26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

1. mál, fjárlög 1953

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég á hér aðild að tveim brtt. og vil fara um þær örfáum orðum.

Sú fyrri er um að bæta við 22. gr. nýjum lið, á þá leið að undirbúa nýja vegagerð á Þingvöllum, svo að vegurinn verði fluttur úr Almannagjá. Ég flutti fyrir nokkrum árum till. um sérstaka fjárveitingu í þessu skyni, að því er mig minnir, en sú till. náði ekki fram að ganga, og ég geri ekki ráð fyrir, að á þessu ári þurfi sérstaka fjárveitingu, þó að till. verði samþ.

Eins og nú háttar og alkunnugt er, þá er vegurinn til Þingvalla lagður niður gamla Kárastaðastíginn, sem kallaður var, og niður í Almannagjá, og liggur þar á milli búða og í raun og veru um hinn fornhelga þingstað okkar Íslendinga. Það eru því veruleg spjöll að veginum. Það er óhjákvæmilegt, að ef hann heldur áfram að vera þar, sem hann nú er, og umferð slík sem verið hefur, þá hljóta að verða enn þá meiri spjöll af en orðið hefur. Það er engin friðsæld á þessum slóðum, meðan vegurinn er með þeirri gífurlegu umferð, sem þarna á sér stað, svo að menn geta ekki notið næðis að Lögbergi eða skoðað hinn forna þingstað með þeim hætti, sem vera ber. Auk þessa eru verulegar líkur til og þarf ekki annað en að skoða staðinn til að sannfærast um það, að af þessari miklu umferð geti, áður en varir, hlotizt stórslys. Það eru steindrangar, sem standa í gjánni og eru svo lausir, að fyrr eða síðar hljóta þeir að falla vegna hristings, sem verður af umferðinni, ef ekki verður breytt til. Það er því beinlínis stefnt í hættu fjölda mannslífa og miklum verðmætum með því að hafa veginn óbreyttan. Ég hygg og, að fleiri hv. þm. hafi komið auga á þetta; því að á þessu þingi mun hv. 2. þm. Reykv. hafa flutt till. í svipaða átt. Mér virðist augljóst, að hún muni ekki ná fram að ganga á þessu þingi, þar sem hún er ekki komin úr n. enn þá, og þar sem greinilegt er, að þetta mál þarf nokkurs undirbúnings, áður en vegurinn er fluttur, þá tel ég mjög vei til fallið, að málinu sé beint til ríkisstj. og þess ráðh., sem fer með vegamál, svo sem gert er í till. minni.

Það er sem sé engan veginn vandalaust að finna viðhlítandi vegarstæði í stað þess, sem nú er. Þetta vegarstæði var auðvitað valið á sínum tíma og hefur haldizt af því, að það er hið auðveldasta, og þess vegna þarfnast það sérstakrar athugunar og rannsóknar, hvernig úr þessu eigi að bæta. Enginn efi er hins vegar á, að þessu má vel koma fyrir á annan og betri veg. Það mætti t.d. hugsa sér að leggja brú yfir Hestagjána svo kölluðu og leggja veginn siðan niður eystri gjábarminn og niður að Valhöll. Þetta þarf þó að athugast, áður en gert er, og vafalaust er ekki hægt að gera þetta nema með nokkrum kostnaði, en svo mikið sem hefur verið unnið að því að prýða Þingvelli og friða á undanförnum árum og eins og Þingvallanefnd hefur staðið prýðilega fyrir þeim aðgerðum, þá tel ég, að það sé aðeins rétt framhald af þeim framkvæmdum að samþ. nú þessa till. Ég mundi þá hugsa mér framkvæmd hennar með þeim hætti, að nú yrði settur verkfræðingur til að rannsaka, hvernig hinu nýja vegarstæði yrði bezt fyrir komið, og síðan yrði það komið undir fjárveitingu Alþ., hvenær fært þætti að ráðast í framkvæmdina á því verki, og vonast ég til þess, að þessi till. geti náð samþykki þingheims.

Önnur till., sem ég flyt hér ásamt hæstv. fjmrh., er einnig um viðbótarheimild á 22. gr. og er þess efnis að greiða Sveinbirni Kristjánssyni húsameistara í Reykjavík allt að 120 þús. kr. til bóta á þeim hluta af tapi hans við byggingar á Keldum, er stafar af lækkun samningsupphæðar fyrir fram og af óljósum samningsákvæðum um verðlagsvísitölu.

Fyrir nokkrum árum réðst Sveinbjörn Kristjánsson, sem er gamalþekktur og reyndur byggingarmeistari hér í bænum, í þá framkvæmd að byggja hús fyrir rannsóknastofuna á Keldum. Hann gerði þetta samkv. útboði á verkinu, en með þeim einkennilega hætti, að eftir að tilboð höfðu verið gerð, þá lækkaði annar tilboðshafi sitt tilboð, og var þá Sveinbirni Kristjánssyni tilkynnt það og gefinn kostur á að lækka sitt tilboð einnig, og mun hann hafa gert það. Það er alviðurkennd regla, að þegar útboð eru gerð, þá á að taka til greina tilboðin eins og þau koma fram, en ekki gefa aðilum færi á því að semja um lækkanir eftir á. Með þeim hætti verður útboðsgerð í raun og veru þýðingarlítil eða þýðingarlaus og óeðlilegir viðskiptahættir taka við. Það má að vísu segja um Sveinbjörn Kristjánsson í þessu tilfelli, að hann hefði sjálfur átt að sjá fótum sínum forráð og það hafi enginn neytt hann til þess að lækka tilboð sitt eins og hann gerði. Þetta er alveg rétt, og lagalega kröfu á Sveinbjörn Kristjánsson ekki á hendur ríkissjóði af þessum sökum. Það er óhagganlegt. En því verður ekki neitað, að hann var þarna beittur óvenjulegri aðferð.

Við þetta bætist svo, að það var um það samið, að tilboð hans skyldi reiknað með þeim hætti, að fjárhæð sú, sem hann fengi greidda, skyldi hækka í samræmi við verðlagsvísitölu. Skömmu síðar var svo kaupgjaldsvísitalan lækkuð og bundin með lögum. Og hækkanir þær, sem Sveinbjörn fékk, voru miðaðar við þessa kaupgjaldsvísitölu, en ekki við verðlagsvísitöluna. Að fróðustu manna yfirsýn er mjög tvísýnt, hvort skilja eigi samninginn á þann veg, að hér eigi að miða við hina eiginlegu verðlagsvísitölu eða þá lögbundnu kaupgjaldsvísitölu. En auðsannanlegt er, að Sveinbjörn tapaði verulegri upphæð vegna þess, að við kaupgjaldsvísitöluna var miðað.

Þegar þetta tvennt er talið saman, það tjón, sem Sveinbjörn varð fyrir vegna þess, að hann var fenginn til þess að lækka sitt upphaflega tilboð fyrir fram, og að reiknað var með kaupgjaldsvísitölu, en ekki verðlagsvísitölunni, og vöxtum bætt við af þessum upphæðum frá því er Björn innti þær af höndum, þá mun nálgast 120 þús. kr. það tjón, sem Sveinbjörn hefur beðið af þessum sökum. Hins vegar lauk þessum viðskiptum Sveinbjarnar og ríkisins á þann veg, að Sveinbjörn, sem áður hafði verið vel efnaður maður og einn af elztu og bezt metnu byggingarmeisturum hér í bænum, varð öreigi. Hann tapaði öllum sínum eignum, sem námu nokkrum hundruðum þúsunda króna, og varð beinlínis gjaldþrota og reyndist ekki fær um að ljúka verkinu, svo að synir hans, sem eru dugandis iðnaðarmenn hér í bænum, hlupu undir bagga og luku verkinu og hafa greitt mjög verulegar fjárhæðir úr eigin vasa til þess að geta staðið við samningsskuldbindingar föður síns.

Eins og ég segi, þá tel ég víst, og það er byggt á mjög ýtarlegum athugunum, að Sveinbjörn Kristjánsson eigi engar lagalegar kröfur í þessum efnum, nema vera kynni um þá fjárhæð, sem kemur fram í mismuninum á kaupgjaldsvísitölunni og verðlagsvísitölunni, en það mun ekki vera nema í kringum 18–20 þús. kr. Aðrar réttarkröfur á Sveinbjörn Kristjánsson ekki. Hann hefur hins vegar leiðzt til þess að bera þá aðila, sem hann hefur átt í skiptum við um þessi efni, ýmsum þungum sökum, krafizt sakamálsrannsóknar á þá og skrifað um þá og sum yfirvöld ýmiss konar harðyrði í blöð.

Till. mín og hæstv. fjmrh. er ekki flutt vegna þess, að menn vilji víkja sér undan ádeilum Sveinbjarnar eða telji, að hann í meginefnum að þessu leyti hafi rétt fyrir sér. Það er enginn efi á, að eftir lagabókstaf hefur hann að meginefni til ekki á réttu að standa. Hins vegar verður því ekki neitað, eins og ég sagði, að hann hefur orðið mjög hart úti. Hann hefur á sínum efri árum, má segja, misst aleigu sína vegna þessara skipta við ríkið, og aðstandendur hans hafa orðið að greiða verulegar fjárhæðir af höndum til þess að hlaupa undir bagga með honum út af þessum skiptum. Það eru ekki margir, sem betur fer, sem kunna slíka sögu að segja af skiptum sínum við ríkið eða stofnanir þess. Nú tel ég að vísu, að það sé ekki hægt að bæta Sveinbirni Kristjánssyni upp það, að hann gerði, auðsjáanlega eftir á, rangt tilboð á sínum tíma. Það verður að vera hans tap eins og annarra, sem slíka samninga gera, en ekki hins samningsaðilans, því að ef ríkið viðurkenndi bótaskyldu, þegar þannig stendur á, yrðu slík útboð þýðingarlaus. En hins vegar finnst mér, — eins og þetta mál hefur hrapallega, ég vil segja sorglega til tekizt fyrir þessum ágæta manni, þetta er sem sagt eitt af hans síðustu verkum, — að þá sé rétt að láta ekki lagabókstafinn einan gilda, heldur leita eftir sanngjarnari lausn. Og fróðir menn í stjórnarráðinu hafa samkvæmt beiðni hæstv. fjmrh. og minni athugað þetta mál og komizt að þeirri niðurstöðu, að lausn samkv. þeirri till., sem við hér flytjum, sé sanngjörn. Og eftir atvíkum, þá hygg ég, að a.m.k. ráðunautar Sveinbjarnar og synir hans séu að því leyti, ef ekki ánægðir, þá geti þeir látið og muni láta sér þetta lynda sem viðurkenningu á því, að ríkið vilji a.m.k. sýna þessum gamla heiðursmanni fulla sanngirni í þessum viðskiptum. Og ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, og veit, að hæstv. fjmrh. tekur undir þau tilmæli mín, að hv. þingheimur treysti sér til þess að samþ. þessa till.