21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. var að reyna að túlka orð mín svo, að ég bæri vantraust til verðgæzlunnar. Það er alveg rangt. Ég ber fyllsta traust til verðgæzlustjórans, að svo miklu leyti sem ég þekki til starfa hans og starfsmanna hans. Það hef ég margsagt áður. Og ekkert, sem ég sagði áðan, getur með réttu skilizt þannig, að ég treysti ekki þeim embættismanni og þeim embættismönnum, sem þar starfa, í hvívetna. Það er útúrsnúningur á orðum mínum. Ég ber ekki vantraust til verðgæzlunnar. Ég ber vantraust til hæstv. viðskmrh. Þannig ber að skilja allt, sem ég sagði um málið, og það gera fleiri en ég, það má hæstv. ráðh. vita.

Ég sagði í ræðu minni áðan, að ég hefði heyrt eftir tveim kaupsýslumönnum, að þeir hefðu óttazt það nokkuð, að nöfn þeirra mundu verða birt á svo kölluðum okurlista, en að þeir hefðu nú fyrir nokkrum dögum varpað öndinni léttar og sagzt mundu vera úr allri hættu. Hæstv. ráðh. skoraði á mig að birta nöfn þessara manna. Ég skal verða við þeirri áskorun, þó að nokkuð síðar verði, á þann hátt, að ef hæstv. ráðh. birtir á næstunni lista yfir menn, sem hafa lagt óhóflega á, og þessa menn vantar á listann, þá skal ég bæta þeim við á hann opinberlega.