13.11.1952
Efri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

42. mál, verðlag

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Barð. og hv. 8. þm. Reykv. fyrir þær upplýsingar, sem þeir hafa gefið hér í deildinni út af orðum hv. 6. landsk. Sýna þau, að hv. 6. landsk. hefur í algeru heimildarleysi talað fyrir munn nefndarinnar, er hann túlkaði álit n. og vantraust hennar á aðgerðum mínum í þessu máli, eins og ég vék að í minni fyrri ræðu.

Hv. 6. landsk., eins og flokkur hans, berst fyrir því, að frjálst verðlag verði afnumið og verðlagseftirlit verði upp tekið, alveg eins og flokkur hans berst fyrir því, að hér verði sett á verzlunarhöft eins og var hér áður. Hér myndaðist þá svartur markaður, og gátu menn ekki keypt ýmsar nauðsynjar nema á þeim markaði og þá fyrir miklu hærra verð, en gert var ráð fyrir í þeirri verðlagningu, sem í gildi var hverju sinni. Þetta var það, sem einkenndi alla verzlun hér á árunum 1947–49, og var þá formaður þingflokks hv. 6. landsk. forsætisráðherra, en annar flokksmaður hans, hv. þm. Hafnf., var þá viðskmrh. Maður skyldi nú ætla eftir þeim digurmælum, sem þessir hv. þm. og málgagn þeirra hefur haft um allt þetta mál, að þá hefði þetta farið betur úr hendi á þeim tíma, sem þeir fjölluðu um það. En ef litið er til fortíðarinnar og menn spurðir um ástandið, sem þá var, og þau kaup, sem menn urðu að sæta þá á svörtum markaði, hygg ég, að ýmsir hafi dálítið aðra sögu að segja en Alþfl. vill nú vera láta.

Brtt. hv. 6. landsk. þm. á þskj. 217 er ekki annað en löggilding á hámarksálagningu, alveg eins og hv. þm. Barð. og hv. 8. þm. Reykv. hafa tekið fram. Ríkisstj. getur ekki gengið inn á, að nú sé sett með lögum nýtt hámarksverð, fyrr en þá ríkisstj. er sannfærð um, að svo beri að gera. Hún er ekki sannfærð um það á þessari stundu, að slíkt skref eigi að taka, og það þrátt fyrir allt það fimbulfamb, sem Alþfl. og málgagn hans hefur haft í frammi í þessum málum.

Talsvert mikið hefur verið rætt um það hér, hvað megi teljast hófleg álagning. Ég er alveg sammála hv. þm., sem hafa látið þá skoðun í ljós, að það væri afar erfitt að ákveða með lögum, hvað leggja skuli á, eða draga eina verðlagslinu fyrir allar vörutegundir. Það má lengi deila um þetta mál, hvað leggja skuli á vörur, en það er ákaflega erfitt að deila við menn, sem hvorki hafa vit á málinu né vilja tala sanngjarnlega um það. Það var búið að koma álagningunni hér á landi út í slíka firru, að ekki var viðunandi. Það var búið að lækka svo álagninguna, að slíkt þekkist hvergi, að mínu viti, í öðrum löndum, svo sem að menn voru skyldaðir til að flytja inn vefnaðarvörur og dreifa þeim, leggja fram fjármagn og aðra þjónustu fyrir 5–6%. Ég fullyrði, að slík álagning þekkist hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli, en álagningin var komin í þetta horf fyrir aðgerðir flokksmanna hv. 6. landsk. og annarra, sem höfðu álíka mikið vit á þessum málum og þeir. Eftir því sem ég hef kynnt mér verðlagsákvæði og venju í öðrum löndum, þá hygg ég, að megi segja, að það sé viðurkennt, að leggja megi á í heildsölu frá 8–25%, allt eftir því um hvaða vörutegundir er að ræða. Það er ógerningur að ákveða eina prósentutölu fyrir allan innflutning. Slíkt væri hreinn barnaskapur. Í smásölu er annars staðar talið hæfilegt, eftir því sem ég veit bezt, að leggja á frá 20–60%, allt eftir því um hvaða vörutegundir er að ræða. Mál þetta er ekki eins einfalt og sumir vilja vera láta, og þess vegna er gersamlega frágangssök að setja ákvæði um þetta í lög. En það er, eins og ég sagði, ákaflega erfitt að deila eða tala um þetta mál við þá menn, sem ekkert vilja skilja og nota það eingöngu til pólitískra árása á mótstöðumenn sína.

Hv. 4. landsk. talaði um það ófremdarástand, sem væri í þessum málum. Ja, hvað meinar hv. þm. um ófremdarástand? Hefur hann kynnt sér málið svo frá rótum, að hann geti talað um það af nokkurri þekkingu? Ég geri ráð fyrir því, að hann byggi lýsingu sína á þeim fáu dæmum, sem hafa komið fram um óhóflega álagningu á vörum í þeim skrám, sem verðgæzlustjóri hefur látið útbúa. En hann minnist ekki einu orði á þann yfirgnæfandi fjölda af mjög hóflegri álagningu, sem kemur fram í þessum skýrslum, og hann minnist að sjálfsögðu ekki á það, sem menn vita almennt, að frjálsa verðlagið hefur valdið mjög mikilli verðlækkun yfirleitt. Það hefur komið samkeppni í vöruverðið, sem ekki hefur verið til hér á landi síðan innflutningshöftin og verðlagseftirlitið var sett á í því formi, sem það hefur verið á síðari árum. En það er viðurkennt af öllum, sem til þekkja, að menn hafa orðið að lækka verð á vörum sínum jafnvel niður fyrir það verð, sem þeir hafa keypt þær á, vegna þess hvað samkeppnin hefur verið hörð í ýmsum greinum.

Flest lönd kappkosta að losa sig sem fyrst við allt verðlagseftirlit. Flest lönd telja það hreinustu vandræði að þurfa að hlíta verðlagseftirliti, og hefur það því í flestum löndum verið leyst upp að meira eða minna leyti. En ég held, að Ísland sé eina landið, sem hefur haldið uppi opinberu eftirliti með frjálsu verðlagi. Ég er síður en svo að lasta það, að þetta sé gert. Það sýnir viðleitnina til að halda verðlaginu niðri. En þetta er að mínu viti hvergi gert annars staðar, þar sem verðlagið hefur verið gefið frjálst. Ég gæti nú vel hugsað mér, að önnur lönd, sem hafa aflétt verðlagseftirliti á vörum, mundu eftir athugun verða fyrir eitthvað svipaðri reynslu eins og við höfum orðið fyrir hér, þar sem misnotkun hefur komið í ljós. Ég er sízt að mæla henni bót, en bendi á, að slíkt getur ætíð komið fyrir, en er þó ekki neinn mælikvarði á það, að frjálsa verðlagið nái ekki tilgangi sínum.

Í sambandi við brtt. skal ég vera fáorður. Ég tel, að till. á þskj. 217 sé þannig löguð, að ekki geti komið til mála, að hún verði samþykkt. —Um till. á þskj. 165, frá hv. þm. Barð., verð ég að viðurkenna, að það væri ákaflega æskilegt að geta veitt þeim mönnum, sem lægsta hafa álagningu, vissa viðurkenningu eins og þá, sem felst í þessari till., en ég verð því miður að láta það álit mitt í ljós, að ég tel, að framkvæmd till. verði afar erfið og ekki gott að sjá, hvernig framkvæmdin mundi verða í reyndinni. — Um brtt. á þskj. 216, þar sem gerð er sú breyt. á frv., að gert verði að skyldu að birta nöfn manna, í staðinn fyrir að frv. gerir ráð fyrir heimild, þá get ég sagt fyrir mitt leyti, að ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga, þó að það sé gert að skyldu, ef þingið álitur, að málið sé betur komið í því formi heldur en að ráðh. sé gefin heimild. Það er nú einu sinni þannig, að það er venja að hafa slíkt í heimildarformi, en ég legg heldur lítið upp úr því, hvort heldur er. Ég mundi telja mér skylt, eins og málum er komið, að framkvæma það á sama veg, þó að um heimild væri að ræða.