09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

1. mál, fjárlög 1953

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Niðurlagsorð hæstv. landbrh. kalla á andsvar strax. Hann sagði, hæstv. ráðh., að Alþfl. hefði neitað að taka á sig ábyrgð. Hæstv. ráðh. veit, að þetta er tilbúningur einn, hversu mikla stund sem hann leggur á að breiða þessa framleiðslu sína út um landið. Hitt er rétt, að Alþfl. hefur neitað því algerlega að taka á sig ábyrgð á gengislækkuninni og á framkvæmd og störfum núverandi ríkisstj. — Því, sem hæstv. ráðh. sagði um verkfallið og hvers vegna til þess væri stofnað, munu aðrir svara. En það skal hann muna, að meðal verkfallsmanna eru menn úr öllum flokkum, allmargir einnig úr hans flokki og stuðningsflokki, Sjálfstfl., einnig. Veit ég ekki betur, en að þeir sýni sama áhuga, sömu heilindi og sömu einbeitni í baráttunni fyrir sínum lífskjörum eins og aðrir verkfallsmenn. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað.

Við Finnboga Rút vil ég segja það, að heldur linast nú kappinn, þegar hann slær því föstu, að stefna núverandi ríkisstj., gengislækkunin, og það, sem henni fylgdi, sé beint framhald af þeim stöðvunartilraunum, sem næsta ríkisstj. á undan hafði í frammi. Þá brestur nú rökfræðin.

Hæstv. landbrh. flutti hér nokkra tölu um það, að kauphækkun væri hreinasti háski fyrir þjóðfélagið og sérstaklega hættuleg fyrir launþega sjálfa og líkleg til þess að spilla kjörum þeirra, ef þeir fengju hana fram að þjóðartekjum óbreyttum. Mig furðar á því, að þessi sami hæstv. ráðh., sem var að hæla sér af því, að það væri samkv. ákvæðum í lögum, að kaup bænda hefði hækkað um 121/2% í haust, skuli ekki sjá, hver háski stafar af þessu. Sé þjóðinni búinn háski af því, að laun verkamanna hækki, hlýtur sami háski að steðja að henni, ef kaup bændanna hækkar. Og hann hefur nú um næstum þriggja ára skeið unnið að því kappsamlega að auka tekjur milliliða og gróðamanna í landinu. Heldur hann, að minni háski stafi af þessum auknu tekjum, heldur en þó að verkamenn auki tekjur sínar svo, að þeir fái til hnífs og skeiðar? Slík rökfræði er ekki neinum bjóðandi.

En úr því að farið er að tala hér um verðlagið og skiptingu teknanna, þá er kannske rétt, að ég birti hv. þingheimi og öðrum áheyrendum nokkrar upplýsingar, sem ég hef fengið um, hvernig því er hagað. Ég hef hér lista yfir 9 algengar vörutegundir, sem hvert heimili notar og ekki teljast miklar álagningarvörur. Af hveiti, sem kostar 100 kr. í útsöluverði, renna tæpar 24 kr. í álagningu til milliliðanna. Af haframjöli renna 28–29 kr. af hverjum 100 kr. til milliliða í álagningu, af sykri nálægt 25 kr., af sítrónum nálægt 35 kr., af handsápu um 31 kr., af hreinlætisvörum eins og salernispappír 33 kr. hér um bil, af ullarefni 28 kr., af lérefti 33 kr. og eitthvað og af bollapörum og þess háttar um 42 kr. af hverjum 100 kr. Svo koma í viðbót við þetta tollarnir og B-lista skírteinagjald o.s.frv. Hvað skyldu nú tekjur þeirra manna, sem gera sér að atvinnu að verzla með þessar vörur, hafa aukizt við gengisfellinguna? Við skulum athuga það. Tökum vöru eins og haframjöl, algengustu nauðsynjavöru. Útsöluverðið á 100 kg af haframjöli er núna kr. 396.13. Af því renna til milliliðanna kr. 111.40. Þessi sama álagning var fyrir gengislækkunina kr. 43.35. Hækkunin er því kr. 68.05, eða 157%, sem þessi þjónusta við þjóðfélagið hefur hækkað um. Á sama tíma hafa laun verkamanna fengið 50% uppbót, þriðjunginn tæplega. Tökum annað, tökum hreinlætisvörur, salernispappír, 10 rúllur. Þær kosta nú kr. 25.63 í útsöluverði. Álagningin kr. 8.42. Hún var áður kr. 3.63. Hækkunin er kr. 4.79, eða yfir 132%. Svona má telja upp ótal vörutegundir, og niðurstaðan verður þessu svipuð. Það er ekki til neins að vera að tala um óskerta hækkun á álagningunni í þessu sambandi, vegna þess að hækkunin á vörunni sjálfri vegna gengislækkunar og tolla og bátagjaldeyris er svo gífurleg, að hún margfaldar álagninguna í krónum, þó að prósentan sé óbreytt.

Það er augljóst af þessu, að fyrir að annast dreifingu og sölu eins 100 kg poka af haframjöli á að borga kr. 111.40, þ.e.a.s. jafnmikið og fullt dagsverk hjá Dagsbrúnarmanni. Er vit í þessu? Er það eðlilegt, að það þurfi að kosta eins dags kaup fyrir Dagsbrúnarmann að úthluta einum poka af haframjöli, 100 kg? Ég hygg, að hér mætti lækka öllum að skaðlausu, og tel engan vafa á því.

Hæstv. ráðh. drap hér áðan á álagningu og milliliðakostnað landbúnaðarafurða. Eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, þá fá bændur nú kr. 13.80 fyrir hvert kg af kjöti. En milliliðakostnaðurinn á nýja kjötinu frysta er kr. 5.55, eða 40%, en 44% hér um bil, ef það er saltað. Þ.e.a.s., milliliðakostnaður á einum 20 kg dilkskrokk er hvorki meira né minna en liðugar 111 kr. Það er fullkomið dagsverk með Dagsbrúnarkaupi að koma einum einasta dilkskrokk til neytenda.

Hugsið ykkur, góðir hálsar! Hvað kostar verzlunin í landinu með þessu háttalagi? Hverjir hafa grætt á gengislækkuninni? Það eru milliliðirnir, sem þessi störf annast.

Síðan gengið var lækkað, hefur verið flutt inn vefnaðarvara af frílista fyrir 91 millj. kr. að innkaupsverði. Á þessa vöru hefði átt að leggja, meðan verðlagsákvæði voru í gildi, hjá heildsölum 6.5 millj. kr., en álagning þeirra hefur orðið 18.4 millj.; hjá smásölum samkv. verðlagsákvæðum 26.3 millj. kr., en álagningin varð 39.8 millj. kr. Samtals hefur álagningin orðið 58.2 millj. á þessa 91 millj. — og hækkunin 25.4 millj. fyrir að afhenda þessa vöru frá því, sem verðlagsákvæðin ákváðu. Þessi hækkun, 25 millj. kr., á álagningu þeirra, sem verzla með þessa vefnaðarvöru, nemur hvorki meiru né minnu en heilu árskaupi, reiknað með 300 dögum, 30 þús. kr. fyrir mann, fyrir yfir 800 manns. Er vit í þessu? Getur þjóðfélagið borið þetta? Er nauðsynlegt að hafa þetta svona?

Hæstv. ráðh. segja, að það sé ekki hægt að eyða meiru, en aflað er. Það sé ekki hægt að skipta meiru en því, sem framleitt er. Það er rétt. En því minna sem kemur til skiptanna, þeim mun meira er áriðandi, að skiptin séu réttlát, að enginn sé látinn hagnast á öðrum, ekki sé einum ívilnað á annars kostnað. Sök hæstv. ríkisstj. er sú, að alla sína valdatíð hefur hún mismunað stéttunum í landinu. Hún hefur dregið fram hlut þeirra, sem auðnum ráða og eignir hafa, og hún hefur skert hlut hinna, sem hafa átt lausafé og sparifé og vinnu sína til að lifa á. Kunningi minn einn keypti hús eða íbúð, réttara sagt, fyrir 5 árum fyrir 100 þús. kr. Hann átti engar eignir til og fékk féð að láni. Hann seldi íbúðina núna nýlega fyrir 250 þús. kr. Hann borgaði upp þær 100 þús. kr., sem hann hafði fengið að láni, og þá átti hann eftir 150 þús. kr. Þetta þykir smáræði. Þetta er aðeins lítið dæmi. En þetta má margfalda, ekki með 10, ekki með 100, heldur með þúsundum til þess að fá rétta mynd. Allan tímann síðan verðbólga styrjaldarinnar hófst hafa fasteignir og öll veruleg verðmæti stöðugt hækkað í verði með fallandi verði, peninganna. Fasteignirnar, sem menn áttu hér í Reykjavík fyrir 10 árum, hafa a.m.k. tífaldazt í verði. Sá, sem átti milljónavirði í fasteignum, á nú 10 milljóna virði. Hafi hann skuldað út á það, þá hafa skuldirnar minnkað um 9/10 hluta. Þær 500 millj. kr., sem talið er að menn eigi inni í bönkum og sparisjóðum, eru nú ekki meira virði heldur en sem svarar 50 millj. fyrir stríð. Gróði þeirra, sem hafa grætt á gengislækkuninni og vaxandi verðbólgu, var tekinn af þeim, sem áttu sparifé og lögðu bönkunum það til sem starfsfé, og þeim, sem ekki höfðu annað en launatekjur til að lifa á.

Í blaðinu Vísi stóð þann 26. nóv. s.l.:

„Á miklu veltur, að almenningur geti borið fullt traust til löggjafarþings og ríkisstjórnar, en á því hefur verið nokkur misbrestur um langt skeið.“

Hér er vissulega hófsamlega til orða tekið. Það er ekki sagt, að það sé nauðsynlegt, að þjóðin beri traust til ríkisstj. og Alþingis, heldur aðeins talið mikilsvert, að almenningur geti það, geti borið traust til stjórnarinnar. En að dómi þessa bezta stuðningsblaðs hæstv. ríkisstj. gengur jafnvel þessi fróma ósk lengra en svo, að nokkrar líkur séu til, að hægt sé að verða við henni. Það hefur verið á því nokkur misbrestur um langt skeið, segir blaðið, að almenningur geti borið traust til hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþ., sem hana styður.

Hvernig stendur á þessum ósköpum, að stuðningsblað ríkisstj. kemst að þessari niðurstöðu? Þeir útvegsmenn og sjómenn, sem trúðu því, að þessi ríkisstj. vildi með gengislækkun, bátagjaldeyri og skuldaskilum tryggja atvinnu þeirra og afkomu, hafa allir orðið fyrir sárum vonbrigðum. Þeir bændur, sem vonuðu, að gengislækkunaraðgerðir ríkisstj. mundu tryggja þeim öruggan markað fyrir afurðir þeirra, ekki aðeins hér innanlands, heldur einnig erlendis, eru nú sárlega vonsviknir. Þeir iðnaðarmenn og iðjurekendur, sem vonuðu, að gengislækkunin mundi bæta aðstöðu íslenzks iðnaðar og iðju, hafa orðið að segja upp verkafólkinu, láta mikinn og dýran vélakost og húsa ónotaðan eða hálfnotaðan. Og þeir verkamenn, sem trúðu því, að gengislækkunin mundi veita þeim aukna atvinnu án skerðingar á kaupmætti launanna, hafa fengið lækkun launa og stórfellt atvinnuleysi í ofanálag. Og þeir, sem trúðu loforðum ríkisstj. um lækkun tolla og skatta, skulu lita á fjárlagafrv. og sjá, hvað hækkunin er mikil. Og þeir, sem ef til vill hafa leyft sér að vona, að hæstv. ríkisstj. mundi vinna að því að draga úr misrétti og ójöfnuði á meðal landsmanna, forðast að mismuna mönnum eða stéttum, forðast að bæta hag eins á annars kostnað, — þeir hafa nú allir áreiðanlega lært þá lexíu, sem þeim seint liður úr minni. Vísa ég um það efni til þeirra upplýsinga, sem ég gaf hér áðan. Þess vegna er misbrestur á því, að almenningur geti, þótt hann feginn vildi, borið traust til hæstv. ríkisstj. Þeir, sem trúðu eða vonuðu, að kjör og hagur almennings mundi verða betri eða öruggari, en þegar hún tók við, eða a.m.k. ekki verri en þá var, hafa verið sárlega sviknir. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. gert að fullum sannindum og augljósum staðreyndum allar spár mínar og okkar Alþýðuflokksmanna um hinar háskalegu afleiðingar af gengislækkuninni og stefnu ríkisstj. í fjárhags-, viðskipta- og atvinnumálum, því miður.

Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, þegar hún tók við völdum, að hún teldi það sitt hlutverk að bjarga útflutningsatvinnuvegunum frá stöðvun og hruni, að koma rekstri þeirra á heilbrigðan grundvöll, létta skattana, afstýra atvinnuleysi og tryggja örugga atvinnu. Þessu marki átti að ná með gengislækkuninni. Ég leyfði mér þá að leiða rök að því, að gengislækkun út af fyrir sig gæti engan vanda leyst í þessu efni, en með henni væri gerð stórfelld röskun á efnahag landsbúa, eignir sparifjáreigenda væru skertar og töp þeirra gerð að gróða hinna, sem ættu fasteignir og notuðu lánsfé. Ég sýndi fram á, að tekjur launþega mundu verða rýrðar, en gróði auðstéttarinnar aukinn að sama skapi. Gengislækkun, verðfelling peninga, er ávallt háskasamleg og hlýtur að skapa nokkurt ranglæti. En jafnframt reyndi ég að sýna fram á, að gengislækkun án fjölmargra annarra samtímisráðstafana til þess að festa hið nýja gengi og koma í veg fyrir, að stéttir eða einstaklingar gerðu sér hana að gróðalind og féþúfu á kostnað annarra, væri augljóst glæfraspil, sem hlyti að leiða beint til ófarnaðar og til nýrrar gengislækkunar.

Engar slíkar ráðstafanir voru gerðar af hæstv. ríkisstj. Hún gerði ekkert til þess að festa hið nýja gengi. Hún sýndi enga viðleitni til þess að hafa hemil á dýrtíðaraukningunni eða gróðabrallinu. Þvert á móti. Hún ýtti undir hækkanirnar, gaf álagninguna frjálsa og gróðabrallinu lausan taum. Útlendu vörurnar hækkuðu að sjálfsögðu. Flutningsgjöldin hækkuðu líka, vextir, umboðslaun, þóknun. Tollarnir hækkuðu, skattarnir sömuleiðis. Innlenda varan, kjöt, smjör og mjólk, hækkaði einnig. Rafmagn, hitaveitugjöld til að fylgja kolaverðinu, útsvör o.s.frv. Allt hækkaði þetta. Hækkun á kaupgjaldi verkafólksins átti svo að koma þremur mánuðum síðar, eftir á, þá átti það að fá þá uppbót, sem vísitala næsta mánaðar á undan sagði til um.

Eftir tvö og hálft ár er svo komið, að framfærsluvísitalan í nóv. er orðin 163 stig. Hækkunin er næstum því sexfalt meiri heldur en sérfræðingar og ráðunautar stjórnarinnar sögðu fyrir um. Á sama tíma hefur kaupgjaldsvísitalan þó aðeins hækkað um 50 stig. Framfærsluvísitalan segir að sjálfsögðu ekki nema hálfan sannleikann. Og hún segir í raun og veru ekki neitt til um það, hvað framleiðslukostnaður útflutningsvaranna hefur aukizt. En það er augljóst mál, að sú hækkun, sem gengislækkunin kann að hafa haft í för með sér á vöruverði útflutnings, er meira en étin upp af þeirri verðhækkun, sem ríkisstj. hefur skapað sjálf í landinu. Ella hefði ekki þurft að bæta bátagjaldeyrinum við.

Ráðherrarnir hæstvirtir, Ólafur Thors og Steingrímur Steinþórsson, hafa með mörgum orðum lýst því, hve hörmulegt ástandið hafi verið, þegar stjórn Stefáns Jóhanns fór frá í árslok I949 og hinir tóku við. Ekki hafa þeir þó sagt, að það hafi verið komið í strand. Þeir hafa sagt, að það hafi litið út fyrir hrun og stöðvun. Þessu hruni og stöðvun, sem fram undan var, ætluðu þeir að afstýra, bjarga þjóðinni frá því. Allt þeirra skraf um hrunið, sem fram undan væri, var spásaga. Allt árið 1949 kenndi engrar stöðvunar hjá atvinnuvegunum, og nær einskis atvinnuleysis varð þá vart. En til uppbótagreiðslu á útflutningsafurðir voru greiddar um 31 millj. kr., eða sem svarar rösklega þriðjungnum af því, sem fjmrh. nú gerir ráð fyrir að söluskatturinn einn gefi honum á næsta ári.

Þannig var ástandið þá. Hvernig er þá ástandið nú, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur verið að bjarga bátaútveginum, sjávarútveginum allan þennan tíma, eftir að búið er að gera gengislækkun á gengislækkun ofan, leggja á bátagjaldeyri o.s.frv.? Ólafur Thors lýsti þessu svo í ræðu sinni í gærkvöld:

Bátaútvegurinn hefur orðið fyrir stórfelldu tapi og heldur við stöðvun vegna síldarleysisins. Meiri hluti nýsköpunartogaranna er rekinn með halla, 11 eru auglýstir til nauðungarsölu. Horfir þunglega með sölu saltfisks vegna birgða, bæði hér heima og erlendis. Voveiflegt útlit með sölu á freðfiski, 2/3 framleiðslunnar óseldir hér og í markaðslöndunum.

Þetta er lýsingin, sem hæstv. ráðh. gefur af árangrinum af starfsemi stjórnarinnar, árangrinum af gengislækkuninni og þeirra ráðstöfunum öðrum. En við þetta má bæta: Óselt smjör og ostar hrúgast upp í birgðaskemmum bændanna. Mjólkursalan minnkar mánuð frá mánuði. Atvinnuleysingjar skiptu þúsundum á siðasta vetri. Atvinnuleysið er þegar byrjað aftur, þó að hátt á annað þúsund manns hafi vinnu á Keflavíkurflugvelli. Svona er þá ástandið eftir lýsingu hæstv. ráðherra sjálfra.

Hæstv. sjútvmrh. kvað svo að orði, að ríkisstj. hefði lánazt að afstýra stórslysum til þessa. Hún mætti vera ánægð með þessi afrek sin, una hag sínum vel og ganga óhrædd til kosninganna næst. Ég er ekki viss um, að mat og dómur kjósenda sé hið sama á afrekum ráðherranna. — Hæstv. ráðh. sagði einnig, að ef hefði átt að afstýra gengislækkun og halda útveginum gangandi, hefði þurft að leggja yfir eina millj. króna á í nýjum sköttum og það hefði verið ómögulegt. Hvað hefur nú almenningur. fengið? Hann hefur fengið gengislækkunina og yfir eitt hundrað millj. króna í nýjum sköttum í gegnum bátagjaldeyrisfyrirkomulagið í viðbót við skattahækkanir þær, sem koma fram í fjárlagafrv. hjá Eysteini Jónssyni. En út úr þessu hafa þó ekki útflytjendur fengið meira en 54 millj. kr. vegna framleiðslu ársins 1951, og hefur þó ekki öll sú upphæð runnið í hlut útvegsmanna, því að hraðfrystihúsin munu hafa fengið af því mjög verulegan skerf.

Svör og afsakanir hæstv. ríkisstj. einkennast af tveimur orðum. Það er stöðugt endurtekið: „ef“ og ;,hefði“. Ef verzlunarárferði hefði verið betra en það var, þá hefði þetta nú slarkað. Ef síldveiðin hefði ekki brugðizt, þá sta2ðum við okkur bara vel. Ef ekki hefði komið ólukku stríðið í Kóreu, þá væri þetta allt í himnalagi. Ef ekki hefðu komið harðindi á Austurlandi og grasbrestur, ja, þá hefði ástandið verið allt annað og betra. Ef meira hefði fiskazt, þá væri allt í bezta lagi. En svo er bætt við: Ef meira hefði selzt og fyrir betra verð, þá væri allt í fullum gangi. Ef og hefði, hefði og ef, það voru svör hæstv. ríkisstjórnar.

Yfirleitt er það nú svo, að flestar ríkisstjórnir verða að mæta ýmsum örðugleikum. Og dómur kjósenda, dómur fólksins um þeirra frammistöðu fer eftir því, hvernig þær bregðast við, en ekki eftir því, hvað hefði orðið, ef svona og svona hefðu ástand og kringumstæður verið. Það er vissulega rétt, að ekki er hægt til lengdar að eyða meiru en aflað er, ekki hægt að skipta meiru til neytenda, og það er líka rétt, að sjávarútvegurinn hefur þrátt fyrir alla „björgunarstarfsemina“ orðið fyrir stórfelldum töpum á síðasta ári. En hitt er jafnvíst, að einmitt þessi töp sjávarútvegsins hafa orðið stórfelldasta gróða- og tekjulind fyrir aðrar stéttir og einstaklinga, fyrst af öllu heildsalana, sem hafa fengið innflutningsgróðann allan í sínar hendur, og einnig fyrir aðra þá viðskiptaaðila, eins og vinnslustöðvar, hraðfrystihús, vélaverkstæði, veiðarfæraverzlanir og aðra slíka viðskiptaaðila útgerðarinnar, sem hagnast af þeirra tapi, fyrir utan þá miklu röskun, sem ég drap á fyrr í mínu máli.

Ýmsir hv. ræðumenn hafa vikið að vinnustöðvuninni. Það er sízt að ástæðulausu, og er rétt að gera sér nokkuð í hugarlund, af hverju hún er sprottin og hvernig horfir. Ég hygg, að það geti ekki orkað tvímælis, að vinnustöðvunin nú er bein, rökrétt og óhjákvæmileg afleiðing af stefnu og framkvæmdum eða framkvæmdaleysi hæstv. núverandi ríkisstj. Hún er nauðvörn verkalýðsins, sem hefur séð og fundið kaupmátt launa sinna rýrna með hverjum mánuði, samtímis því sem aðrar stéttir auka sínar tekjur eftir vild og geðþótta, eins og ég áðan benti á. Eitt er sérkennilegt við þessa deilu: Báðir aðilar virðast sammála um í fyrsta lagi, að það sé eðlilegt, að verkalýðurinn þurfi og verði að fá kauphækkun, ef hann á að lifa mannsæmandi lífi, og í öðru lagi, að viðhlítandi lausn á deilunni sé varla hægt að finna, nema ríkisstj. geri sitt til að styðja að þeirri lausn. Deilan er um það, hvernig eigi að skipta tekjum þjóðarinnar, þeim verðmætum, sem þjóðin framleiðir með vinnu sinni. Og deilan er fyrir aðgerðir ríkisstj. að þessu sinni ekki einasta milli verkamannanna og þeirra, sem kallaðir eru atvinnurekendur. Deilan er um stærra atriði. Hún er um það, hvernig eigi að skipta þjóðartekjunum þannig, að það sé tryggt, að þeir, sem hingað til hafa borið skarðastan hlut frá borði, fái nokkrar bætur kjara sinna.

Hæstv. ríkisstj. hefur í þessum umr. hér ekki látið annað til sín heyra um sín afskipti af vinnudeilunni heldur en það eitt, sem skilja má sem hótun um, að ef verkalýðurinn fái bót á sínum kjörum, þá verði það notað sem tilefni til nýrrar gengislækkunar, nýrra skrefa á þeirri óheillabraut, sem hæstv. ríkisstj. hefur fetað undanfarin ár. Mætti ætla, að hæstv. ríkisstj. væri það ekki fjarri skapi, ef marka má af hennar fyrri aðgerðum. Því miður.