07.11.1952
Efri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

131. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Það voru gerðar nokkrar breytingar á skipun prestakalla á siðasta þingi, og þá var gert ráð fyrir að leggja niður prestssetrin í Kollafjarðarnesi og Stað í Steingrímsfirði og flytja prestssetrið að Hólmavík. Í l. um skipun prestakalla, nr. 31 frá 4. febr. 1952, er yfirleitt gert ráð fyrir því, þar sem prestssetur eru lögð niður og ný upp tekin, að heimilað er í l. að selja þau prestssetur, sem lögð hafa verið niður. Ég hef beðið skrifstofustjórann í kirkjumrn. að athuga, hvort í l. nr. 31 frá 4. febr. 1952, um skipun prestakalla, væri skýlaus heimild til þess að selja þessi tvö prestssetur, um leið og prestssetrið verður flutt til Hólmavíkur, og skrifstofustjórinn telur það orka tvímælis, að ákvæðin séu svo skýr, að það sé heimilt. Af þeirri ástæðu er þetta frv. borið fram, því að það er ekki nema eðlilegt, að á þeim eina stað, þar sem prestum var fækkað, þ.e. í Strandasýslu, þá geri þeir kröfu til þess, að þessi þrjú prestssetur, sem eru í sýslunni, séu byggð upp, þannig að prestssetrið á Hólmavík hafi húsrúm til umráða.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta frv., að öðru leyti en því, að ég mundi raunar kjósa fremur, að frv. væri að því leyti breytt, að jarðirnar væru seldar eftir mati hæfra matsmanna, sem hlutaðeigandi sýslumaður tilnefndi eða einhver annar aðili, sem er öruggt að sé hlutlaus í málinu. Það er alltaf erfitt fyrir ríkisstj. að eiga í því að selja jarðir með öðru móti. En það er ekki sérstaklega tekið fram þarna í 1. gr. frv., með hverjum hætti jarðirnar eigi að selja, og ég álít, að það væri eðlilegra að hafa þetta ákvæði í lögunum.