08.10.1952
Neðri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í fyrra var afgr. hér lagasetning, sem ákvað, að verðlagsuppbætur á laun skyldu vera þær sömu og um samdist milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, og gilti þetta ákvæði til 1. júní í vor. Með þessu frv. er lagt til að framlengja þetta ástand, framlengja þessi ákvæði næsta ár, þ.e.a.s. frá þessum tíma og til loka næsta árs. Ef til vill hefði mátt segja, að ríkisstjórnin hefði átt í sumar að gera ráðstafanir til að bæta við einhverjum nýjum ákvæðum í þessu sambandi, þar sem eldri ákvæði um launagreiðslurnar féllu niður 1. júní. En þess ber að gæta, að það kom aldrei til þess, að verðlagsuppbót þyrfti að breytast nokkuð eftir 1. júní og nú til þessa tíma, og þótti af þeim ástæðum ekki nauðsynlegt að grípa til brbl., heldur eðlilegt að bíða Alþingis, þar sem tími var til þess, til ákvörðunar um þetta málefni. Ég hygg, að ekki sé nauðsynlegt að hafa um þetta lengri framsögu, en leyfi mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni umr.