09.12.1952
Sameinað þing: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

1. mál, fjárlög 1953

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þessar eldhúsdagsumræður eru nú á enda. Stjórnmálaflokkarnir hafa, eftir því sem efni hafa staðið til, skýrt starf sitt og stefnu fyrir þjóðinni, sem er sá dómari, er endanlega dæmir verk þeirra og úrskurðar á lýðræðislegan hátt, hverjum hún treystir bezt til þess að stjórna málum sínum. Sá dómur verður senn upp kveðinn, og þá er mikils um vert, að þjóðin láti rólega yfirvegun og rétt mat staðreynda ráða afstöðu sinni, en láti ekki blekkjast af kjassmælgi þeirra manna, sem telja vænlegast til kjörfylgis að byggja fallegar skýjaborgir fyrir fólkið, en hylja veruleikann í moldviðri rakalausra fullyrðinga.

Á svo skömmum tíma sem ég hef yfir að ráða get ég ekki svarað nema litlu einu af því, sem fram hefur komið hér, enda gerist þess ekki þörf.

Hv. síðasti ræðumaður, 8. landsk., var hér með margar ráðleggingar til hæstv. núverandi ríkisstj. Ég vil leyfa mér að vísa þeim ráðleggingum að verulegu leyti heim til föðurhúsanna. Það fer ekki vel á því, að flokkur, sem hefur hlaupizt undan merkjum ábyrgðar og ekki þorað að taka afleiðingum sinna verka, sé að gefa þeim ráðleggingar, sem hafa tekið merkið upp og haldið áfram til þess að reyna að leysa vandamálin.

Hv. 2. landsk. þm., Lúðvík Jósefsson, ræddi hér í sinni ræðu um erfiðleikana á því að fá viðskipti við löndin austan járntjalds. Ég vil leyfa mér að upplýsa hér, að þessi hv. þm. hefur tvisvar sinnum sjálfur — eða fyrirtæki hans — fengið leyfi til viðskipta austur fyrir járntjald, en það hefur reynzt árangurslaust. Hann hefur ekki náð þeim viðskiptasamningum, sem hann stefndi til.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði hér, hvernig stæði á því, að ríkisstj. hefði haft varðskipin biluð 1. des. Það væri ekki nema eftir öðru, að þessi hv. þm. héldi því fram, að stjórnin hefði skemmt varðskipin, til þess að þau gætu verið biluð þennan dag.

Hv. þm. Ísaf., Hannibal Valdimarsson, sagði, að það hefði verið gert við varðskipin og þau hefðu ekki verið látin stöðvast.

Sannleikur málsins er sá, að það hefur aðeins verið gert við eitt varðskip. Eitt varðskip liggur í slipp og fær ekki viðgerð. Tvö eru í gangi enn. Þau eru sjófær, en þurfa viðgerðar og fá ekki þá viðgerð.

Ég ætla ekki að fara að eyða orðum að ummælum hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, um dómsmálastjórnina; rakalausum staðhæfingum hans um misnotkun hennar og dylgjum hans um það, að ráðh. og aðrir starfsmenn stjórnarráðsins, að mér skildist, væru þjófar.

Í gærkvöld vék hv. 3. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, að því, að það væri sannanlegt, að á tímabilinu frá 1939 til 1950 hefði kaupmáttur verkamannslauna aukizt aðeins um 130 stig. Hann vildi halda því fram, að þetta væri að kenna, að manni helzt skildist, óstjórn núverandi ríkisstj. Nú er það staðreynd málsins, að núverandi ríkisstj. hafði aðeins verið við völd í hálft ár, í árslok 1950. Allan þann tíma, 1939–49, hafði Alþfl. verið í stjórn, að undanskildum tveim árum. Hafi verið illa haldið á kjaramálum verkalýðsins á þessu tímabili, þá lendir sökin á því eigi síður á hans eigin mönnum, sem þykjast jafnan vera að springa af umhyggju fyrir verkalýðnum. — Reyndar er sannleikur málsins sá, að hér er um villandi upplýsingar að ræða, eins og sýnt hefur verið fram á hér í kvöld. Raunveruleg hækkun kaupmáttar vísitölunnar var 141 stig á þessu tímabili, og hækkun neyzluvísitölunnar var 143 stig, þannig, að þarna er um eðlilegt hlutfall að ræða á milli. En þessir útreikningar hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar snerta ekki núverandi ríkisstj. Hann hefði getað haldið áfram sínum upplýsingum, og með jafnmiklum rétti mætti halda, að upplýsingar Ólafs Björnssonar prófessors um það atriði væru réttar, eins og þær upplýsingar hans, sem Gylfi Þ. Gíslason vitnaði í. En samkvæmt útreikningi Ólafs Björnssonar hefur kaupmáttarvísitalan hækkað um 10 stig í stjórnartið hæstv. núverandi ríkisstj. Hlutur láglaunafólks hefur þó vaxið enn meir fyrir þá sök, að nú er aðeins greidd full vísitöluuppbót á hluta launanna.

En það er annað, sem þessi hv. þm. vék ekki að, en vert væri að minna á, og það er það, að á þessu tímabili, sem hann vitnar í, hefur upphæð launa Dagsbrúnarverkamanna aukizt að krónutölu um 1.000%, en á því sama tímabili hefur kaupmáttur launanna ekki aukizt nema um 30% eftir hans eigin upplýsingum. Þrátt fyrir það að Alþfl.- menn væru í ríkisstj. næstum allt þetta tímabil, þrátt fyrir aðgerðir fyrstu stjórnar Alþfl., þrátt fyrir tveggja ára stjórnarþátttöku kommúnista, þrátt fyrir allt verðlagseftirlit, höft og bönn, og þrátt fyrir öll verkföll, þá er kaupmáttur launanna ekki meiri en þessi, sem ég gat um. En í stjórnartíð núverandi ríkisstj., sem þessi hv. þm. og aðrir stjórnarandstæðingar telja, að sé verst allra stjórna, hefur þó kaupmáttur launanna aukizt um 10 stig.

Megininnihald í ræðu hv. stjórnarandstæðinga var um nauðsyn aukinna kjarabóta fyrir verkalýðinn. Ég skal fúslega taka undir það og vildi mæla það fyrir munn alls Sjálfstfl., að sjálfsagt er að vinna með öllum ráðum að því að bæta afkomu þjóðarinnar og þá fyrst og fremst þeirra, sem minnst bera úr býtum. Sjálfstfl. telur sig hafa sýnt það með baráttu sinni fyrir eflingu atvinnuveganna og auknum lífsþægindum almennings, að hann stefnir að því að veita bæði verkalýðnum og öðrum þjóðfélagsstéttum raunverulegar kjarabætur. Hitt er illt verk, að villa þjóðinni sýn um raunverulega afkomu sína.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa nú att verkalýðsfélögum landsins út í allsherjarverkfall. Verkfall er alvarlegt vopn. Þjóðfélagið hefur með lögum viðurkennt rétt verkalýðsfélaganna til að beita því vopni, en aðeins sem algerri nauðvörn, þegar önnur úrræði eru ekki fyrir hendi til þess að fá sanngjarnar kjarabætur. Það hefur skýrt komið fram í ræðum forustumanna verkfallsins sjálfs í þessum umr., að lagt hefur verið út í verkfall nú af fullkomnu ábyrgðarleysi, sem þjóðfélagið og hver einstakur verkamaður hlýtur að harma. Aðalkrafan í verkfallinu er sú að fá sem nemur 30% launahækkun. Ekki verður betur séð af ummælum hv. stjórnarandstæðinga í þessum umr. en þeir viðurkenni það sjónarmið atvinnurekenda, að atvinnuvegirnir beri ekki slíka kauphækkun. Hv. 3. landsk. þm. segir, að aðaláherzluna eigi ekki að leggja á hækkun launanna, og hv. þm. Ísaf., aðalforingi verkfallsmanna, hefur einnig tekið í sama streng og aðallega rætt um ýmsar leiðir til þess að létta opinberar álögur á borgarana. Bæði kommúnistar og Alþfl.- menn hafa í þessum umr. blátt áfram skorað á atvinnurekendur að samfylkja sér með kröfur á hendur ríkisstj. Hv. þm. Ísaf. hét gjarnan á bændurna til fylgis, sem hann lætur nú hella niður mjólkinni fyrir og vill láta hjálpa með eintómum ríkisskuldabréfum í þrengingum þeirra vegna fjársjúkdómanna. Í alvöru sinni er málið komið á það broslega stig, að ríkisstj. er talin ofsækja atvinnurekendurna jafnt og verkalýðinn, svo að það fer vist ekki að verða ofsögum sagt af mannvonzku hennar.

Það er mikil nauðsyn fyrir þjóðina alla, og þá ekki sízt verkalýðinn, að gera sér ljóst, hvað hér er að gerast. Það er lagt út í allsherjarverkfall til þess að krefjast kauphækkana, sem forsprakkar verkfallsins játa strax opinberlega, að hvorki sé hægt að fá framgengt né muni leiða til kjarabóta. Það virðist því hafa verið efst í huga verkfallsforsprakkanna, áður en verkfall hófst, að raunverulegar kjarabætur yrðu ekki fengnar nema eftir einhverjum löggjafarleiðum. Þessi skoðun verkfallsforingjanna hefur greinilega komið fram í þessum umr., en einmitt þessi staðreynd er ljósust sönnun þess, hversu fáránlega hefur verið á málum haldið og hvílíkt tjón er nú unnið þeim þúsundum alþýðuheimila, sem sviptar eru brýnum tekjum rétt fyrir jólahátíðina, auk allra þeirra miklu óþæginda, sem allir aðrir verða við að búa af völdum verkfallsins.

Eins og málin liggja fyrir, hlýtur sú spurning að vakna hjá öllum: Hvers vegna lögðu ekki forustumenn verkalýðsfélaganna einhverjar till. fyrir ríkisstj. eða Alþ., úr því að þeim var ljóst, að þá leið yrði að fara til kjarabóta? Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess, að ríkisstj. geri fyrst boð fyrir fulltrúa verkamanna og bjóði þeim að snúa kröfum sínum á hendur ríkisvaldsins? Hingað til hefur það þó verið höfuðkrafa verkalýðssamtakanna, bæði hér og í öllum öðrum lýðræðislöndum, að ríkisstj. hefði ekki afskipti af kjaramálum vinnuveitenda og launþega, nema afskipta ríkisstj. væri sérstaklega óskað.

Hv. þm. Ísaf. og fleiri stjórnarandstæðingar hafa hér í umr. drepið á ótalmörg úrræði, sem til greina komi af hálfu ríkisvaldsins til lausnar deilunni. Hver heilvita maður skilur, að jafnvel þótt verkfallsmenn sjálfir hefðu ráðið ríkisstj., þá hefðu þeir þurft lengri tíma, en 3–4 daga til þess að rannsaka, hverjar af þeim leiðum væru færar, án þess að skerða um leið lífskjör þjóðarinnar á öðrum sviðum. Ef nokkur fyrirhyggja hefði ráðið gerðum verkfallsforingjanna, hefðu þeir því farið þá sjálfsögðu leið að hafa samningana lausa frá 1. des., en fresta að láta verkfallið koma til framkvæmdar fyrr en útséð væri, hvort fáanlegar væru eftir löggjafarleiðum skynsamlegar kjarabætur. Verkfallinu mátti svo alltaf skella á, ef ekki var sinnt sanngjörnum till. Slík vinnubrögð hefðu verið ólíkt giftusamlegri fyrir verkalýðinn, heldur en að skipa honum í verkfall, þegar einna bezt stóð á fyrir atvinnurekendum. Manni kynni jafnvel að koma til hugar, að hv. þm. Ísaf. og fleiri hefðu fremur horft á sjónarmið vinnuveitenda. Fleira bendir í þá átt, að hagsmunir alþýðunnar séu aukaatriði, svo sem það, að hv. 3. landsk. fann ríkisstj. það sérstaklega til foráttu, að hún hefði látið tollaálögur og bátagjaldeyri aðallega lenda á vörum utan vísitölunnar. Utan vísitölunnar eru fyrst og fremst þær vörur, sem síður eru taldar nauðsynjavörur.

Vandamál íslenzku þjóðarinnar verða aldrei leyst með lýðskrumi, heldur samhentum átökum hugsandi þjóðfélagsborgara. Sú er hætta við lýðræðisskipulagið, að stjórnmálaflokkar freistist til þess að láta stundarmöguleika á öflun kjörfylgis ráða afstöðu sinni, í stað þess að miða afstöðu sína við það, sem þjóðinni er fyrir beztu í framtíðinni. Lýðræðisskipulagið krefst því þess, að þjóðfélagsborgararnir, kjósendurnir, séu þroskað fólk með heilbrigða dómgreind, sem gerir fyrst og fremst þá kröfu til forustumanna sinna, að þeir hagi stjórn þjóðmálanna sem skynsamir og framsýnir bændur, sem fremur reyna að þrauka um skeið kartöflulausir heldur en éta upp útsæðið.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa í þessum umr. treyst á skammsýni þjóðarinnar og dómgreindarleysi. Stjórnarflokkarnir skírskota til heilbrigðrar skynsemi og þroska hugsandi þjóðfélagsborgara. Senn mun í ljós koma, hvor aðferðin er réttari.

Íslenzka þjóðin hefur á fáum áratugum orðið að framkvæma það, sem aðrar fjölmennari og ríkari þjóðir hafa gert á mörgum öldum. Af miklum dugnaði og trú á framtíðina hefur tekizt að skapa hér menningarþjóðfélag, sem stendur að flestu jafnfætis öðrum menningarþjóðum. Með stofnun lýðveldisins færðist nýtt líf í þjóðina, og síðan hafa framfarir á sviði atvinnumála, félagsmála og menningarmála verið stórstígari, en nokkru sinni fyrr. Enn er fjölmargt ógert, sem krefst starfandi handa og sameiginlegra átaka. Með hinni miklu eflingu atvinnuveganna síðustu sjö árin hefur þjóðin stigið stærsta sporið að því marki að tryggja efnahagslega afkomu sína í framtiðinni. Síðustu árin hafa erfiðleikar dýrtíðar og verðbólgu háð okkur mjög við uppbyggingarstarfið. Með lækkandi verðlagi á erlendum nauðsynjavörum er nú fyrst von til þess, að hægt sé að sporna fótum gegn verðbólgunni. Því sorglegra er það, ef með vanhugsuðum aðgerðum er komið í veg fyrir það, að hægt sé að spyrna við fótunum. Kommúnistar hafa hvað eftir annað lagt á það mikla áherzlu, að dýrtíðin gerði þá ríku ríkari, en þá fátæku fátækari. Nú virðast þeir því komnir á mála hjá þeim ríku í bróðurlegri samfylkingu við Alþfl.

Þjóðin stendur því nú á mjög mikilvægum vegamótum. Annars vegar er leið vaxandi dýrtíðar, upplausnar og örbirgðar. Þá leið vill stjórnarandstaðan fara. Hins vegar er leið áframhaldandi uppbyggingar atvinnuveganna, sem í bili krefst nokkurrar fórnar, en mun með sameinuðum átökum þjóðhollra Íslendinga ein leiða hana til efnahagslegs sjálfstæðis og bættra lífskjara. Því má ekki loka augum fyrir, að mörg alþýðuheimili búa við kröpp kjör, og það er sjálfsagt að leita allra skynsamlegra ráða til þess að létta því fólki lífsbaráttuna. Verst er þó það fólk statt, sem býr við atvinnuleysi, og fyrir það fólk er hækkað kaup með aukinni dýrtíð lítil hjálp.

Íslenzkur æskulýður á mest í húfi, ef illa fer. Æskan verður því að mynda skjaldborg um þær umbætur, sem gerðar hafa verið, og koma í veg fyrir, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að tryggja framtíð hennar, verði eyðilagðar af skammsýni og skilningsleysi. Æskulýðurinn þarf að halda uppbyggingarstarfinu áfram. Það þarf að margfalda ræktun landsins, leiða raforkuna um allar byggðir þess, beizla jarðhitann til ómetanlegra lífsþæginda og framleiðsluaukningar, efla stóriðju í landinu og hagnýta þau skilyrði til aukinna fiskveiða, sem stækkun landhelginnar skapar. Það verður að nýta svo auðlindir landsins, að þjóðin þurfi ekki gjafir erlendis frá sér til framfærslu. Þetta starf verður ekki farsællega til lykta leitt nema í einlægu samstarfi og skilningi á hvers annars högum. Það þarf að efla sjálfsbjargarviðleitni einstaklinganna og gefa frjálsu framtaki þeirra meira svigrúm til þjóðþrifastarfa. Það þarf að gefa æskulýðnum aukna trú á land sitt og framtíðina. Fyrsta skrefið í þessa átt er að leiða til farsællegra lykta það ógiftusamlega verkfall, sem nú stendur yfir. Það þarf að glæða trúna á lýðræðisskipulagið með því að leysa af skynsemi og á drengilegan hátt ágreiningsefni þjóðfélagsstéttanna.

Allra sízt nú má sundra þjóðinni, þegar hún á við erlenda ágengni að fást, þegar erlent stórveldi neitar að viðurkenna helgan rétt þjóðarinnar til hafsins við strendur landsins og erlendir veiðimenn, sem um aldir hafa arðrænt íslenzk fiskimið, reyna að svelta þjóðina til að gefa eftir rétt sinn. Það er því illt verk að gefa þessum mönnum, sem ásækja okkur á þennan hátt, ástæðu til að tortryggja einlægni hæstv. ríkisstj. í stefnu hennar í þessu máli, svo sem hæstv. 7. landsk., Finnbogi R. Valdimarsson, gerði hér í kvöld. Þjóðin öll verður að standa sameinuð að baki ríkisstj. sinni um þetta mál, og það má aldrei gefa brezku stjórninni í skyn, að Íslendingar séu til samninga um neinn afslátt af sínum kröfum þar. Aðeins með samtökum og gagnkvæmum skilningi getum vér tryggt rétt vorn sem sjálfstæð þjóð og tryggt öllum landsins börnum öryggi og góða afkomu. — Góða nótt.