08.10.1952
Efri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

42. mál, verðlag

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að beina fyrirspurn til hæstv. viðskmrh., sem ég taldi víst að mundi mæla fyrir þessu frv. hér. Þó að hann sé nú ekki mættur og sjái ekki ástæðu til að mæla fyrir frv., þykir mér rétt að láta koma fram þær athugasemdir, sem ég vildi beina til hans.

Eins og sést á greinargerðinni, er frv. þetta horið fram til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin þann 6. maí s.l., og í þeim felst samkvæmt 2. gr. heimild fyrir verðgæzlustjóra til að birta nöfn þeirra, sem verða uppvísir að óhóflegri álagningu á vörur eða þjónustu, sem frjálst verðlag er á. Þessi brbl. eru búin að vera í gildi síðan þann 6. maí s.l., og enn þá hefur, að því er ég bezt veit, ekki verið birt eitt einasta nafn nokkurs fyrirtækis eða einstaklings, sem hafi lagt óhóflega á vörur sínar eða þjónustu. Ég hafði hugsað mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskmrh., hverju þetta sætti, þar sem upplýst er í opinherum skýrslum verðlagsstjóra, að í mjög mörgum tilfellum hefur álagning verið óhófleg, að minni hyggju. Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskmrh., hverju sæti, að ekki hafi nöfn þessara manna, einhverra þeirra eða allra, verið birt, og vildi mega mælast til þess við þá hv. nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar, að hún flytji hæstv. ráðh., sem án efa ræðir við nefndina, þessa orðsendingu mína og óski svars við fyrirspurninni.