24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

12. mál, áfengislög

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að minnast lítillega á brtt., sem ég flyt á þskj. 536, og er breyting þessi við 11. gr. frv. Í þessari breyt. felst það, að það er tekið fram með beinu lagaákvæði, að áfengisverzlun ríkisins skuli selja lyfjabúðum áfengi til lyfjagerðar við kostnaðarverði. Þetta ætti nú kannske ekki .að þurfa að setja í frv., og það má e.t.v. segja, að það ætti fullt svo vel heima í lögunum um áfengisverzlun ríkisins, en þar sem ákvæðið um þetta efni er þar mjög óljóst og þar sem einnig reyndin hefur orðið sú, að áfengisverzlunin hefur fylgt um þetta allt annarri reglu og sett mjög hátt verð á spíritus til lyfjagerðar, þá hefur þetta beinlínis orsakað verðhækkun lyfja og ýmiss konar vandræði í því sambandi.

Ég hygg, að það geti allir verið sammála um það, að mjög óeðlilegt sé, að áfengisverzlunin hagnist á því magni áfengis, sem inn er flutt eða selt er til þess eins að nota í lyf, heldur beri henni að selja slíkt með kostnaðarverði, því að það hlýtur að vera að sjálfsögðu kappsmál að stuðla að því; að lyfin geti orðið sem ódýrust. Það getur ekki á neinn hátt leitt af sér misnotkun eða frekari misnotkun á meðferð þess áfengis, sem lyfsalar fá til lyfjagerðar, hvort það er selt nokkru dýrar eða ódýrar, þannig að það á ekki að þurfa að skapa neina hættu að því leyti, þó að ákveðið sé, að áfengið sé selt þeim við kostnaðarverði. Það verður vitanlega, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., að setja um það strangar reglur, hversu haga skuli sölu áfengis til lyfsala og lækna, og reyna að framfylgja þeim reglum, og það mun auðvitað ekki skapa neitt meiri erfiðleika, þó að þeim sé sett þetta mark með því lága verði, sem gert er ráð fyrir, enda — eins og ég sagði áðan — virðist ótvírætt sú vera ætlunin í lögunum um áfengiseinkasölu ríkisins eða áfengisverzlun ríkisins, að þetta sé gert. En þar sem reyndin hefur orðið sú, að það hefur ekki verið gert, þá þykir mér sjálfsagt, að það sé beinlínis tekið fram í þessum lögum, enda út af fyrir sig ekkert óeðlilegt, þar sem í lögunum er að finna bæði ákvæðin um þær reglur, sem setja skuli í sambandi við áfengissölu til lyfjabúða og einnig á öðrum stað í frv. gert ráð fyrir, að þar sé mælt fyrir um, hvort heimilt skuli að selja áfengi með afslætti eða ekki, þannig að þetta brýtur ekki á neinn hátt í bága við það, sem gert er ráð fyrir í frv. eins og það hljóðar nú. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta. Þessi till. skýrir sig sjálf, og vænti ég, að hv. þdm. geti fallizt á, að það sé eðlilegt sjónarmið, sem þarna kemur fram.

Þá vil ég í sambandi við brtt. þá, sem við hv. 5. þm. Reykv. flytjum á þskj. 516 og lýst var hér í gær, leyfa mér að bera fram skriflega brtt., þar sem ýmsir hafa lagt aðra merkingu í orðalag till. heldur en ætlun okkar er, og það er auðvitað sjálfsagt að taka af öll tvímæli um það. Þó að ég telji, að það hafi strangt tekið ekki þurft, þá er samt sjálfsagt, úr því að tækifæri er til þess, að breyta orðalaginu þannig, að það geti ekki leikið á tveim tungum, hvað við er átt. En það var sem sagt skoðun sumra, að í till. væri gert ráð fyrir því, að eftirlitsmennirnir væru starfsmenn veitingahúsanna og tækju laun sín hjá þeim og væru þeim háðir. Það er auðvitað alls ekki ætlunin, heldur að þetta verði eins og hverjir aðrir löggæzlumenn, sem taki laun sín hjá ríkissjóði, og veitingahúsin greiði síðan aftur eftir ákvörðun ráðherra þann kostnað, sem verður af eftirlitinu. Ég vildi því leggja til, að í stað orðanna „og skulu leyfishafar greiða laun eftirlitsmanns og allan kostnað af starfi hans, eftir ákvörðun ráðherra“ komi: Ríkissjóður greiðir laun eftirlitsmanna, en leyfishafar skulu endurgreiða ríkissjóði kostnað við eftirlitið, eftir ákvörðun ráðherra. — Þá held ég, að það leiki ekki á tveim tungum, hvað við sé átt í till.

Þá langar mig örlítið að lokum til þess að ræða við fulltrúa heilbrigðrar skynsemi hér í d., hv. þm. N-Ísf. Mér dettur ekki í hug að draga í efa, að hann hafi fullan vilja á að vera í þessu máli sem öðrum túlkandi hinnar heilbrigðu skynsemi og það muni því vera fullkomlega óviljandi, sem hann gerist talsmaður að því máli, sem hann hefur ásamt nokkrum öðrum borið hér fram í þessari hv. þd., og harma ég það vissulega, að honum skuli þó hafa skotizt í þetta sinn með sína heilbrigðu skynsemi.

Ég vil nú fyrst leyfa mér að leiðrétta það, sem hann sagði um afstöðu mína hér í d. í gær, að ég hefði síður en svo mælt á móti því, að vín væri selt í landinu. Þetta er vitanlega alger rangfærsla á mínum orðum. Ég tók það beinlínis fram í upphafi míns máls, að það lægi ekki fyrir nú í sambandi við þetta frv. að ræða um það atriði, hvort menn væru með eða móti vinsölu í landinu yfirleitt, og ég tók það fram, að brtt. mínar bæri að skoða í því ljósi, að við stæðum andspænis þeirri staðreynd, að það væri gert ráð fyrir í þessu frv., að vínsala færi fram, og þar væri aðeins um það að ræða, hvernig ætti að haga sölu á því víni, sem á annað borð er flutt til landsins og haft hér til sölu. Ég tók það skýrt fram, að ef um það væri að ræða, hvort yfirleitt ætti að flytja til landsins áfengi eða ekki, þá gæti viðhorf mitt til þessa máls vitanlega verið allt annað, en þegar um það er að ræða, hvernig haga skuli sölunni, þá hygg ég, að það verði ekki með nokkrum rétti sagt, að maður sé talsmaður sölu á sterkum vinum, þó að hann gerist nokkur þátttakandi í till. um það, hvernig skynsamlegast muni vera að haga sölu á þessu eiturlyfi, úr því að það á annað borð er selt í landinn. Hygg ég, að flestir muni geta skilið, að það er reginmismunur á mínu viðhorfi eins og það raunverulega er og eins og það var túlkað af hv. þm. N-Ísf.

Mér skildist á hv. þm., að hann teldi, að ölneyzla og sala á sterku öli væri sérstakt menningareinkenni, og það væru aðeins Eskimóarnir í Grænlandi, sem slyppu undan þessari menningu. Ég held, að það þurfi ekkert að aumka Eskimóana í Grænlandi fyrir það og Íslendingar þurfi ekkert að skammast sín fyrir að hafa sömu reglur um það atriði hjá sér eins og það er, þó að það kunni að vera sama sem gildir í Grænlandi. Það, sem skiptir meginmáli í þessu, er að gera sér grein fyrir því, hvernig er reynsla ölþjóðanna, og það, sem ég lagði áherzlu á í máli mínu í gær, er það, að ef það er staðreynd, að reynsla þeirra þjáða, sem öl hafa bruggað og sett um lengri tíma, er slík, að þar liggur ljóst fyrir, að um miklum mun meiri áfengisneyzlu er að ræða heldur en hjá okkur og jafnvel margvísleg önnur vandræði í sambandi við áfengismál þar sízt minni eða jafnvel meiri en hér, þá álít ég, að það sé fullkomið glapræði og ábyrgðarleysi að fara að taka upp sölu á slíkri víntegund hér. Það er nóg að verða að búa við það, sem við höfum, þó að við bætum ekki því ofan á, ef staðreyndin er sú, að það er reynsla annarra þjóða, að ölið hafi í för með sér aukna vínneyzlu, en ekki hið gagnstæða. Og það taldi ég mig hafa sýnt fram á hér í gær í minni ræðu, að það einkennilega liggur ljóst fyrir í opinberum skýrslum, sem ekki verða vefengdar, að þótt mikið sé talað um áfengisvandamál hér á Íslandi og það sé vissulega mikið, þá drekka þó Íslendingar langminnst allra Norðurlandaþjóðanna. Danir drekka meira en tvöfalt á móts við Íslendinga, miðað við hvern íbúa landsins, og þeir hafa blessun ölsins. Þannig hefur það nú verkað þar. Og samkvæmt skýrslu, sem gerð hefur verið af heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 1951, þá er þar tekið fram, að blessun ölsins hafi nú ekki verið meiri í Danmörku en það, að þar séu um 1600 alkóhólistar á hverjar 100 þús. íbúa, þannig að það virðist nú ekki vera neitt sómaástand í því landi, og ég býst við, að sem betur fer fari því fjarri, að hér á Íslandi séu yfir 2000 alkóhólistar, og höfum við þó ekki notið blessunar ölsins.

Hv. þn:. N-Ísf. ræddi töluvert um reynslu Svía og Norðmanna og gat um það, að Svíar væru nú að hverfa frá sínu kerfi og hefðu nú ákveðið að leyfa bruggun á sterku öli í landinu. Þetta er alveg rétt. En það út af fyrir sig sannar ekki neitt um ágæti sterka ölsins af þeirri einföldu ástæðu, að Svíar hafa búið við hina hörmulegustu áfengislöggjöf allra Norðurlandaþjóðanna. Þeir hafa haft skömmtun áfengis um langt árabil, en það hefur ekkí reynzt betur en það, að þeir drekka heimingi meira en Danir á hvern íbúa, þannig að þeir eru langsamlega hæstir með sína skömmtun í áfengisneyzlu af öllum Norðurlandaþjóðunum. Það, sem þeir eru að gera hér, er ekki annað en þeir eru að fálma sig áfram og reyna að taka upp eitthvað annað en það vandræðaástand, sem þeir hafa búið við, og það er enginn kominn til með að segja það, að bruggun og sala ölsins minnki nokkurn hlut áfengisneyzluna þar í landi. Þetta er aðeins tilraun, sem þeir eru að gera í sínu vandræðafálmi vegna þess hörmungarástands, sem þar hefur verið. En að það réttlæti, að við förum að taka upp eftir Svíum þessa tilraun þeirra, er auðvitað fjarri öllu lagi. Úr því að hv. þm. minntist á Norðmenn, þá er ekki úr vegi að benda honum á það, að sterka ölið hefur ekki reynzt betur í Noregi en svo, að um 500 héraðsstjórnir og bæjarstjórnir hafa skorað á ríkisstjórnina norsku að hætta að selja sterkt öl í landinu. Reynslan er nú ekki betri en þessi.

Þegar það liggur ljóst fyrir, eins og ég áðan sagði, að við Íslendingar neytum nú minnst áfengis af öllum Norðurlandaþjóðunum, þó að hér sé að vissu leyti vandræðaástand á því sviði, og við einir allra Norðurlandaþjóðanna höfum ekki sterkt öl, þá finnst mér það harla einkennileg niðurstaða að halda því fram, að það sé eitthvert sérstakt bjargræði að fara nú að taka upp að selja hér sterkt öl. Ég minntist hér áðan lauslega á áfengisneyzluna á Norðurlöndum, mælti það eftir minni, en það hefur verið skotið hér að mér nákvæmum upplýsingum um það, hvernig ástatt er í því efni, en ástandið er þannig, að í Danmörku var áfengisneyzlan 1952 2.92 1 af 100% alkóhóli á hvert mannsbarn, í Finnlandi 1.87 l. í Noregi 2.12 l. í Svíþjóð 3.71 l og á Íslandi 1.33 l. þannig að ljóst er af þessum tölum, að við erum þó langsamlega lægstir með áfengisneyzluna hér. Og svo vilja menn taka hér upp menningu bjórsins.

Hv. þm. N-Ísf. sagði, að það lægi nokkuð ljóst fyrir og væri einkennilegt, ef menn væru ekki á þeirri skoðun, að sá, sem drykki 4% öl, yrði síður ölvaður heldur en sá, sem drykki 60% vín. Ja, ég hygg nú, að það sé enginn, sem hefur haldið því fram eða detti í hug að halda því fram, að það lægi ekki nokkurn veginn ljóst fyrir, enda er það alls ekki kjarni þessa máls, hvort maður verður ölvaðri, ef hann sezt niður við öldrykkju eða víndrykkju. Það eru margar aðrar hliðar á málinu. Það er staðreynd, sem betur fer, að það er ekki hér á landi almenn áfengisneyzla, ég á við, að það er mjög lítið um það hér á landi, að menn neyti að staðaldri áfengis, eins og á sér stað t.d. í löndum eins og Frakklandi, þar sem drykkjuskapur er svo mikill, að það eru drukknir þar yfir 16 l af alkóhóli á hvert mannsbarn. Þetta hins vegar fylgir í kjölfar ölbruggunarinnar, að þar verður áfengisneyzlan miklum mun tíðari og menu neyta áfengis miklu almennar.

Ég ræddi rækilega í ræðu minni hér í gær um hættu þá, sem bæði æskulýðnum og mörgum öðrum stafaði af sterka ölinu, minntist einnig á þá ómenningu, sem hvarvetna hefur fylgt í sambandi við ölknæpurnar, og ég hygg, að það sé á engan hátt hægt að benda á nein rök, sem séu svo haldgóð, að þau megna að vega upp þær sterku röksemdir, sem fyrir liggja um hina slæmu reynslu þeirra þjóða, sem hingað til hafa haft þennan sæludrykk, sterka ölið, á boðstólum fyrir sína borgara.

Það er dálítið eftirtektarvert að minna á það, að þegar bannið á sínum tíma var afnumið 1935, þá var það ein meginröksemd andbanninga, að ef það væru fluttir til landsins sterkir drykkir, þá mundi það draga úr drykkjuskapnum, vegna þess að veiku vínin hefðu í för með sér miklu almennari drykkjuskap heldur en ef sterkir drykkir væru. Nú virðist þessu vera gersamlega snúið við hjá mörgum þessum sömu mönnum í sambandi við baráttu þeirra nú fyrir öll. Nú á það að leiða til minnkaðs drykkjuskapar að fara að taka upp bruggun á sterku öli, vegna þess að það muni verða miklu minna um það, að menn drekki vín, ef ölið sé annars vegar. Þetta sýnir nú nokkuð, hvernig seglum er hagað eftir vindi, eftir því, hvað við á hverju sinni.

Hv. þm. N-Ísf. gaf það í skyn í sinni ræðu, að ég hefði haldið því fram, að talsmenn ölsins hér væru vitandi vits að eitra fyrir þjóðina. Þetta hef ég aldrei sagt og dettur ekki í hug að halda fram. Ég efa ekki, að þessir hv. þingmenn hafa fullan vilja á því með sínum till. að stuðla að endurbótum í áfengismálunum. Því dettur mér ekki í hug að halda fram, að neinn hér á hinu háa Alþingi hafi löngun til þess að fara að leiða ógæfu yfir sína þjóð í sambandi við till. í áfengismálunum. Og það má auðvitað endalaust deila um mörg atriði þessa máls. Þetta er búið að vera böl, ekki aðeins okkar þjóðar, heldur svo að segja allra þjóða heims og mest böl hinna svo kölluðu menningarþjóða um aldir, og hafa verið reynd ótal ráð til þess að vinna bug á þessu mikla böli. Þessi ráð hafa flest reynzt haldlítil í þessari baráttu, og því miður er það svo enn í dag, að það hefur reynzt erfitt að ala mannkynið svo upp, þrátt fyrir alla fræðslu og þekkingu á skaðsemi áfengis, að það þroskaðist upp í það að afneita þessu eiturlyfi, og ég hygg, að það eigi enn langt í land. En hins vegar verða vitanlega allir góðir menn að reyna að taka höndum saman um það að finna skynsamlega lausn á þeim vanda, eftir því sem efni standa til hverju sinni.

Ég minntist á það hér í gær, að það væri einkennilega til komið þetta ölmál hér, það væri reynt með ýmsum brögðum að læða því hér inn í það frv. til áfengislaga, sem liggur hér fyrir. Hv. þm. vildi mótmæla því, að á það væri lagt nokkurt ofurkapp að koma því í gegn hér á hinu háa Alþingi. Ég held nú, að allir hv. þm. séu búnir að fá af því nokkra reynslu undanfarna daga og vikur, að það hefur ekki svo lítil viðleitni verið sýnd í þá átt — og það jafnvel með ýmiss konar brögðum — að koma þessu sterka öli inn í löggjöfina, þannig að hv. þm. þurfi nú ekki að móðgast stórlega, þótt á það sé bent, að það hafi verið lagt á þetta nokkuð mikið kapp.

Ég ætla ekki að þreyta hv. þdm. á lengra máli. Ég vil aðeins láta að lokum í ljós nokkra undrun yfir því, að hv. þm. N-Ísf. sér ástæðu til í sambandi við þetta mál að skora á þingmenn að fylgja sannfæringu sinni, eins og hann geri ráð fyrir því, að þm. almennt geri það ekki og reyni ekki eftir beztu vitund að greiða atkvæði eftir því, sem þeir telja sannast og réttast. Ég sé nú út af fyrir sig ekki neina ástæðu til þess að bera fram slíkar áskoranir. Ég geri alveg ráð fyrir því, að hver og einn hv. þm. muni í þessu máli reyna að fylgja sinni sannfæringu, og býst við, að enginn telji vofa yfir sér neina skelfingu, þó að hann geri það.