27.11.1952
Sameinað þing: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

1. mál, fjárlög 1953

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið. viðstaddur áðan, þegar hv. frsm., hv. þm. Barð., flutti sína ræðu. En hann hefur tjáð mér viðvíkjandi fyrirspurn, sem ég beindi til fjvn. viðvíkjandi byggingu á brúnni hjá Iðu, að n. hefði ekki haft nein afskipti af því máli og ekki yfir höfuð haft neina íhlutun um, hvernig fé brúasjóðs er varið, en bygging þessarar brúar á að framkvæma af fé brúasjóðs, ekki mundi þó horfa vænlega um þessa brúarsmíði, því að féð mundi ætlað til annarra hluta. Mér dettur ekki í hug að átelja hið minnsta nokkuð hjá hv. fjvn. í þessum efnum, frekar en öðru í hennar starfi. Ég veit, að það er bæði vanþakklátt og vandasamt og hv. n. hefur haft í mörg horn að lita og ærinn vanda á höndum að gera sínar till. En ég vil vona, að betur rætist úr, en á horfist og eitthvað verði unnt að búa í haginn fyrir þessa brúarsmíði, því að Alþ. sjálft sem stofnun á hér hlut að máli. Það er illa farið, ef sú skoðun fer að festa rætur úti á meðal þjóðarinnar, að upp úr samþykktum þess sé ekkert leggjandi. En það eiga menn nokkurn rétt á að álykta, ef það fer svo mjög á milli mála, að það, sem búið er að lofa að framkvæma, dregst svo árum skiptir.

Þá er það annað atriði, sem hér hefur komið fram, og það var aðallega þess vegna, sem ég bað um orðið. Það var út af ræðu hæstv. menntmrh. viðvíkjandi byggingu menntaskóla á Laugarvatni og fjárveitingu til hans.

Ég sé nú, að hæstv. ráðherra er ekki hér staddur, og þykir mér það leiðinlegt, því að ég hefði fremur kosið, að hann heyrði það, sem ég vildi segja um það mál. En ég get líka dregið mál mitt mjög saman, sakir þess að hv. frsm. fjvn. hefur gert því máli ágæt skil í sinni ræðu, þegar hann minntist á þetta mál og svaraði ræðu hæstv. ráðherra. Enn fremur hefur hv. samþm. minn gefið mikilsverðar upplýsingar um húsakost skólans og hvernig það skipast til betri vegar, þegar búið er að koma upp því skólahúsi, sem er nú í smíðum. Ég ætla þess vegna ekki að fara fleiri orðtum um þessi atriði. En það er viðvíkjandi því atriði hjá hæstv. ráðherra, hvernig hann hefur hagað framkvæmdum — eða öllu heldur framkvæmdaleysi, sem ég vil fara nokkrum orðum, og má þó vera, að það sé óþarft, því að ég gat því miður ekki komið nógu fljótt inn til að heyra alla ræðu hv. frsm. um þetta efni, og má vel vera, að hann hafi eitthvað líka vikið einmitt að því atriðinu, sem ég ætla nú að gera að umtalsefni. Það var utanbæjarmaður, gestur í bænum, sem þurfti að eiga tal við mig, og fyrir því tafðist ég. Annars mundi ég hafa hlustað eftir því, sem hér hefur gerzt, hefði mér verið það mögulegt.

Hæstv. ráðherra hefur neitað að framkvæma vilja Alþ. um stofnun menntaskólans. Þó eru skýlaus lagafyrirmæli um það, að þegar Alþ. samþykkir fjárveitingu til stofnunar menntaskóla í sveit, þá skuli skólinn stofnaður. Þessi ákvæði gildandi l. um þetta efni eru svo skýlaus og skýr, að ekki verður um villzt. Alþ., hið síðasta, samþykkti þetta nær einróma. Ég ætla, að það hafi verið einir 5 menn á móti og eitthvað ámóta margir, sem sátu hjá. Mig minnir, að það væru nærri 40 alþm., sem greiddu atkv. með fjárveitingunni til stofnunar menntaskóla á Laugarvatni. Fylgið með þessu máli var það mikið, að það eru mjög fá mál, sem afgreidd eru í Alþ., sem hafa svona eindregið fylgi. Hæstv. ráðh. hefur svo fært þær ástæður fram fyrir neitun sinni, að þessi fjárveiting til stofnunar menntaskóla hafi verið svo lítil, að það næði ekki neinni átt og hrykki hvergi nærri til þeirra gjalda, sem af því leiddi að stofna skólann. Þess ber þó að geta, að þessi fjárveiting á yfirstandandi ári átti aðeins að vera til launagreiðslu í þágu þessa skóla á Laugarvatni, en ekki til bygginga eða neins annars. Það var skýrt tekið fram, þegar málið var borið hér fram, og þurfti enginn að fara í neinar grafgötur um það, til hvers átti að verja þessum fjármunum. Hæstv. ráðh. færir svo fram þær ástæður, að það hefði verið nauðsynlegt að sjá fyrir húsakosti skólans um leið og til þeirra hluta nægði þetta fé auðvitað ekki neitt, og það er rétt hjá hæstv. ráðh. En það var ekki heldur til þess ætlazt — hefur engum dottið í hug. Og þó að hæstv. ráðh. telji sér máske skylt að hafa í þessum efnum sem öðrum, sem heyra undir hans starf, fulla forsjá, — og vil ég sízt verða til þess að misvirða það, ég þykist kunna að meta einmitt þess konar vinnubrögð hjá hæstv. ráðh. sem öðrum, — þá má ráðh. samt ekki ætla sér að fara þannig með nær alla þm., og það margt mætra manna, sem þar eru og greiddu atkvæði með, eins og þeir væru ómyndugir að sínum gerðum eða hefðu ekki gert sér grein fyrir, hvað þessi samþykkt þýddi.

Hæstv. ráðh. færir nú fram þær ástæður, að það þurfi að byggja sérstök hús fyrir skólann og þau komi til með að kosta 6–7 millj. og ekkert megi vera sameiginlegt með þeim héraðsskóla, sem þar er, engin sameiginleg hús eða neitt þess konar. Það er vitaskuld mesta fjarstæða, að þetta skuli gert í skyndi og verða að koma samstundis, um leið og skólinn tekur til starfa. Mér skildist á hæstv. ráðh., að þetta fyrirkomulag þyrfti helzt að vera eins og hann setur það fram, til þess að skólinn gæti notið sin. Mig hálffurðar á þessu, m.a., eins og ég býst við, að hv. frsm. hafi einmitt haft á orði, þar sem hér er annar skóli, sem útskrifar stúdenta, og þar fer kennslan fram undir sama þaki og nemendum, sem leggja allt annað nám fyrir sig, er veitt tilsögn. Ég á þar við Verzlunarskólann. Og ég hef ekki heyrt á þessum hæstv. ráðh., að hann hafi neitt við það að athuga. Að minnsta kosti kom það ekki fram í þeirri ræðu, sem hann flutti hér í kvöld. Nú er það vitaskuld um slíkt mál sem þetta, að þá verður vafalaust að því stefnt, að þessi skóli hafi sem mest sín eigin húsakynni. En húsakostur er það mikill á Laugarvatni, eins og hv. samþm. minn hefur gert glögga grein fyrir, að þegar sú nýja bygging er komin í lag, sem nú er í smiðum, þá verður hægt að hafa aðgreiningu nokkuð glögga og góða á milli skólanna, þannig að það komi ekki að sök. Og vafalaust má leggja mikið upp úr því, sem komið er fram við kennslu á Laugarvatni, einmitt þessa kennslu, því að sem betur fer gefur hún góða raun. Það er að vísu ekki nema eitt einasta dæmi. Það er frá s.l. vori, þegar nokkrir nemendur þaðan tóku stúdentspróf. Til þess að taka það urðu þeir að koma hingað til Reykjavíkur, og nokkuð annað er það þó að fara að heiman og vera fjarvistum og taka próf undir þeim kringumstæðum. Þó að vafalaust hafi verið reynt að búa að nemendunum eftir föngum, þá er það nokkuð annað en að taka það í þeim skóla, þar sem þeir hafa stundað námið. En þeir nemendur, sem próf tóku í vor, gerðu það allir vel og flestir með prýði. Og ég vildi óska þess, einmitt hvað áhrærir menntun þeirra ungmenna, sem leggja þetta skólanám fyrir sig, að engir gerðu það lakara og þeim færist sem flestum þáð jafnvel úr hendi. Af því hefðu þeir gott sjálfir og þjóðin líka.

Hæstv. ráðh. lét í ljós, að eiginlega væri hann nú fús til þess að stofna menntaskóla í sveit. Ekki kunni ég samt nógu vel við það, þegar hæstv. ráðh. í sömu andránni dró það fram, að húsakostur Akureyrarskóla, sem hann nefndi, væri það mikill, að þetta væri alveg óþarfi, því að sá skóli gæti tekið við þeim nemendum, sem leituðu þessarar menntunar, ásamt menntaskólanum hér í Reykjavík, og þá Verzlunarskólanum, og færði fram sem ástæðu gegn því, að rétt væri að stofna menntaskóla í sveit, að húsakosturinn væri nú þarna fyrst og fremst svona mikill og svo hefðu kennarar við þann skóla ekki nóg að gera, nema skólinn væri fullskipaður, skildist mér. Ég held það geti varla verið misskilningur hjá mér, því að annars áttu þessar röksemdir ekkert erindi hér inn í umr. En hvað ber þá til þess, hví er verið að hafa kennara við skóla, sem ekkert hafa að gera? Mér finnst vera seilzt nokkuð langt eftir röksemdum gegn þessari stofnun, sem Alþingi hefur nú ákvarðað að stofna. Yfir höfuð gengu röksemdir hæstv. ráðh. allar út á það, að ástæða væri til þess að vera á móti því að stofna slíkan skóla í sveit. Ef hæstv. ráðh. meinar það, eins og hann hálfgert gaf í skyn, að hann vildi stofna menntaskóla í sveit, þá hefur honum farizt ákaflega óhöndulega í þessari röksemdafærslu. Hann vill láta okkur trúa því, að hann vilji stofna þennan skóla, eins og mér hefur reyndar fundizt annað veifið. En út í þetta vil ég ekki fara frekar. Það skiptir ekki svo miklu máli héðan af. Ég veit, að hv. Alþingi heldur við sínar gerðir, ég er alls óhræddur um það. Það lætur ekki segja sér það um ákvörðun, sem það tekur svona einróma með atkvæðum margra ágætismanna, að þeir hafi ekki gert sér ljóst, hvað atkvæði þeirra þýddi, þegar þeir greiddu atkvæði á sínum tíma með stofnun skólans.

Hæstv. ráðh. las þarna upp úr bréfi, sem hann hafði skrifað. Það hef ég ekki séð og ekki heyrt úr því fyrr, en hæstv. ráðh. las upp úr því. Þar kenndi nú ýmiss misskilnings, sýndist mér. En þar sem hæstv. ráðh. er nú ekki viðstaddur og heyrir ekkert af því, sem ég hef fram að færa, þá ætla ég ekki að gera það frekar að umtalsefni. En eitt má hæstv. ráðh. vera alveg viss um, að stjórn Laugarvatnsskólans mun gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að greiða fyrir því, að stofnun þessa skóla fari sem bezt úr höndum. Hún mun verða hin fúsasta til samvinnu við hæstv. ráðh. um að uppfylla þær kröfur, sem hann gerir um sem bezt fyrirkomulag á kennslu við þennan skóla og það, hvernig þar er skipað húsum fyrir héraðsskólann annars vegar og menntaskólann hins vegar; það má hæstv. ráðh. vera alveg viss um.

Og ég vil vona það, að innan stundar, þegar hann leitar eftir samvinnu um slíkt efni við skólanefndina, þá sannfærist hann um það, að þar er góðum vilja að mæta, eins og málefnið á skilið. Þá mun af hálfu okkar, sem höfum litið öðruvísi á þessa framkvæmd — eða framkvæmdaleysi hans, gleymast fljótt, þótt við hefðum kosið, að hann hefði hagað nokkuð öðruvísi sinni afstöðu gagnvart málefninu hingað til.