26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

1. mál, fjárlög 1953

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður, þar sem er ráðið að gefa fundarhlé eftir nokkrar mínútur.

Á þskj. 618 flyt ég ásamt hv. 2. þm. N-M. brtt. við 15. gr. fjárlfrv., XXII. lið, sem gengur út á það, að Leikfélag Akureyrar fái í styrk 15 þús. kr. í staðinn fyrir 9 þús. kr., sem félagið hefur haft undanfarandi ár. — Eins og öllum er kunnugt, þá á leikstarfsemin úti á landi viðast hvar við mjög mikla erfiðleika að etja. Slík starfsemi gefur af sér litla peninga, en kostnaður mjög mikill. Ég tel nú, að það sé skýrast í þessu máli, að ég lesi upp beiðni frá Leikfélaginu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af umsókn vorri um hækkaðan styrk til Leikfélags Akureyrar, viljum við gefa hv. fjvn. örstutta grg. yfir afkomu félagsins á liðnu leikári. Samkv. niðurstöðutölum rekstrarreiknings hefur orðið taprekstur á árinu, er nemur 21 þús. kr., og er þá allur styrkur yfirstandandi árs kominn inn á reksturinn. Félagið hafði á árinu 30 sýningar á þremur leikritum, og voru öll leikritin valin með tilliti til þess, að leiksviðskostnaður þeirra var mjög lítill, miðað við það, sem algengt er og er á stærri leikritum, enda varð hann ekki nema um 6 þús. kr. Hins vegar varð húsaleiga 28 þús. kr. og leikstjórn um 17 þús. kr. Félagið hefur greitt allt að 7.500 kr. í skemmtanaskatt á árinu. Allur kostnaður við leikstarfsemi hefur farið stórum hækkandi nú síðustu árin, en aftur á móti virðist aðsókn fremur minnkandi og þar með tekjurnar. Af framansögðu verður séð, að ógerlegt er að halda starfseminni gangandi, nema til komi aukið framlag frá opinberum aðilum. Væntum við þess því fastlega, að hv. fjvn. sjái sér fært að verða við óskum félagsins í þessu efni.“

Af þessu bréfi kemur það skýrt í ljós, að hagur Leikfélagsins er mjög bágborinn, og þurfa því opinberir aðilar að hlaupa undir bagga, ef félaginu á að vera unnt að halda starfsemi sinni áfram. Allir kunnugir vita það, að félag þetta hefur starfað með ágætum og hefur yfir góðum kröftum að búa, svo að það yrði verulegt tjón fyrir menningarlíf bæjarins, ef starfsemi þess þyrfti að minnka, svo að verulegu næmi.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín fleiri, en ég treysti því, að hv. Alþ. komi til móts við óskir félagsins og hækki styrkinn upp í 15 þús. kr., og finnst mér, að þar sé farið af stað með mjög mikilli sanngirni, þegar m.a. er litið á það, að Leikfélag Reykjavíkur hefur á s.l. ári haft í styrk frá Alþ. um 30 þús. kr.