27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

1. mál, fjárlög 1953

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér tvær brtt. við frv. til fjárl. Og þessar brtt. hafa nú verið prentaðar hér á þskj. 314 undir tölul. l.

Fyrri brtt. er um mál, sem er orðið gamall kunningi hér á hv. Alþ., þ.e. um framlag til byggingar fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég hef á hverju þingi undanfarin ár flutt brtt. um aukið framlag til þessarar byggingar vegna þess, hversu seint hún hefur gengið, en niðurstaðan hefur allajafna verið sú, að aukið framlag hefur ekki fengizt. Þrátt fyrir það hef ég nú leyft mér að gera enn þá eina tilraun til þess að fá þetta framlag hækkað úr 500 þús. kr., eins og það er á fjárlfrv., upp í 1 millj. Bygging þessa sjúkrahúss er nú búin að standa í rúm 7 ár, og er það nokkuð langur tími, þegar tekið er tillit til þess, hversu brýn þörfin var fyrir sjúkrahúsið og hversu allt of lengi það hafði dregizt, að byrjað væri á þessari nauðsynlegu byggingu. En nú eru þessar byggingarframkvæmdir búnar að standa í rúm 7 ár, og er nú loksins svo komið, að byggingin sjálf má heita næstum fullbúin. Það er aðeins minni háttar, sem eftir er að ljúka við í sambandi við sjálfa bygginguna. Hins vegar vantar enn þá húsgögu, sem náttúrlega kosta mikið fé í svona stóra byggingu, sjúkrarúm og ýmisleg húsgögn, sem þarna þarf, svo og sængurfatnað og annað slíkt, og svo enn fremur ýmislegt við bygginguna úti og inni og þá sérstaklega við að laga til þá stóru lóð, sem byggingunni fylgir. Þetta er það, sem einkum er eftir að gera. En þó er komið svo eftir þennan langa tíma, að nú er það þó ekki nema herzlumunurinn, sem vantar, til þess að byggingunni sé að fullu lokið utan og innan og hún geti tekið til starfa. Og ég álít, að sá tími, sem þessar framkvæmdir þegar hafa staðið, sé orðinn svo langur, að Alþ. ætti að sjá sóma sinn í því að auka nú svo framlagið til þessarar byggingar, að hægt væri að ljúka því, sem eftir er, og að sjúkrahúsið gæti tekið til starfa á næsta ári.

Ég skal geta þess, að kostnaður við bygginguna, eins og hún er nú, mun vera því sem næst 9 millj. kr. Af þessu er ríkið búið að leggja fram um 3 millj. kr., eða nákvæmlega tiltekið 3 millj. og 60 þús. kr., eða um 1/3 af byggingarkostnaði, en samkv. l. á ríkið að leggja fram 3/5 byggingarkostnaðarins, eins og hv. alþm. mun kunnugt, en það mundi nema 5,4 millj., og lætur þá nærri, að ríkið skuldi nú af framlagi sinn til byggingarinnar um 21/2 millj. kr. Nú er hins vegar, eins og ég nefndi áðan, ekki nema 1/2 millj. á frv. til þessarar framkvæmdar, og ef með einhverjum ráðum yrði útvegað fé til þess að ljúka byggingunni, svo að sjúkrahúsið gæti tekið til starfa á næsta ári, þá mundi með þessari fjárveitingu enn vaxa sú skuld, sem ríkissjóður er í lögum samkv. við þessa stofnun. Ég álít aftur á móti, að það væri meiri þörf á því, að ríkissjóður minnkaði þessa skuld og greiddi þannig fyrir því, að hægt væri á næsta ári að láta stofnunina taka til starfa, því að um þörfina fyrir það verður áreiðanlega ekki deilt.

Ég vil þess vegna vænta þess, þrátt fyrir þær undirtektir, sem ég hef fengið undir brtt. minar um þetta efni á undanförnum þingum, að þetta fari nú á annan veg og þessi till. um hækkun á framlaginn upp í 1 millj. kr. verði nú samþ. sem vottur þess, að þm. vilji stuðla að því, að hægt verði að taka þessa byggingu í notkun.

Ég ræddi það nokkuð í fyrra og kannske ekki ástæða til að fara út í það nú, að það leiðir af sér þó nokkuð mikinn rekstrarkostnað að hafa þessa byggingu svona ónotaða árum saman. Þó að ekki sé hægt að hafa af henni það gagn, sem til er ætlazt, sem sjúkrahúsi, þá kostar það mikið fé að hita bygginguna upp og halda henni við á sómasamlegan hátt og hafa með henni þá umsjón, sem óhjákvæmileg er. En sá verulega mikli rekstrarkostnaður, sem á þessu er þessi ár, fer að sjálfsögðu allur til ónýtis, á meðan ekki koma í staðinn þau not, sem til er ætlazt og eiga að verða af þessari stofnun, svoleiðis að það er ekki fjárhagslega séð — að mínu áliti — neitt hyggilegt að draga þessar fjárveitingar um of á langinn, og ég tel, að það hafi verið óhyggilegt af ríkisstj. að leggja ekki örara fram fé til þessarar stofnunar, en gert hefur verið.

Ég skal þá ekki ræða frekar um þessa till., en ég flyt hérna eina litla till. aðra við brtt. hv. fjvn. á þskj. 282, við 15. liðinn þar, þ.e.a.s. brúargerðir, og 13. tölulið í brúargerðunum, þ.e. framlag til byggingar brúar á Glerá. Ég leyfi mér að leggja til, að það verði hækkað úr 50 þús. kr., eins og n. leggur til, og upp í 100 þús. kr.

Á fjárlögum yfirstandandi árs voru veittar 100 þús. kr. til þessarar brúarbyggingar. Því miður hefur framkvæmdin á byggingu brúarinnar dregizt úr hömlu, — ég veit ekki vel, hvaða ástæður eru til þess, — en það stafar þó út af fyrir sig ekki af því, að fé hafi ekki verið fyrir hendi, því að auk þessara 100 þús. kr., sem veittar voru á fjárlögum yfirstandandi árs til brúarbyggingarinnar, þá veitti Akureyrarbær einnig jafnháa upphæð af sinni hálfu. Og mér er kunnugt um það, að bæjarstjórn bauð að leggja fram það fé, ef framkvæmdinni yrði haldið áfram á s.l. sumri, svo að mér skilst, að það hafi staðið á umboðsmönnum ríkisins í þessu efni. En það tel ég hins vegar ekki vera neina ástæðu til þess, að nú sé dregið úr fjárframlagi til brúarinnar, og tel þess vegna sjálfsagt, að það verði ekki minnkað frá því, sem var á síðasta ári, heldur verði aftur veittar nú 100 þús. kr. til brúarbyggingarinnar. Og ég vildi þá vona, að framkvæmdavaldið gerði skyldu sína í því að koma framkvæmdinni á, því að þessi brú er orðin mjög nauðsynleg vegna samgangna Akureyrarbæjar og sérstaklega Glerárþorps, en þó ekki aðeins það, heldur líka vegna samgangnanna almennt til Akureyrarbæjar, eins og ég gerði grein fyrir hér áður í sambandi við þetta mál, og ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á að endurtaka þau rök hér að nýju. Ég vona hins vegar, af því að hér er um tiltölulega litla fjárhæð að ræða, sem áreiðanlega væri hægt að ná, jafnvel kannske með innbyrðis hreyfingu á milli framlaga til brúanna, án þess að ég sé að leggja það sérstaklega til, — en hvort sem það yrði nú gert eða ekki, þá er hér um svo litla upphæð að ræða, að það yrðu áreiðanlega engin vandræði úr því að leggja hana fram, ef til þess væri fullur vilji. Og þó að mér sé ekki fyllilega kunnugt um það, þá held ég þó, að ég megi segja, að vegamálastjóri hafi lagt til, að þetta framlag til Glerárbrúar yrði eins á næsta árs fjárlögum eins og það var á fjárlögum þessa árs og eins og ég nú legg til að það verði. Vona ég þess vegna, að það verði samþ.