19.01.1953
Efri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Haraldur Guðmundsson:

„Ýmsir kunna að gera þá athugasemd við frv. þetta, að bankar séu þegar nógu margir eða of margir í landinu.“ Þetta segir í nál. meiri hl. hv. fjhn., sem leggur til, að frv. þetta verði samþykkt. Alþfl. á engan mann í fjhn., og er mér því málið ekki jafnvel kunnugt til umr. um það eins og ég hefði kosið. Hitt veit ég, að það, sem sagt er hér af hálfu meiri hl. n., er laukrétt.

Til viðbótar þessu segir svo hjá hv. meiri hl. n.: „Rétt er þó að benda á það, að vafasamt má telja að láta þá þróun, sem orðið hefur í bankamálum, verða því til hindrunar, að komið verði á fót starfsemi, sem þjóðinni má að gagni verða og talin er nauðsynleg af þeim, e,r málið hafa rannsakað af hálfu ríkisstj., svo og af ríkisstj., sem flytur málið.“ Þetta er löng og vönduð og prýðilega saman sett setning. Meining hennar skilst mér vera sú, að hv. meiri hl. n. telji, að þeir, sem undirbúið hafa málið af hálfu ríkisstj., svo og ríkisstj. telji, að þrátt fyrir það, þótt bankar séu þegar orðnir of margir í landinu, þá geti orðið eitthvert gagn að stofnun þessa nýja banka.

Hæstv. fjmrh. flutti hér tölu áðan, og ég var að búast við því, þegar hann hóf mál sitt, að hann mundi færa einhver rök fyrir því, að þessi nýja stofnun yrði til sérstaks gagns. Því miður verð ég að játa, að þau rök, sem hæstv. ráðh. flutti fram þessu til sönnunar, voru í rauninni engin. Hann taldi, að frv. sjálft bæri þetta með sér, og lét það nægja. Ég verð að segja, að ég get ekki séð nema eina skynsamlega ástæðu til þess, að þetta frv. er borið fram, og hún er sú, að það sé af hæstv. ríkisstj. talið líklegt, að auðveldara verði að afla lánsfjár, sérstaklega erlendis, með því að koma þessari stofnun á fót heldur en ef það er látið ógert, þ.e.a.s., hún muni standa betur að vígi að afla lánsfjár erlendis heldur en ríkisstj. sjálf eða sú stofnun, sem hefur einkum annazt þetta, þ.e. Landsbanki Íslands. Og ég hefði vænzt þess, að hæstv. ríkisstj. léti fylgja þessu máli hér í d. einhverjar upplýsingar um það, á hverju hún byggir þessa skoðun sína, því að hitt er augljóst mál, að að því er varðar öflun lánsfjár innanlands, þá gerir það enga breytingu, þó að einn banki sé búinn til í viðbót við þá fjóra, sem fyrir eru.

Ég skal fyrir mitt leyti játa það, að ég get vel hugsað mér, að það sé rétt, sem ég ætla að hv. þm. Barð. hafi sagt hér áðan í sinni ræðu, að það sé heldur hægara um vik með öflun lánsfjár erlendis, ef sú stofnun, sem annast það, eingöngu takmarkar starfsemi sína við fjárfestingarútlán, en ekki jafnframt við almenn rekstrar- og viðskiptalán. En ég hefði þá búizt við því, að þær upplýsingar og rökstuðningur í því sambandi mundi koma frá hæstv. ríkisstj., en ekki frá hv. þm. Barð., sem virðist nú, að því er mér skildist, telja, að þyrfti að breyta næstum hverri grein í frv., ef það ætti að verða þannig, að hann teldi það sómasamlegt.

Ég sé ekki, þó að ég segi þetta, ástæðu til þess beinlínis að berjast gegn þessu frv. Ég vil ekki verða til þess að setja fótinn fyrir hæstv. ríkisstj. og spilla hennar möguleikum til þess að afla sér lánsfjár erlendis, ef það er á réttum rökum byggt, að líkur séu til þess, að auðveldara verði með slíka fjáröflun með því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., heldur en eftir þeim leiðum, sem farnar hafa verið til þessa. Ég tel þó, að ýmislegt sé í þessu frv., verði það samþ., sem nauðsynlegt sé að breyta — og ég vil segja alveg sjálfsagt.

Í 3. gr. frv. eru ákvæði um það, hvað bankanum skuli lagt sem stofnfé. Það er gert ráð fyrir, að það sé það, sem segir undir tölulið 1 í 3. gr., þ.e.a.s. skuldabréf Sogsvirkjunar, Laxárvirkjunar og áburðarverksmiðju, samtals að upphæð 95 millj. kr. Enn fremur er ætlazt til samkvæmt frv., að þessum banka sé lögð hlutabréfaeign ríkisins í áburðarverksmiðjunni, Eimskipafélagi Íslands og í raftækjaverksmiðjunni. Ég sé, að hv. meiri hl. fjhn. hefur nú lagt til, að undan verði felld í þessu sambandi hlutabréfin í Eimskip og hlutabréfin í raftækjaverksmiðjunni, en hins vegar ekki hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni.

Hv. minni hl. fjhn. upplýsir í prentuðu máli í sínu nál., að ein af þeim spurningum, sem n. lagði fyrir dr. Benjamín Eiríksson, var sú, hvaða tilgang það hefði, að ríkissjóður legði Framkvæmdabankanum til sem stofnfé hlutabréf sín í áburðarverksmiðjunni, raftækjaverksmiðjunni og Eimskipafélagi Íslands. Dr. Benjamín svaraði, að hann hugsaði sér, að hlutabréf þessi yrðu seld síðar. Þetta á að gera skiljanlegt, segir minni hluti n., það kapp, sem á það var lagt að breyta áburðarverksmiðjunni í hlutafélag.

Hugleiðingum hv. minni hl. út af þessu svaraði svo hæstv. ráðh. á þann veg, að þetta væri mælt alveg að tilefnislausu og út í hött, því að það væri bannað að selja þau hlutabréf, sem lögð eru bankanum sem stofnfé.

Ég vil nú segja, að það er nokkuð ríkt að orði komizt hjá hæstv. ráðh. að segja, að það sé með öllu bannað. Það segir í nefndri 3. gr.: „Hlutabréf þessi má bankinn hvorki selja né veðsetja án samþykkis Alþ.,“ þ.e.a.s. það má selja þau að sjálfsögðu, ef samþykki Alþ. liggur fyrir. En eftir þeim orðum, sem hæstv. ráðh. lét falla, þá virtist mér hann telja það alveg fráleitt, að þessi bréf yrðu seld, og um það er ég honum alveg sammála. En þá er spurningin sú: Hvers vegna á þá að fara að flytja þessi bréf sem stofnfé til Framkvæmdabankans, úr því að ekki má selja þau eða veðsetja? Hverju er þá bankinn bættari að teljast eigandi að þessu, og hverju er ríkissjóður bættari með því að afhenda þessa hlutabréfaeign til bankans? Það er mér óskiljanlegt, nema ríkissjóður vilji koma af sér þeirri pólitísku ábyrgð, sem því fylgir að vera eigandi bréfanna og fara með atkv. á aðalfundum félagsins, sem verksmiðjuna á að eiga. Það gæti verið ástæða út af fyrir sig, en hún er alls ekki frambærileg í sambandi við þetta frv., þó að hún væri fyrir hendi.

Ég tel því, að hvort sem fyrir hæstv. ríkisstj. vakir með þessum ákvæðum frv. að hafa greiðara um að selja heldur en nú er eða alls ekki að selja hlutabréfin, þá sé í báðum tilfellum jafnfjarri lagi að vera að afhenda þessa eign ríkissjóðs frekar heldur en hverja aðra eign til bankans. Bankinn er engu betur settur peningalega, hefur engu meira starfsfé, þó að hann eigi þessi bréf, sem má hvorki selja né veðsetja, og hæstv. ráðh. upplýsir, að það sé ekki ætlunin, að hann geri það.

Ég leyfi mér samkvæmt þessu að bera fram þá brtt. við 3. gr., að upphæðin í 1. mgr. greinarinnar lækki úr 101 millj. 150 þús. kr. niður í 95 millj. kr. og að 2. töluliður falli niður.

Um 7. gr., verkefni bankans, skal ég vera fáorður. Það hefur nokkuð verið drepið á það áður í þessari umr. En ég vil aðeins benda á það eitt, að öll þau verkefni, sem bankanum eru ætluð hér, eru nú falin ýmist óbeinlínis eða með beinum lagaákvæðum sérstökum stofnunum og ríkisstj. sjálfri, fjárhagsráði, Landsbankanum sérstaklega og bönkunum yfirleitt og ráðuneyti, fjmrn., þannig að vegna þessara verkefna er í sjálfu sér engin ástæða til nýrrar bankastofnunar. Það er bara verið að flytja á milli, eins og líka fram kemur í nál. hv. minni hl. En að öðru leyti vil ég láta mér nægja að vísa til þess, sem um þetta hefur verið sagt hér í umr. réttilega.

Samkvæmt 8. gr. frv. er svo til ætlazt, að bankinn skuli lána að hálfu fé til framkvæmda í þágu landbúnaðarins og að hálfu til eflingar framleiðsluframkvæmda fyrir kaupstaði og kauptún, jafnóðum og fé þetta verður bankanum handbært. Ég tek alveg undir það, sem hv. þm. Barð. sagði, að ég held, að það verði nú ákaflega örðugt að draga markalínuna þarna á milli, hvað er fyrir kaupstaði og kauptún og hvað er fyrir landbúnaðinn. Sem betur fer, vil ég segja, er nú hagur þeirra, sem búa í sveitum og kaupstöðum, að ýmsu leyti svo samanfléttaður og samofinn, að það er barnaskapur einn að ætla sér að greina þannig á millí eins og hér er gert ráð fyrir. En í öðru lagi vil ég segja það, að það að setja ákvæði um það, hvernig skipt skuli þessu fé til útlána, nú á þessari stundu og binda þar með hendur væntanlegrar framkvæmdastjórnar þessarar stofnunar, er alveg fráleitt að mínu áliti. Ég álít, að það verði einmitt meginverkefni þeirrar bankastjórnar, sem stjórnar þessum banka, að meta og vega nauðsyn og þörf þeirra fyrirtækja, sem leita styrks hjá bankanum hverju sinni. En með því að setja slíkt ákvæði sem þetta er í raun og veru búið að taka úr höndum framkvæmdastjórnar bankans valdið til ráðstöfunar á þessum hluta mótvirðissjóðsins, sem talið er að muni nema eitthvað á fjórða hundrað millj. kr. Ég vil ekki neitt um það segja, hvort það er skynsamlegt eða ekki og heppilegt að ætla landbúnaðinum svona mikið af þessu fé, — hvort það sé skynsamlegt að ætla honum þetta, ætla honum meira eða ætla honum minna, — en ég vil fullyrða, að það er ekkert vit í því að ætla að slá neinu föstu um það á þessu stigi málsins. Það verður að vera stjórn stofnunarinnar og kannske ríkisstj. og Alþ. á sínum tíma, sem metur nauðsynina í hverju tilfelli. Og hvernig á að meta t.d. samgöngubætur og hvernig á að meta t.d. virkjunarframkvæmdir og í einstökum tilfellum hafnargerðir, eins og hv. þm. Barð. drap á, hvort það sé til hagsbóta fyrir núverandi kaupstaði og kauptún eða sveitarfélög landsins? Ég álít, að það sé óhyggilegt og óeðlilegt að setja nokkur slík fyrirmæli nú. Það verður að metast og vegast á ákveðnum tíma, þegar féð er handbært, hvar þörfin er mest og á hvern hátt það kemur að mestu gagni, og ég hygg, að ég megi fullyrða það, að sá erlendi sérfræðingur, sem kvaddur var til ráða í sambandi við samningu þessa frv., varaði mjög eindregið við því að setja slík bindandi fyrirmæli sem þessi inn í l., ef ætlunin væri að beita þeim.

Ég leyfi mér samkvæmt þessu að leggja til, að þessi grein verði felld niður. Ég álít, að það verði á hverjum tíma, þegar féð er handbært og því er ráðstafað af réttum aðilum, að meta aðkallandi nauðsyn og þörf á þeim tíma, sem fénu er ráðstafað, en ekki ákveða slíka bindingu nú fyrir fram.

Hv. þm. Barð. ræddi nokkuð um ábyrgð ríkissjóðs á allt að 100 millj. kr., eða samkv. till. meiri hl. 80 millj. kr., sem látin skyldi nú þegar í té, þannig að slíkrar ábyrgðar gæti bankinn notið og stofnað til slíkrar lántöku án þess að bera nokkuð undir ríkisstj. eða Alþingi. Ég vil áskilja mér rétt til á síðara stigi málsins að bera fram brtt. um þetta atriði, ef mér sýnist ástæða til, en geri það ekki að svo stöddu. Það er fullkomlega athugunarefni, hvort rétt er að láta þessa einu stofnun í landinu hafa svo frjálsar hendur að nota sér ábyrgð ríkissjóðs og þar með landsmanna allra sem þessi grein gerir ráð fyrir eða hvort ástæða er til að setja um það nánari takmarkanir. Ég sem sagt geymi mér rétt til þess að bera fram till. um það atriði síðar, hef ekki haft tíma til þess í dag að athuga um þetta.

Ég hef þá ekki fleira fram að bera að þessu sinni í sambandi við frv. Þessar brtt., sem ég hef gert grein fyrir, leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta og vænti þess, að hv. d. geti á þær fallizt. En til viðbótar því, sem ég hef áður sagt um till., vil ég taka það fram, að einn þeirra manna, sem vann að undirbúningi þessa frv. í bankamálanefndinni, mun hafa haft sérstakan fyrirvara og gert ágreining einmitt um ákvæði 8. gr., og sama mun vera um einn mann í fjárhagsráði, sem einnig hefur gert fyrirvara að því er það atriði laganna snertir.