21.01.1953
Efri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég flyt hérna litla brtt. á þskj. 566, og svo er önnur brtt. á þskj. 564 frá meiri hl. fjhn., og eru báðar um sama efni, báðar út af því, að í frv., eins og það lá í fyrstunni fyrir, var gert ráð fyrir, að bankinn tæki til starfa með áramótunum, en nú er búið að breyta því og ákveða, að hann taki til starfa, samkv. frv. eins og það er nú, 15. febr., enda var 1. jan. liðinn, þegar málið var hér til 2. umr.

Till. mín er um það, að fyrir „1. janúar“ í 4. málsgr. 4. gr. komi: 15. febrúar. — Það er um vexti af innstæðufé í Landsbankanum. Er eðlilegt að miða við þann dag, sem bankinn tekur til starfa. — Brtt. meiri hl. fjhn. er aftur um það að bæta bráðabirgðaákvæði við frv., um það, hvenær kjörtími þeirra bankaráðsmanna, sem fyrst eru kosnir, skuli enda, og þótti okkur réttara að miða það við áramót, en ekki við 15. febrúar. Þess vegna er till. okkar sú, að í fyrsta sinn sé kjörtími þeirra, sem fyrst eru kosnir, til ársloka 1958 og þar á eftir yrði það svo miðað við áramót. Það mun vera svo með flestar slíkar n., sem kosnar eru á Alþ., svipaðar þessari, að kjörtíminn er miðaður við áramót, og mun það hentugra að ýmsu leyti. T.d. ef áframhald verður á haustþingum, sem maður veit nú ekki, þá mundi kosning ef til vill frekar farast fyrir, ef miðað væri og einskorðað við stofndag bankans. Hvorug till. er þýðingarmikil, og í sjálfu sér er ekki brýn nauðsyn að samþ. þær, en það mun þó fara betur á því.