13.11.1952
Efri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

42. mál, verðlag

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hneykslaðist mjög á þeim ummælum, sem ég hafði hér í fyrri ræðu minni, á þá leið, að ófremdarástand væri í verðlagsmálunum hér eins og sakir standa. Hann vildi ekki kannast við þetta og taldi, að þetta stafaði bara af minni vanþekkingu og að hinu leytinu mundi ég byggja þessi ummæli aðeins á þeim fáu dæmum, — hann kallar það alltaf fá dæmi, — sem uppvís hafi orðið um óhæfilega álagningu. Ég minntist nú að vísu á það áður, að þessi dæmi eru ekki fá, heldur eru þau mýmörg, og nefndi það sem dæmi um það, hversu erfitt væri að fela hæstv. ráðh. einum úrskurðarvald um það, hvað ætti að telja óhæfilega álagningu og hvað ekki. Hins vegar skal ég segja hæstv. ráðh. það, að þó að ég hafi enga sérþekkingu í verzlunarmálum, eins og hann hefur, og hafi þá heldur ekki stundað slíkan atvinnuveg sem hann hefur gert, þá þarf enga sérþekkingu til þess að komast að því, hvernig verðlagið er hérna í landinu eins og sakir standa. Maður þarf ekkert annað, en að ganga í búðirnar, og það er órækasti votturinn um það, að verðlag hér hefur ekki lækkað við það, að það var gefið frjálst, eins og hæstv. ráðh. segir, heldur hefur það stórhækkað. Um það þarf ekki að leita til neinna sérfræðinga.

Ég skal nú ekki fjölyrða um þetta, en það er aðeins viðvíkjandi þeim ummælum, sem fallið hafa hér um þá skriflegu till., sem ég flutti hér áðan. Hv. 1. þm. N–M. skar yfir einn kamb þessa till. mína og till. hv. þm. Barð. og taldi, að þó að hugsunin, sem á bak við fælist, væri viðurkenningarverð, þá gæti hann ekki verið með þeim vegna erfiðleikanna á framkvæmdinni. Og í því sambandi féllu honum orð m.a. á þá leið, að það væri yfirleitt ekki hægt að ná til þeirra, sem hefðu lægst verð, vegna þess, hvernig háttað væri með reglurnar um álagningu. Ég hélt ég hefði tekið það nægilega skýrt fram áðan, þegar ég flutti till., að það var einmitt þetta, sem ég hefði á móti till. hv. þm. Barð., að hún er eins og hinar till. miðuð við álagninguna. En mín till. er aftur á móti alls ekki miðuð við álagninguna, heldur beint við verðlagið á vörunum. Og ég held, að það sé hreinn misskilningur hjá hv. þm. N–M., ef hann álítur, að það sé ekki hægt að framkvæma þá till. og að það sé yfirleitt ekki hægt að ná til þeirra, sem lægst verð hafa. Það er þvert á móti tekið skýrum stöfum fram í 1. gr. þess frv., sem hér liggur fyrir, að verðgæzlustjóri skuli fylgjast með verðlaginu í landinu, ekki sérstaklega álagningunni, heldur skuli hann fylgjast með verðlaginu í landinu. Og mín till. er einmitt byggð á þessari skyldu verðlagsstjóra. Hann á samkv. lögunum að fylgjast með verðlaginu, og þess vegna hlýtur það að vera auðvelt fyrir hann að geta gefið upplýsingar um verðlagið. Og það er það, sem ég er að reyna að ná með minni till., að almenningur eigi þess kost vegna starfs þessa opinbera starfsmanns, sem hann auðvitað verður að standa straum af eins og öðrum opinberum starfsmönnum, að njóta þess góðs af starfi hans að fá upplýsingar um verðlagið á þann hátt, sem till. felur í sér, að um það verði birt skýrsla með tilteknu millibili, þar sem almenningur fái frá öruggum heimildum upplýsingar um verðlagið, ekki álagninguna á vöruna, heldur verðlagið á þeim tíma, sem skýrslan nær yfir. Og það held ég að sé öruggasta ráðið, eins og ég gat um áðan, til þess að stofna til þeirrar samkeppni, sem hér virðist vera full þörf á um það, að verzlanirnar haldi verðinu niðri, ekki bara álagningunni, heldur sjálfu verðinu.

Hv. 8. þm. Reykv., formaður allshn., lét í ljós óánægju yfir því, að ég sem nm. skyldi flytja hér skriflega till. við síðustu meðferð málsins hér í d., en ekki hafa borið hana fram í n. Það er alveg rétt, að það hefði verið ákjósanlegra, að till. hefði komið fram þegar í n., og á það drap ég nú að vísu í minni fyrri ræðu einnig, en hitt vil ég benda á, að í n. lét ég mjög greinilega í ljós, að ég væri fylgjandi þeirri hugsun, sem fælist í till. hv. þm. Barð., og fyndist hún í raun og veru aðgengilegust af þeim till., sem þarna lágu fyrir, þó að einnig væru á henni annmarkar.

En það virtist hins vegar ekki vera neinn samkomulagsgrundvöllur fyrir hendi í n. um þá till. eða um breytingar á henni, og þess vegna er það, að ég ber þessa till. hér fram skriflega og alveg í samræmi við þá skoðun, sem ég hafði látið í ljós í n. Hitt þykir mér nú furðulegra, að þessi hv. þm. og formaður n. lýsir því yfir, eftir að þessi till. hefur þó verið lögð hér fram og rædd og lesin yfir a.m.k. tvisvar sinnum, að þá viti hún alls ekki, um hvað till. fjallar, og hitt þykir mér enn þá furðulegra, eftir að hún hefur gefið þessa yfirlýsingu, að hún skuli þá lýsa sig andvíga því, að umr. sé frestað, til þess að n. geti fjallað um till. og þessi hv. þm. meðal annars þá komizt að raun um það, um hvað till. fjallar. Og þó að ég hefði ekki ætlað mér að gera það, þá vil ég nú, eftir þessa yfirlýsingu, taka undir ósk hv. þm. Barð. um það, að umr. verði frestað og n. gefinn kostur á því að athuga till., áður en málið verður endanlega afgr. héðan úr deildinni.