26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

1. mál, fjárlög 1953

Fram. 2. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Einhver var að minnast á virðingu Alþingis hér rétt áðan, og það er þess vegna rétt kannske að víkja að því í upphafi málsins, þegar verið er að ræða um þýðingarmesta mál þessa þings, fjárlagaafgreiðsluna, og hún er komin á lokastig, þá hefur það nú verið svo hér í dag, m.a. meðan var verið að ræða um virðingu Alþingis, að þá voru aðeins örfáir þm., sem höfðu tíma til þess að vera við þessa þýðingarmiklu umr. hins þýðingarmesta máls. Og sjaldgæfir hafa verið ráðherrar í dag við umr., nema hvað fjmrh. var hér auðvitað meðan hann flutti sitt mál hér tvívegis, en síðan hefur hann ekki heldur sézt. Mætti þó ætla, að það væri þingmannaréttur að vænta þess, að hæstv. fjmrh. væri að minnsta kosti viðstaddur fjárlagaumræður.

Við 2. umr. fjárl. lét ég í ljós, að það væri nauðsynlegt að fresta endanlegri afgreiðslu fjárl. þangað til séð væri fyrir endann á verkfallinu, sem þá stóð yfir, og vitað yrði, með hvaða hætti það leystist, því að vel gæti svo farið, að lausn verkfallsins kæmi að einhverju leyti til kasta ríkisvaldsins. Góðu heilli varð þetta svo, að fjárlagaafgreiðslunni var frestað. Þau voru ekki hespuð af fyrir jólin, eins og ætlað hafði verið, heldur frestað fram yfir áramót. Og nú hefur hæstv. fjmrh. lagt fram till. til þess að mæta þeim skuldbindingum, sem á ríkissjóð féllu í sambandi við lausn vinnudeilunnar. Ég tel, að þetta hafi verið vel farið og hitt hefði í raun og veru verið algert ábyrgðarleysi, að afgr. fjárl. án þess að vita neitt um það, hvernig vinnudeilan leystist og að hve miklu leyti hún kæmi til kasta ríkissjóðs.

Það hafa orðið nokkrar breyt. á fjárl. síðan við 2. umr. Í fjvn. hafa verið tekin fyrir mál, sem aðallega hafa verið til aukinna útgjalda á gjaldabálki, og munu bein útgjöld, sem n. hefur nálega einróma samþ., vera upp undir 5 millj. kr., að ég hygg. Auk þess hefur svo n. samþ. nokkra tugi milljóna í ríkisábyrgðum, og hefur það ekki hvað sízt virzt vera áhugamál hæstv. ríkisstj., því að að þeim ábyrgðarskuldbindingum hafa fulltrúar stjórnarflokkanna í fjvn. staðið heils hugar og stutt það fast, þrátt fyrir það þó að hæstv. fjmrh. hér fyrir skömmu síðan talaði langt mál og strangt um ríkisábyrgðir og það, hversu þær væru orðnar hættulegar ríkissjóði, a.m.k. ýmsir flokkar ríkisábyrgða, svo sem ábyrgðir vegna dieselrafstöðva og ábyrgðir vegna gömlu togaranna og fleira, sem hann nefndi. Það er a.m.k. víst, að ríkisábyrgðir hækka um a.m.k. 30 millj. kr. núna frá því, sem var við 2. umr. fjárlaganna.

Ég mun nú víkja nokkrum orðum að þeim brtt., sem hér liggja fyrir, og þó ekki minnast á nema fáar þeirra. Fjvn. hefur samhljóða afgr. allmargar till. og án þess að um ágreining sé að ræða í n. Ég sé, að á þskj. 600 er m.a. till. um það, bókstafsliðurinn j, að endurgreiða innlendum skipasmiðastöðvum aðflutningsgjöld, þar með talinn söluskatt, af efni í skip og báta, er þær smíða. Má miða endurgreiðsluna við tiltekna fjárhæð á hverja smálest, sem næst því, er ætla má að svari til þeirra aðflutningsgjalda og söluskatts, er greidd hafa verið af efni til smíðanna. — Það er nú bæði, að það eru þarna nokkrir málgallar á þessum lið, og þar að auki er mér nú ekki ljóst, þótt ég sé samþykkur þessum lið efnislega, eins og ég hygg að ætlunin sé að hann sé skilinn, þá er það ekki ljóst, hvort þessi endurgreiðsla á að ná til söluskatts og tolla af vélum í slík skip eða hvort það er eingöngu af smíðaefninu í bol skipsins. (Gripið fram í.) Það er ætlazt til þess. Já, þá fer að nálgast, að ég sé að öllu leyti samþykkur þessum lið, þó að ég hefði kosið, að hann hefði verið skýrar orðaður. En hæstv. fjmrh. hefur nú staðfest, að það sé ætlunin, að þessi endurgreiðsluheimild nái að öllu leyti til efnis í bol skips, sem smíðað er í innlendri skipasmíðastöð, og til véla einnig, og sú vitneskja fullnægir mér. Þessi liður mundi sennilega eiga að leysa af hólmi frv., sem ég og hv. þm. Hafnf. höfum flutt á þessu þingi og fékk hér ágætar undirtektir og fjallaði um þetta efni, og kemur það í sama stað niður, þegar þetta réttlætismál fær afgreiðslu á þinginu.

Þegar vitað var, hvernig verkfallið leystist og að sú lausn mundi kosta ríkissjóðinn milli 10 og 20 millj. kr., þá var það vitað, að hæstv. fjmrh. og þá gjarnan fjvn. mundi bera fram till., sem fullnægðu þessum skuldbindingum á einhvern hátt. Mér fannst það að vísu undarlegt, þegar starfað var í fjvn. núna eftir hátíðarnar og spurt var um það, hvort meiri hl. n. mundi ekki flytja fyrir ríkisstj. slíkar till., að þá upplýsti hv. form. fjvn. það, að hann mundi ekki bera fram slíkar till. í n., það mundi hæstv. ráðh. sjálfur verða að gera. Mér fannst þetta vera nokkuð þykkjuþungt og dálítið skrýtið að formi til, því að venjan er nú sú, að jafnvel hin smáskitlegustu frv. séu fúslega flutt af nefndum fyrir sína ástkæru ráðherra, og hefði ég haldið, að ekki stærri biti, en hér var um að ræða yrði tekinn af fulltrúum stjórnarflokkanna í fjvn. og n. mundi flytja það stóra mál, en hæstv. ráðh. þyrfti ekki einn að varpa þessum till. fram inn í þingið undir umræðum. En hæstv. ráðh. hefur nú staðið skil á þessu, eins og við var að búast og vænta mátti af honum, og till. eru komnar hér fram, sem nokkurn veginn fullnægja þeim skuldbindingum, sem hæstv. ríkisstj. tók á sig við samningsgerðina, þegar deilan var leyst.

Það var auðvitað dálítið álitamál, hvernig hæstv. ríkisstj. mundi fullnægja þessum skuldbindingum, hvort hún mundi gera það með niðurskurði og sparnaði á gjaldabálki fjárl. eða hvort hún mundi gera það með því að leiðrétta vitanlega ranga tekjuáætlun fjárl., sem aldrei hefur fengizt leiðrétting á. Það var líka hugsanlegt, að skuldbindingunum yrði fullnægt með báðum þessum leiðum.

Það hafa engar sparnaðartillögur komið fram frá hv. meiri hl. fjvn., þrátt fyrir það að nú hafi gefizt gott tóm til að undirbúa og bera fram slíkar sparnaðartillögur, sem hefðu verið algerlega í samræmi við ákaflega þungorða. krítík á eyðslustefnu ríkisstj., sem kom einmitt fram í nál. hv. meiri hl. fjvn. við 2. umr. fjárl., og hefði þess vegna verið mjög eðlilegt að ætla, að sparnaðartillögurnar hefðu nú fæðzt einmitt í jólafríinu og á þessum ríflega tíma, sem gafst eftir áramótin, einmitt frá þessum hv. meiri hl. fjvn., sem hafði látið í ljós, að það mætti víða spara stórfé, jafnvel svo að milljónatugum skipti. Ef til vill hefði þessi hv. meiri hl. fjvn. þannig getað skilað þeim fúlgum og haldið til haga, sem þurfti til þess að leysa þær auknu kvaðir, sem á ríkissjóð voru nú komnar í sambandi við lausn verkfallsins.

En hv. meiri hl. kom ekki með sparnaðartillögurnar, og hæstv. ráðh. varð þess vegna að bita í epli, sem ég get hugsað að honum hafi í bili fundizt súrt á bragðið, þó að hann vitanlega láti það nú ekki uppi, en það er það eplið að viðurkenna nú í fyrsta sinn eftir margra ára stimpingar, að tekjuáætlun fjárl. hefur verið röng fram að þessu, svo að milljónatugum skiptir. Og nú getur hann viðurkennt þetta, af því að hann þarf á því að halda, og gerir nú áætlun um hækkaða liði á tekjuhlið fjárl., sem nemur þeim auknu útgjöldum, sem af verkfallinu leiddi. Ég undirbjó mínar hækkunartillögur á tekjubálkinum nú með nákvæmlega sama hætti og undanfarin þrjú ár og taldi allar líkur til, að hæstv. ráðh. mundi nú enn koma og segja, að þessar hækkunartill. væru glannalegar, þær styddust ekki við veruleikann, þær væru bara út í loftið, þær væru barnaskapur og þar fram eftir götunum.

Ég áætlaði núna alveg út frá sömu forsendum eins og á undanförnum árum, að tekju- og eignarskatturinn fyrir árið 1953 mundi vissulega verða 55 millj. kr. undir öllum kringumstæðum og mætti þannig hækka um fullar 3 millj. kr. Nú hefur hæstv. ráðh. ekki aðeins komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri óhætt að hækka tekju- og eignarskattinn upp í 55 millj. kr., heldur sér hann nú allt í einu, að þetta er hægt að áætla 56 millj. og 500 þús. kr., og er þannig orðið hálfri annarri millj. fyrir ofan hinar glannalegu, óraunhæfu og barnalegu áætlanir, sem ég hef áður gert, að hans áliti. Það er ekki svo að sjá, að það hafi farið fyrir hæstv. ráðh. eins og Páli postula, að hann hafi með árunum lagt niður barnaskapinn. Hann virðist núna vera að taka upp barnaskapinn, sem hann hefur verið að álasa öðrum hv. þingmönnum fyrir að undanförnu, svo að hann virðist vera á öfugri þroskabraut við þann ágæta postula. (Gripið fram í.) Alveg rétt. Ég fagna þessu því alveg óblandið, því að ég tel, að hæstv. ráðh. sé nú að gera rétta áætlun. Ég tel, að mín áætlun um 55 millj. kr. tekjur af tekju- og eignarskattinum sé varleg áætlun, og ég fullyrði það, að áætlun hæstv. fjmrh., sem er hálfri annarri millj. kr. hærri, muni standast.

Þá vildi ég og áætla, að hluti ríkissjóðs af stríðsgróðaskatti, sem var í frv. áætlaður 2 millj. kr., mætti alveg óhætt áætlast 3 millj. kr., hækka um eina milljón. En hæstv. ráðh. hefur nú séð, að það var ekki aðeins óhætt að hafa hann 2 millj. og ekki aðeins óhætt að hafa hann 3 millj., heldur hefur hæstv. ráðh. nú séð, að það var óhætt að hafa hann 31/2 millj. kr. og að hann væri í heild undir öllum kringumstæðum 7 millj. kr., og ég veit, að þetta er hvorki barnaleg né glannaleg áætlun hjá hæstv. ráðh. Þetta mun skila sér, hann mun fá þetta í kassann, og hann mun geta staðið við skuldbindingarnar, sem leiddi af verkfallslausninni m.a. með þessum peningum, því að hér er um raunhæfar tölur að ræða, en ekki áætlaðar tölur út í loftið.

Vörumagnstollinn áætlaði ég 24.5 millj. kr., og hæstv. ráðh. áætlar hann 24 millj. Það er nú bitamunur, en ekki fjár, á milli okkar. Hann er sem sé á sömu skoðun og ég um það, að það hefði mátt hækka hann verulega frá því, sem í frv. var, en þar var hann áætlaður á 221/2 millj. kr.

Um verðtollinn er það að segja, að hann er í frv. áætlaður 105 millj. Ég tel rétt með sams konar varúðarvinnubrögðum eins og ég viðhafði við hina liðina að áætla hann um 112 millj. kr., en þar hefur hæstv. ráðh. ekki farið nema upp í 109 millj., og stafar það ekki af því, að hann sjái ekki, að þessi liður getur alveg eins hækkað og hlýtur að verða nálægt 112–115 millj., heldur af því, að hann var búinn að fá að dekka upphæðina, sem hann þurfti vegna verkfallslausnarinnar, og staldrar því þarna við og fer ekki hærra með þennan lið.

Söluskattinn ætlar hæstv. ráðh. ekki nema 89 millj. og hækkar hann þar með um 6 millj. frá sinni fyrri áætlun, en ég hef áætlað hann 94 millj. og er þó nokkurn veginn sannfærður um, að hann leyfir ekki mikið af því að verða í kringum 100 millj. Það hefur nefnilega alltaf verið eins konar feimnismál í sambandi við söluskattinn. Hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hefur aldrei viljað láta sjást á pappírnum, að söluskatturinn yrði nándar nærri eins hár og hann hefur reynzt að vera, og það er ekki nema góðra gjalda vert, að svolítillar blygðunarsemi verði vart hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við þennan blygðunarlausa skatt.

Þegar við komum að því að áætla tekjurnar af Áfengisverzluninni að þessu sinni, þá lét ég þann tekjulið kyrran liggja, og ég hugsaði sem svo, að hæstv. ráðh. mundi vafalaust gera einhverjar ráðstafanir til, að ekki yrði miklu minna drukkið í landinu heldur en verið hefði, og fannst mér þess vegna rétt að láta upphæðina standa óbreytta. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. eiginlega viðurkennt þetta, að það mundi nú verða séð um, að ekki yrði dregið mikið úr drykkjuskapnum, því að hann hefur aðeins áætlað, að tekjurnar af áfenginu yrðu 1 millj. kr. lægri á þessu nýbyrjaða ári, og hann gerði grein fyrir því, hvers vegna hann teldi líkur til þess, að þær lækkuðu um 1 millj. Það var vegna þess, að eins og stendur er tekið veitingaleyfi af veitingahúsum, sem hefur verið að undanförnu greitt nokkuð fyrir með sérkennilegum hætti, með vínveitingaleyfum til ýmissa veitingastaða, aðallega hér í höfuðborginni. Hefur þar verið viðhöfð mikil reikningslist og jafnaðarútreikningar, til þess að ekki hallaðist á milli stjórnarflokkanna, en nú er sú breyting á orðin í bili, að þessi vínveitingaleyfi hafa verið tekin af öllum veitingastöðunum hér í Reykjavík, hvað sem verður.

Ég taldi allar líkur benda til þess, að tekjur af Tóbakseinkasölunni mundu hækka verulega. Það virðist hæstv. ráðh. vera mér sammála um, og hann hefur einnig hækkað áætlunina um tekjur af Tóbakseinkasölu ríkisins.

Liðurinn um óvissar tekjur var sýnilega of lágt áætlaður. Ég áætlaði, að hann mundi að minnsta kosti vera 1 millj. kr. of lágur, mætti hækka úr 3 millj. upp í 4, og ég held, að hæstv. ráðh. sé með nákvæmlega sömu tölur. Hann virðist hækka þær líka upp í 4 milljónir.

Um till. hæstv. ráðh. á þskj. 606 viðvíkjandi lausn deilunnar skal ég ekki fjölyrða. Ég held, að þær till. svari, eins og ég áðan sagði, þeim skuldbindingum, sem á ríkissjóð hafa fallið, svona nokkurn veginn að minnsta kosti.

Af þessu er ljóst, að hæstv. fjmrh. hefur með till. sínum lagt til, að ríkisstj. fullnægi skuldbindingum í sambandi við lausn vinnudeilunnar með hækkaðri áætlun á tekjubálki fjárl., ekki með sparnaði eða niðurskurði á gjaldaliðum, og það hefur nú hv. fjvn. ekki heldur lagt út í að gera.

Ég er búinn að fá svo margoft fullyrðingar hæstv. ráðh. um það, að ekki sé hægt að spara neitt verulega á gjaldabálki fjárl., og ég er búinn að fá svo margoft drepnar till. í þá átt í hv. fjvn., að ég taldi það algerlega þýðingarlaust að eyða prentsvertu og pappír undir slíkar till. að þessu sinni og tók þess vegna aðeins tvær till. til tilraunar, bara til tilraunar núna við þessa lokaumræðu fjárl.

Á fjárl. hefur verið tvö undanfarin ár og er nú í þriðja sinn 125 þús. kr. liður til rekstrar á vinnuheimili að Kvíabryggju í Grundarfirði. Þetta vinnuheimili er ekki til enn þann dag í dag. Það var ekki til, þegar þessi rekstrarliður var tekinn upp fyrir tveimur árum, það var ekki til í fyrra, þegar hann var tekinn í annað sinn á fjárlög, og þetta hæli er ekki til enn, þegar hann er tekinn í þriðja sinn á fjárlög. Ég veit ekki, hvort þetta fé er geymslufé og hefur verið tekið til hliðar upp í væntanleg rekstrartöp í framtíðinni, þegar þetta hæli verður til, eða hvort þetta hefur farið í aðra eyðslu hjá ríkissjóði. En ég tel alveg ástæðulaust, að þessi liður sé hafður núna í þriðja sinn sem framlag til rekstrar á stofnun, sem ekki er til, og legg því til, að liðurinn falli niður. Þykir mér það nokkur prófsteinn á sparnaðarvilja hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkanna, hvort þeir vilji fallast á, að liður, sem ekki styðst við neinn veruleika, — og allir vita, að sú stofnun, sem þetta á að fara til rekstrar á, er ekki til, — hvort þeir vilji fallast á, að hann sé felldur niður, eða ekki. Og sparnaðarþörf telja þeir ekki mikla, ef þeir fallast ekki á það. Það verð ég að segja.

Þá er annar liður upp á 1 millj. kr., kostnaður vegna ófriðarhættu. Ég tel nú, að þótt nokkuð uggvænlega horfi nú í heiminum, þá sé þó ekki eins lágskýjað kannske núna og áður, og tel nú nokkurn veginn óhætt, að þessi 1 millj. kr. upphæð, sem hefur verið á fjárl. í eitt eða tvö skipti, sé nú felld niður. Það var víst ætlunin að kaupa fyrir þetta lyf og hjúkrunargögn og annað þess konar. Og ef búið er að kaupa slíkar vörur fyrir eina eða tvær millj. kr., þá hygg ég, að meiri lagerum sé nú ekki ástæða til þess að safna af því að sinni, og mætti þess vegna verja þessari millj. króna til einhvers annars, en fella þennan lið niður í þessari mynd. Það legg ég til og tel það líka nokkurn prófstein á, hvort nokkur vilji er fyrir hendi til þess að spara á fjárl., hvort þetta fæst fellt niður eða ekki.

Það hefði vitanlega verið hægt að koma þarna með ekki nokkrar sparnaðartilraunir í viðbót, heldur marga tugi sparnaðartillagna, en eins og ég áðan sagði, taldi ég það tilgangslaust, þar sem búið er að margprófa þetta, bæði í hv. n. og hér í Alþingi sjálfu. Það er t.d. alveg vitanlegt, að það er óstjórnlegt fé, sem fer í bilahald og bílarekstur ríkisstj. og ríkisstofnana, og þó fyrst og fremst ríkisstofnana. Og ég er alveg sannfærður um það, að það væri hægt að koma þar á miklu skynsamlegra skipulagi. Í stað þess að hafa bil og bilstjóra fyrir hvern ráðherra og marga bila í hverri ríkisstofnun með of fjár, sem fer í rekstur og viðhald þessara bíla, þá held ég, að það væri miklu nær að reka bara sérstaka, litla bilastöð, sem annaðist þessa þjónustu og hefði til þess svona 6–8 bíla. Ég trúi ekki öðru, en það gæti fullnægt og það fyrirkomulag yrði stórkostlega miklu ódýrara, en þessi gegndarlausa eyðsla, sem fer núna í bíla, bílaviðhald og bílarekstur hjá ríkisstofnunum og ríkinu í heild, sem enginn hefur fengið að vita, hvað kosti í heild, og hefur þó verið margsinnis um það spurt.

Hækkunartill. minar, sem virðast að sumu leyti ganga skemur, en hækkunartill. hæstv. fjmrh. og virðast því vera viðurkenndar nokkuð varlegar, nema þá alls til hækkunar á gjaldabálkinum 28 millj. og 600 þús. kr. Nú vildi ég, að það væri örugglega rúm innan fjárl. fyrir þær hækkunartillögur, sem ég vissi að hlytu að koma fram frá hæstv. ríkisstj., til þess að svara þeim skuldbindingum. sem á ríkissjóð féllu vegna verkfallsins, og jafnframt væri, án þess að halli yrði á fjárl., rúm til þess að svara þeim till. öðrum, sem Alþfl. flytti til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Ég tók því þann kostinn, að þær meiri háttar till. til útgjalda, sem við stæðum að, yrðu settar á heimildagrein, og ég legg mesta áherzlu á þrennt: Í fyrsta lagi, að það yrði lagt fram fé til byggingar verkamannabústaða og smáibúða í kaupstöðum, og legg ég til, að ríkisstj. verði heimilað að lána allt að 10 millj. kr. í þessu skyni. — Í annan stað taldi ég mikla nauðsyn bera til, að á fjárl. væri ætluð árlega upphæð til atvinnuaukningar og aðstoðar við atvinnuvegina, en þegar ég gekk frá mínum till., þá voru engar slíkar till. komnar fram frá hæstv. ríkisstj., og ég heyrði það fyrst núna rétt áðan í ræðu hæstv. ráðh., að hann hefði í huga að koma með slíka till., og boðaði þá, að hún kæmi hér á eftir. En ég taldi, að lágmarkstala væri 6 millj. kr., sem yrði að ætla til atvinnuaukningar og aðstoðar við atvinnuvegina. Af þeim athugunum, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur gert, kemur það í ljós, að það er engin leið að hugsa sér, að hægt sé að veita atvinnulífinu, þar sem það stendur höllustum fæti, þá aðstoð, sem það verður að fá, til þess að hægt sé að halda þeim atvinnutækjum í gangi, sem víða liggur við stöðvun og sums staðar eru stöðvuð, með minni upphæð á yfirstandandi ári heldur en 6 millj. kr. Ég veit að vísu, að þessi upphæð er allt of lág, en ég leik mér ekki með óhóflegar tölur í sambandi við afgreiðslu fjárl., hvað sem hæstv. ráðh. kann um það að segja, og held mér við þær tölur, sem raunveruleikinn heimtar, og sízt hærri. — Þá legg ég í þriðja lagi til, að ríkisstj. verði heimilað að verja allt að 2 millj. kr. til byggingar barnaspítala og umhóta á landsspítalanum. Það er viðurkennt af öllum, að stórkostlegar umbætur og helzt stækkanir þyrftu að fara fram á landsspítalanum, og það bíður stór fjárupphæð, sem er boðin ríkinu til barnaspítalabyggingar, ef ríkið gæti lagt fram fé á móti. Og það þarf ríkið vissulega að geta gert, svo að hægt sé að hefjast handa um þá byggingu. — Ég vildi vænta þess, að þessar till. verði samþ., því að þær rúmast innan ramma fjárl. Þegar búið er að áætla varlega, en þó nokkurn veginn rétt, tekjuhlið frv. og ætla rúm till. hæstv. ríkisstj. vegna lausnar verkfallsins, þá mundi samt vera nokkur tekjuafgangur á fjárlagafrv., ef þessar till. allar yrðu samþykktar.

Hæstv. frsm. fjvn. og hæstv. fjmrh. gerðu báðir verkfallið í desembermánuði að umræðuefni. Hv. form. fjvn. fór mjög miklum stóryrðum um þetta verkfall. Það var á honum að heyra, að þar hefðu verið að verki ofbeldisseggir og glæpalýður og að verkfallið hefði verið glæpur gegn þjóðfélaginu, glæpur gegn Alþingi, sagði hann sérstaklega, og það hefði gerzt þarna sá ógurlegi atburður, að ofbeldisseggirnir hefðu beygt Alþingi. Það var ekki fögur lýsing, og það vantaði ekki litbrigðin í málfarið hjá hv. form. fjvn., þegar hann var að lýsa þessum ógnum öllum saman.

Ég verð nú að segja, að ef um glæpi er að ræða í sambandi við verkfallið, þá skal ég bregða upp mynd af því, í hverju þeir glæpir eru fólgnir. Það var ekki glæpur, að verkafólkið í landinu færi löglegar leiðir til þess að krefjast kjarabóta, þegar laun hins vinnandi fólks hrukku ekki lengur fyrir brýnustu nauðsynjum vegna dýrtíðarflóðsins. Það verður aldrei talið verkalýðnum á Íslandi til glæpastarfsemi, þótt hann geri ráðstafanir, þegar bann getur ekki dregið fram lífið, — fólkið, sem á að bera hitann og þungann í atvinnulífi þjóðarinnar. Það er ábyrgðarlaust tal, þegar slík orð eru um þetta höfð eins og hv. form. fjvn. leyfði sér áðan að hafa um þetta. En það er annað, sem gæti átt skylt við glæpi, og það er það að láta þróast það ástand í þjóðfélaginu, sem neyddi hið vinnandi fólk á s.l. hausti í verkfallið. Og hverjir standa að þeim glæpum? Ja, ég verð að segja, að ef um glæpi er að ræða í sambandi við þetta mál, þá er sökin hjá þeim, á höndum þeirra manna, sem hafa látið það þjóðfélagsástand þróast, sem neyddi vinnandi stéttir landsins út í verkfall. Ef sú þróun í atvinnulífi og verðlagsmálum, sem við nú búum við, hefði ekki átt sér stað, þá hefði hér ekkert verkfall orðið.

Hv. form. fjvn. sagðist ætla að víkja sér undan því að dæma um, hvort rétt hefði verið af ríkisstj. að láta undan. Það má vel vera, að það sé hans skoðun, að hæstv. ríkisstj. hefði ekkert átt að gera í verkfallsmálunum, en hann mun standa með mjög fáa skoðanabræður í því efni. Það mun vera álit flestra, að hæstv. ríkisstj. hafi miklu fremur of seint skorizt í verkfallið til þess að leysa það, og hún hefur mér vitanlega ekki fengið almennt ámæli fyrir þann þátt, sem hún átti í því að leysa verkfallið, þegar hún annars fór að láta hendur standa fram úr ermum í því efni. Það mun þjóðin heldur hafa þakkað henni og hafa talið rétt, að hún hefði hafizt fyrr handa heldur en hún gerði.

En hæstv. ráðh. var auðvitað miklu hófsamlegri í orðum um verkfallið og mælti ýmislegt, sem ég hef ekkert að athuga við, um lausn þess. Hann sagði réttilega, að það hefði verið um tvær leiðir að ræða, fyrri leiðin, sem hefði leitt til kauphækkana, og hin leiðin, sem farin var, þar sem var lögð áherzla á, að ráðstafanir yrðu gerðar til lækkaðs verðlags. síðari leiðin hefði verið valin og sú leið hefði mælzt vel fyrir. Og það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Sú leið hefur mælzt vel fyrir af þjóðinni, að undanteknum nokkrum afturhaldskindum, sem ekki sjá neitt annað en það, að það eigi að berja niður verkalýðinn með hörðu, þegar hann neyðist til þess að berjast fyrir brauði sínu í verkfalli.

Hæstv. ráðh. var þó með ýmsar fullyrðingar, sem ég held að ekki fái með neinu móti staðizt í sambandi við verkfallið. Hann sagði, að því hefði verið haldið fram, — og það er náttúrlega rétt, — að engar kjarabætur hefðu fengizt án verkfalls, og enn fremur, að því hefði verið haldið fram, að Alþingi hefði getað leyst þessi deilumál án verkfalls með nokkrum fundum á Alþingi, en þá kenningu taldi hann ranga. En það er alveg vitanlegt mál, að þetta er rétt. Ef hæstv. ríkisstj. hefði borið víðsýni til að mæta kröfum verkalýðsins, eftir að samningum hafði verið sagt upp á s.l. hausti, og gert þá þær ráðstafanir, sem nú voru gerðar í lok þriggja vikna verkfalls, þá hefði samizt án verkfalls. Hæstv. ríkisstj. hafði látið berast undan straumnum án þess að gera ráðstafanir til þess að sporna við hækkun dýrtíðarinnar. Og það var ekki í frjálsum viðtölum við hæstv. ríkisstj., sem hún féllst á að gera ráðstafanir til þess að reyna að stöðva dýrtíðina. Það var ekki fyrr en verkfallsvopnið hafði staðið á ríkisvaldinu um meira en hálfs mánaðar skeið, sem hún fékkst til að fara að hugleiða það af alvöru, hvernig væri hægt að feta sig eftir þeirri leið að lækka verðlagið. Og hvernig stóð á því, að farið var inn á þá braut? Jú, í þeim fyrstu kröfum, sem verkalýðsfélögin höfðu gert á hendur atvinnurekendum til kauphækkunar, var það látið í ljós, að ef ríkisvaldið fengist til þess að lækka verðlag, sem yki kaupmátt launa á þann veg að, að þeim leiðum ynnist svipað eins og við kauphækkunina, þá gæti verkalýðurinn vel við það unað og þætti það ekki lakari lausn. Það var þessi bending í grg. verkalýðsfélaganna sjálfra, áður en til verkfallsins kom, sem lá fyrir hæstv. ríkisstj. Og sáttasemjari ríkisins kom undireins auga á þetta á fyrsta fundi, sem hann hafði með málið að gera, og fékk þá umboð okkar í samninganefnd verkalýðsfélaganna og umboð þeirra í samninganefnd atvinnurekendanna líka til þess að túlka þetta við ríkisstj. og leggja málið fyrir hana á þeim grundvelli, hvort hægt væri að hugsa sér lausn að þeim leiðum. Það var því vissulega verkalýðurinn og samtök hans, sem bentu strax á þessa leið og lögðu fram till., sem að sumu leyti voru samþ. af hæstv. ríkisstj. að síðustu. En svo er það nú rétt, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að einstöku liðir komu inn í þetta samkomulag frá hæstv. ríkisstj. sjálfri og urðu til þess að leysa deiluna, þegar búið var að setja sáttanefnd í það til þess að vinna með ríkisstj. að lausn málsins á þessum grundvelli. Hæstv. ríkisstj. mun hafa átt uppástunguna að því að auka fjölskyldubætur, eins og hæstv. ráðh. sagði. Það var uppástunga frá ríkisstj., er kom til okkar frá sáttanefnd ríkisins. Og hæstv. ríkisstj. réð því, í hvaða formi þetta væri boðið. Við gerðum engar brtt. við það. Það er fyrst nú, þegar farið er að ræða um þessi mál hér á Alþingi, að það koma fram till. um að ætla að vísu sömu fjárupphæð sem ríkisstj. bauð í þessu skyni, en láta það ekki koma fram sem fjölskyldubætur nema upp að vissu tekjuhámarki, en að öðru leyti væri fénu varið til þess að hækka ellilaun. Ég býst við, að ef málið hefði legið fyrir samninganefnd verkalýðsfélaganna í því formi frá hæstv. ríkisstj., — verið boðið á þann veg, — þá hefði það af samninganefnd verkalýðsfélaganna verið engu óljúflegar samþykkt þannig heldur en í þeirri mynd, sem hæstv. ríkisstj. bauð það. En við eigum nú, eftir að samninganefndin hefur verið leyst frá umboði sínu, ekki þess kost að geta breytt þessu samkomulagi eða stuðlað að breytingum þess. Mér er tjáð nú, að hæstv. ríkisstj. hafi rætt þetta mál við einhverja úr sáttanefnd ríkisins og borið það undir sáttanefndarmenn, hvort þeir gætu fellt sig við breytingar, sem hér hafa verið bornar fram á Alþingi, og að þeir hafi talið sig umboðslausa til þess að breyta samkomulaginu að nokkru leyti. Get ég að vissu leyti skilið það sjónarmið, en þetta mál hefur ekki verið rætt við samninganefnd verkalýðsfélaganna núna síðustu dagana.

Ég held, að þessi lausn verkfallsins, sem varð, hafi vakið almenna ánægju um land allt, að það hafi verið orðið ljóst öllum, að það varð að reyna að stöðva sig á verðhækkunarleiðinni, jafnvel þótt það kostaði einhverjar fjárbagslegar fórnir úr ríkissjóði. Og ég held, að það hefði verið betra, að hæstv. ríkisstj. hefði gert ráðstafanir til þess fyrr og ótilneydd, því að það var ekki fyrr en verkalýðssamtökin neyddu hana til þess, sem hún gerði það. Ég minnist þess líka, að sólarhringana fyrstu eftir að verkfallið leystist voru risafyrirsagnir um þverar síður stjórnarblaðanna um, að það væri hæstv. ríkisstj. að þakka, að verkfallið hefði fengið mjög farsæla lausn, sem öll þjóðin mundi blessa hana fyrir. Ég hefði þess vegna einmitt búizt við því hér í umr. á Alþingi, að þessi tónn yrði í umr. hjá form. fjvn. og hæstv. fjmrh., það yrði gumað hástöfum af því, að verkfallið hefði verið leyst af ríkisstj. á guðsblessunarlegan hátt fyrir alla, en nú eru kveinstafirnir hér, sem berast frá hv. form. fjvn. og að nokkru leyti frá hæstv. ráðh. líka út af því, hversu hörmulega beiskur bíkar þetta hefði verið, að leysa málið á þennan hátt. Þó játar ráðh., að það hafi verið um tvær leiðir að ræða, og af tveimur illum, skilst mér, hafi sú skárri leið nú verið farin. (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann, þm. Ísaf., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni? Fundartíminn í bili er að verða búinn.) Ég get lokið máli mínu innan stundar.

Það hefur verið látið í það skína, að ef kauphækkunarleiðin hefði verið farin núna til þess að leysa verkfallið, þá hefði af því leitt gengislækkun, nýja gengislækkun, og þá verð ég að segja, að þá hefði nú bikarinn verið orðinn fullur hjá hæstv. ríkisstj. Þessi ríkisstjórn er búin að framkalla gengislækkun. Hún er búin að bæta þar ofan á bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu. Hún er búin að taka upp niðurgreiðslur. Hún er farin að taka upp útflutningsverðlaun. Og ef hún hefði svo orðið að bæta gengislækkun þar ofan á aftur, þá hefði ferill hennar verið orðinn heldur svona blómlegur. En samt hefði það nú aðeins verið út af því, að hún hefði orðið, ef hún hefði ekki farið inn á verðlækkunarleiðina, að gera þetta til þess, að verkafólkið í landinu gæti unnið fyrir brauði sínu við atvinnulífið.

Nú er þó svo komið fyrir árangur verkfallsins, að vísitalan er komin úr 163 niður í 158. Verð hefur verið lækkað á ýmsum nauðsynjavörum almennings, mjólk, kaffi og sykri, saltfiski og svo nauðsynjavöru eins og olíum og benzíni, og þessu er fagnað af þjóðinni, þ.e.a.s. verði staðið við þetta, verði þetta efnt, og ég vona, að hæstv. ríkisstj. hafi fullan vilja á að gera það. En því miður virðist vera misbrestur á því. Mér er t.d. skrifað úr Vestmannaeyjum á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar samningar tókust í Rvík, var það einhuga krafa ekki aðeins verkamanna, heldur allra neytenda í bænum“ (þ.e. í Vestmannaeyjum), „að verð á mjólk og öðrum vörum, sem átti að lækka samkv. samkomulaginu, yrði hið sama hér og í Rvík, eða kr. 2.70 l, enda sýnist lítið réttlæti vera í því, að vörur úti á landi lækki sáralitíð, en launþegar hér fái kauplækkun samkv. vísitölu, sem er reiknuð út eftir vöruverði, sem gildir aðeins í Rvík. Nú var uggur í mönnum um það, að mjólkurframleiðendur mundu þrjózkast við að lækka mjólkina, enda varð sú raunin á. Raunin varð sú, að Dalabúið, sem er rekið af bænum, lækkaði mjólkina niður í tilskilið verð, en víðast hvar annars staðar er verðið 3.25–3.45 og allt upp í kr. 4.00 l.

Þetta bréf er dagsett, held ég, núna 20. jan. Eftir þessu virðist það vera augljóst mál, að það samkomulagsatriði við hæstv. ríkisstj., að mjólkurverðið skyldi hvergi á landinu vera hærra en kr. 2.70 lítrinn, sé þarna ekki haldið. Ég vil mjög eindregið óska þess, að gerðar séu ráðstafanir til, að samkomulagið sé í einu og öllu haldið. Það er enn þá ekki búið að ganga úr skugga um það, hvort S. Í. S. og Verzlunarráð Íslands, sem buðu vissa lækkun á álagningu í smásölu og heildsölu, hafa framkvæmt þær álagningarlækkanir, og ekki búið að ganga svo frá framkvæmdarhlið þess máls, að hægt sé fyrir neytendurna að ganga úr skugga um það, að þessi loforð séu haldin. Hins vegar mun viðast hvar vera í réttri framkvæmd lækkunin á mjólk og kaffi og sykri og þeim vörum, sem ákveðið var lofað að skyldu lækka þannig, að vísitalan færðist niður um fimm stig, en þessar undantekningar eru þó til, sem ég sýndi hér með því að lesa kafla úr bréfi frá Vestmannaeyjum, og það er mjög miður farið, ef hæstv. ríkisstj. tekst ekki að sjá um, að við samkomulagið sé staðið. Ég tel, að það væru miklar líkur til þess, að það væri hægt að komast lengra á þessari leið til stöðvunar og lækkunar dýrtíðar, sem áreiðanlega er farsælli leið, heldur en kauphækkanir, ef þetta samkomulag reyndist vel í framkvæmd, en það verður ákaflega torveit fyrir umboðsmenn verkalýðssamtakanna að halda áfram að berjast fyrir því, að þessi leið sé farin í framtíðinni, ef samkomulagið verður illa haldið og reynist þannig gefa minni kjarabætur, en menn gerðu sér vonir um. En ég er þegar þeirrar skoðunar, hvað sem menn segja um, að verkfallið hafi verið glæpur, að þá hafi það þó leystst á þann veg, sem farsællegastur var, og með góðri framkvæmd gæti það orðið okkur til varanlegrar blessunar, að það leystist á þann veg. En ég endurtek það, að ef um glæp er að ræða í sambandi við verkfallið, þá eiga þeir ekki minnsta sökina, sem hafa valdið því dýrtíðarflóði með lélegri stjórn í landinu, að verðlagsástandið var orðið þannig og atvinnuástandið, að fólk gat ekki lifað við dvínandi atvinnu og hækkandi verðlag á öllum lífsnauðsynjum.

Að þessu sinni skal ég nú láta máli mínu lokið. Það eru að vísu ýmsar till., sem ég er annaðhvort aðalflm. að eða meðflm. að, á nokkrum þskj., sem hér liggja fyrir og ég vildi gjarnan mæla með nokkur orð síðar, áður en umræðunni lýkur, en það get ég látið bíða. Og verð ég nú við þeirri ósk hæstv. forseta að ljúka máli mínu.