19.01.1953
Efri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. tók fram. Hann sagði, að ég hefði ekki gert neina grein fyrir þörfinni á því að setja á fót þessa stofnun. Ég gerði það ekki ýtarlega í ræðu minni, vegna þess að það er gert í grg. frv. Ég gerði það sömuleiðis við 1. umr. þessa máls og enn fremur allýtarlega við l. umr. fjárl. á þessu þingi.

Það eru ýmsar ástæður til þess, að till. er nú gerð um þennan nýja banka. í fyrsta lagi er það von manna, að eitthvað muni verða greiðara um að útvega erlent lánsfé, ef sett er upp sérstök stofnun hér innanlands til þess að skipta við Alþjóðabankann. Þetta er ein meginástæðan, og hefur þetta oft verið tekið fram áður, þótt það hafi farið fram hjá hv. 4. þm. Reykv. Þá gera menn sér vonir um, að ef sérstök stofnun hefur með höndum forustu um öflun fjárfestingarfjár innanlands, þá muni henni einnig verða betur ágengt, heldur en ella mundi verða. Loks er svo gert ráð fyrir, að stofnun þessi verði til ráðuneytis um fjárfestingarmálin.

Hv. 4. þm. Reykv. leggur til, að úr frv. verði fellt það ákvæði, að helmingur af fé mótvirðissjóðs verði lánaður til landbúnaðarþarfa og helmingur í þágu kauptúna og kaupstaða. Segir hann í því sambandi, að erlendur sérfræðingur, sem til hafi verið kvaddur, hafi varað við því að binda í löggjöfinni fjármagn bankans við einstök verkefni. Út af þessu vil ég taka fram, að ákvæði þessi, eins og þau eru í frv., munu ekki spilla samvinnu við Alþjóðabankann. Ákvæðin í frv. eru alveg eins og ákvæði þál., sem á sínum tíma var samþ. hér á hv. Alþingi. Ég vil því ekki mæla með þessari brtt. hv. þm. og vonast til þess, að hv. d. samþykki hana ekki.