12.04.1954
Efri deild: 86. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

205. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil bara gera grein fyrir minni afstöðu til málsins. Ég er ákaflega mikið á móti öllum þessum hasar, sem reynt er að koma á í okkar þjóðfélagi. Mikið af okkar atvinnuvegum er meira og minna hasarspil, og undir það ýtir svo það opinbera með því að gefa mönnum kost á því að fara í happdrætti hér og happdrætti þar og happdrætti þar og tombólu þar o.s.frv., getraunir þar o.s.frv., allt saman að fleygja út peningum í von um einhvern óákveðinn happdrættisvinning, sem maður fær án sinnar tilhlutunar á nokkurn hátt. Það er ýtt undir það á alla vegu að auka þá tilfinningu hjá hinu starfandi framleiðandi fólki í landinu, að það skuli bara láta velta á súðum, kannske komi upp happdrætti, sem þið getið grætt á, ef til vill fái það gott kast í síld ellegar góðan vetur, svo að það geti komið fénaðinum fram, þótt heylaust sé, og undir þetta er ýtt á alla enda og kanta. Þess vegna er ég einmitt móti þessari tekjuöflunarleið; ég er á móti að nota sér þessa tilfinningu fjöldans til þess að geta fengið hlut sinn á þurru landi, sem er reynt að gera með þessu, — ég er á móti þessari stefnu og þess vegna líka á móti þessu frv. Ég hef látið þessa skoðun í ljós tvisvar sinnum áður á Alþingi, þegar svipað hefur staðið á, og ég læt hana í ljós enn sem greinargerð fyrir því, að ég er á móti öllum svona till. og frumvörpum, sem leika sér að því að spila á lélegar og lágar tilfinningar hjá fjöldanum til að reyna að græða peninga.