtækar ráðstafanir til þess, að svo mætti verða. Sjálfstfl. hefur aldrei síðan látið niður falla baráttu fyrir því, að örugglega yrði haldið áfram á þessari braut, sem hann þá markaði í atvinnulífi þjóðarinnar. Með þessari yfirlýsingu Sjálfstfl. og þeim framkvæmdum, sem fyrir hans áhrif hafa fylgt henni síðan, hefst hér sú stórkostlegasta bylting í atvinnuháttum þjóðarinnar, sem nokkru sinni hefur átt sér stað í lífi hennar.

Margt af því, sem gert var þá, og margt af því, sem á eftir fór, hefur ekki einasta bætt stórkostlega hag þegnanna og aukið, meira en nokkuð annað, tekjur ríkis og sveitarsjóða, heldur hefur það og beinlínis komið í veg fyrir, að eymdarástand yrði með þjóðinni sem afleiðing af aflabresti og illviðrum. Vegna þessarar baráttu Sjálfstfl. og vegna þess skilnings, sem hún hefur mætt hjá samstarfsflokkum hans á hverjum tíma, hefur tekizt að halda hér uppi í mjög ríkum mæli atvinnu við betri kjör, en áður voru þekkt og við betri kjör en þekkt eru í flestum öðrum löndum.

Fjárlagafrv. ber þess glöggt vitni, að ríkisstj. ætlar að hafa samvinnu um að halda áfram á þessari braut, og er það vel, enda er það meginskilyrði fyrir því, að treysta megi tekjuáætluninni, að tryggt sé, að flestir menn hafi atvinnu við sem arðvænlegust kjör. Það hefur að vísu ávallt verið ágreiningur um það í þinginu, eftir hvaða leiðum og með hvaða skilyrðum skyldi veita hina miklu fjárhagslegu aðstoð til atvinnuaukningar, sem látin hefur verið í té á hverjum tíma. Meiri hluti þingsins hefur markað þá stefnu að gefa með margvíslegri löggjöf meiri rétt og betri aðstöðu fjöldaframtakinu, en einstaklingsframtakinu í atvinnurekstri í landinu og með því beinlínis stuðlað að því að ota meira og meira einstaklingunum út af athafnasviðinu. Ég fullyrði, að þessi stefna er röng. Framtak, sem hópur manna stendur á bak við, oft sundurlyndur hópur, oft viljalítill til að leggja fram alla nauðsynlega krafta, sem til þess þarf að yfirvinna erfiðleikana, oft með minni ábyrgðartilfinningu, en æskilegt væri, á ekki að hafa meiri rétt í þjóðfélaginu og betri aðstöðu til að fá fjárhagsaðstoð frá ríkissjóði en framtak, sem á bak við stendur einn sterkur aðili, sterkur í skapgerð, viljasterkur, framsækinn og hafandi yfir að ráða mikilli reynslu og miklum hæfileikum til þess að leysa vanda. Framtak á ekki að metast eftir því, hve margir eða fáir standa á bak við það, heldur eftir hinu, hvaða verðmæti það skapar fyrir þjóðarbúið. Þegar horfið verður að því að setja fyrst og fremst slíkt skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð, mun einstaklingsframtakið aftur leysa margan þann vandann,sem ríkisvaldið verður nú að ráða fram úr. Það þurfa því miður ekki að koma mörg eða stór áföll fyrir sum af þeim fyrirtækjum, sem fjöldaframtakið stendur að, svo að krafa komi fram um, að ríkissjóður taki við þeim að fullu og öllu. Og þessar kröfur hafa þegar komið fram frá sumum þeim aðilum, sem trúað hefur verið fyrir stórum fúlgum úr ríkissjóði, beinlínis vegna þess að nægilegur fjöldi stóð á bak við samtökin, en minna af viti og vilja til að yfirvinna erfiðleikana.

Þjóðin verður ekki lengi öndvegisþjóð, eigi hún eftir að lúta fyrirskipunum frá ríkisvaldinu um öll sín atvinnumál, en það kann að vera skemmra undan en margan grunar, ef haldið er fast við það að hafa mismunandi rétt til atvinnurekstrar, sem byggist á því, hvort margir eða fáir standa á bak við. Ég hef nýlega kynnzt ríkisstofnun í landi, sem er í miklum uppgangi eftir margvíslegar þrengingar, sem hefur það eitt takmark að aðstoða einstaklingsframtakið til þjóðnytjastarfa á öllum sviðum þjóðlífsins. Fullyrða forstjórar stofnunarinnar, að aldrei hefði umbótum þar í landi verið komið á svo sem raun ber vitni um, ef þessi stefna hefði ekki verið tekin upp. Hér förum við alveg þveröfugt að, enda sjást þess glögg merki í fjárlögum ríkisins. Það eru mörg og stór verkefni óleyst enn með þjóð vorri, sem einstaklingurinn mundi fúslega vilja glíma við, ef honum væru tryggðir möguleikar til að njóta sín og til að byggja upp atvinnureksturinn á heilbrigðum grundvelli.

Allt fram að síðustu aldamótum má segja, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar hafi aðeins verið tveir, landbúnaður og sjávarútvegur. Þótt nokkur útflutningur hafi jafnan verið frá landbúnaði, fór þó meginhluti framleiðslu hans til að fæða þjóðina, meðan sjávarútvegurinn sinnti meira því hlutverki að afla gjaldeyris í þjóðarbúið. Báðir áttu þeir það lengi vel sameiginlegt að flytja framleiðsluna út í formi hráefna og selja hana fyrir lægsta verð, og enn er þessu haldið áfram í allt of ríkum mæli. Ríkisstj. hefur fullan skilning á gildi beggja þessara atvinnuvega fyrir þjóðarheildina og hefur gert margvislegar ráðstafanir til tryggingar þróun þeirra langt fram í tímann. Verður sumt af því varla metið sem skyldi, fyrr en síðar. Sýnt er á fjárlagafrv., að stjórnin er staðráðin í að nema hér ekki staðar, og ber að fagna því. Hinar stórstigu framkvæmdir á sviði þessara mála gerðu ekki einasta að undirbyggja þriðja atvinnuveginn, iðnaðinn í landinu, heldur beinlínis kölluðu á hann í sífellt stærri stíl. Er nú sýnt, að hvorki landbúnaður né sjávarútvegur fær notið sín til hálfs, nema samfara risi hér upp nægilega öflugur og nægilega fjölbreyttur iðnaður, sem tekur við hráefnunum frá sjó og landi og breytir þeim í svo verðmæta vöru sem kostur er á, áður en hún er seld innanlands eða utan, og gæti auk þess lagt atvinnuvegunum til hentug áhöld og efni, eftir því sem þörf er á hverjum tíma.

Þótt iðnaðurinn sé tiltölulega nýr atvinnuvegur í landinu, hefur hann samt sem áður náð því að verða álíka nauðsynlegur og umfangsmikill og hinir tveir, sem fyrir voru. Bezta sönnunin fyrir þroskaskilyrðum hans og viðgangi er hin glæsilega sýning, sem haldin er þessa daga á íslenzkri iðnaðarframleiðslu.

Það er nú þegar ljóst, að þessi atvinnuvegur er þjóðinni svo þýðingarmikill, að skipulagning hans og þróun er eini möguleikinn til þess að útrýma varanlegu atvinnuleysi í landinu, eini möguleikinn til þess að tryggja það, að allir landsmenn, einnig þeir, sem ekki ganga heilir til skógar eða ekki hafa fyrir aðrar sakir náð fullu vinnuþreki, hafi atvinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur. Það væri rangt að halda því fram, að núverandi ríkisstj. hafi sýnt íslenzkum iðnaðarmálum tómlæti. Hún hefur þvert á móti stutt að þróun hans á margan hátt og þá fyrst og fremst með því að koma upp og styðja að því að koma upp orkuverum fyrir marga tugi milljóna króna, sem eru undirstaðan undir því, að iðnaðurinn geti blómgazt. Hún hefur einnig varið mörgum tugum milljóna króna til að koma upp verksmiðjum í landinu og undirbýr stöðugt áframhaldandi byggingu þeirra. Hún hefur stuðlað að því, að ýmsir aðrir aðilar kæmu upp verksmiðjum fyrir margar milljónir. Öll þessi orku- og iðjuver koma til með að veita þúsundum manna atvinnu í framtíðinni og spara milljónir í gjaldeyri og verða sterkur þáttur í uppbyggingu landsins, en það má ekki heldur nema hér staðar, því að einmitt hér er svo fjölmörgum og fjölþættum verkefnum að sinna, að iðnaðurinn þarf nú, frekar en nokkru sinni fyrr, á fullum skilningi og fullri samúð að halda frá þingi og stjórn.

Eitt af því, sem torveldar, að Íslendingar annist sjálfir allar skipaviðgerðir og skipasmíðar, er vöntun á stórri og góðri þurrkví, ásamt þeim tækjum, sem henni þurfa að fylgja. Er mál þetta í undirbúningi fyrir atbeina ríkisstj., og er þess að vænta, að ekki liði á löngu, þar til hafizt verður handa um að hrinda þessu máli í framkvæmd. En það, sem í dag er mest aðkallandi í iðnaðarmálunum og hægast er að bæta úr, ef þing og stjórn vill, er að skipuleggja sókn gegn innflutningi á öllum þeim vörum, sem íslenzkar hendur geta unnið í landinu eins vel og eins ódýrt og þær, sem inn eru fluttar. Þetta á ekki að ske fyrir sérstaka verndartolla, sem draga úr áhuga framleiðandans fyrir vöruvöndun og vöruverði, heldur fyrir skipulagða samvinnu milli innflytjandans, sem þekkir kröfur kaupandans, og framleiðandans, sem leggur sig fram til að uppfylla þær kröfur. Innflytjandinn er í dag örðugasti steinninn fyrir iðnaðinn að velta úr götu. Hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson, sem einnig fer með iðnaðarmálin, verður að beita sér fyrir því, að samvinna takist á milli þessara tveggja aðila, sem báðir geta unað við. Athugun á þessum málum öllum kann vel að leiða í ljós, að færa verði tollalöggjöf landsins til betri vegar á ýmsum sviðum, einkum hvað snertir innflutning hráefna og umbúða, en það má ekki hamla því, að þessum málum verði komið í sem bezt horf. Ég veit ekki, hvort mönnum er það alveg ljóst, að ástandið í þessum málum er þannig í sumum héruðum landsins, að ungir menn hafa engin tækifæri til að læra iðnað af þeim eldri, vegna þess að verk, sem þeir gætu unnið, eru keypt erlendis frá, og þetta er að verða eitt alvarlegasta atriðið fyrir aðra atvinnuvegi sums staðar. Ísland á ekki, svo að vitað sé, kol eða málma að vinna úr jörðu á borð við aðrar þjóðir eða við til að fullnægja þörfum heima fyrir, en það á hin hvítu kol og það á þúsundir af högum höndum, sem fullkomlega vega upp á móti hráefnaskortinum, ef nýting þeirra er vel og viturlega skipulögð. En eigi að gera hér átök, sem um munar, og þess er mikil þörf, verður óhjákvæmilegt að skipa sérstaka yfirstjórn yfir þessi mál, sem hefur það verk með höndum að skipuleggja þau á þann hátt, sem þjóðinni er hollast og nauðsynlegast. Má þessu þingi ekki ljúka svo, að ekki sé mörkuð hér föst og ákveðin stefna í þessu mikilsverða máli þjóðarinnar, því að það mun sannast, að því betur sem búið er að þeim málum, því hægara verður að koma saman greiðsluhallalausum fjárlögum, hvernig svo sem árar að öðru leyti.

Sjálfstæðismönnum um allt land má vera það mikið gleðiefni að vita, að stefna sú, sem flokkurinn markaði á sínum tíma í utanríkismálunum og hann einn allra flokka stóð óskiptur að, hefur fengið fullkomlega viðurkenningu allra lýðræðissinna í þessu landi, og þótt ágreiningur milli lýðræðisflokkanna hafi verið um mörg önnur mál, þá hafa þeir þó verið sammála um þetta veigamikla atriði. Hefur það hvarvetna aukið hróður Íslands, þar sem lýðræðið er nokkurs metið, og verið einn þátturinn í uppbyggingarstarfi því, sem stjórnin hefur unnið að. Verður þáttur Sjálfstfl. og þeirra manna hans, sem farið hafa með þau mál, aldrei ofmetinn. Það má einnig vera öllum landslýð gleðiefni, að tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins hafa borið gæfu til að hafa samvinnu um ríkisstjórn og afgreiðslu mála á Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili til að koma fram mörgum aðkallandi nauðsynjamálum, og hvað sem líður friðarspillum, sem standa utan við hin daglegu störf og samvinnu um afgreiðslu mála, en sýna samt hug sinn til samstarfsins með ummælum og blaðagreinum, sem torvelt er að skilja að samstarfsmennirnir vilji bera ábyrgð á, er þess þó að vænta, að hinir ábyrgu menn meti meira þörfina fyrir samstarfið, m.a. við afgreiðslu fjárlaga og annarra aðkallandi vandamála, en fávísan áróður óvandaðra manna.