27.01.1953
Neðri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

30. mál, vegabréf

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá Ed. og hefur verið nokkuð lengi til meðferðar hjá allshn. hér í þessari hv. d. Nm, hafa frá öndverðu verið sammála um frv. í aðalatriðum, en nokkuð hefur verið rætt um brtt. af hálfu eins nm., Áka Jakobssonar, og held ég, að það hafi aðallega verið miðað við það í vissum tilfellum að tryggja nógu hraða meðferð mála út af vegabréfum, eitthvað í líkingu við þá hröðu málsmeðferð, sem er t.d. þegar kært er út af kjörskrá. En á fundi n. í morgun töldum við 4 nm., sem skrifum undir þetta nál. á þskj. 630, ekki vera hægt að geyma það lengur að gefa út nál., og leggjum við þess vegna til, að frv. verði samþ., en nm. hafa þá áskilið sér um leið rétt til þess að fylgja eða flytja brtt., sem við hins vegar, þessir 4 nm., höfum ekki að svo stöddu séð ástæðu til, og leggjum við þess vegna til á þessu stigi málsins, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.