13.04.1954
Efri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

209. mál, gin- og klaufaveiki

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða svo mjög um þetta mál. Það er vitað mál, að hér er kjötskortur, og því er þannig háttað með okkur Íslendinga, að ef það vantar einhverja vöru stuttan tíma, þá má það með engu móti ske, að hennar sé ekki aflað. Með aðrar þjóðir er því svo hátað, að þær flytja út þær vörur, sem eru eftirsóttar í þeirra eigin landi, og skortur á þeim hjá þeim sjálfum. Það má víst til sanns vegar færa, að þar sem ekki er meira um matföng heldur en á Íslandi, þá sé erfitt að koma því svo fyrir, að hér vanti kjöt, og þá sérstaklega þann tíma, sem ferðamenn eru mikið í landinu, þó að móttaka þeirra sé ekki stór atvinnugrein.

Þetta mál er nú þannig undirbúið, að ég sé, að framleiðsluráð landbúnaðarins hefur mælt með því, að kjöt verði flutt inn, og það er mælt með því af yfirdýralækni og aðaldýralækninum að Keldum, og sennilega þá af rannsóknastöðinni á Keldum. En hér í þessum umr. hefur verið skýrt frá því, að þetta kjöt mundi verða flutt inn frá landshluta, þar sem ekki sé nein sýkingarhætta, og það hefur verið sagt frá því af hæstv. landbrh., að kjöt mundi verða flutt inn frá Danmörku. Ég er nú ekki svo kunnugur erlendis, hvorki í Danmörku né annars staðar, að því er snertir húsdýrasjúkdóma, að ég viti, hvernig þar er ástatt. Ég veit að vísu, að þar hefur verið gin- og klaufaveiki, en sennilega svo háttað, fyrst læknarnir mæla með því, að kjötið verði flutt inn þaðan, að þess sjúkdóms hafi ekki gætt þar um lengri tíma eða síðasta ár. Ég vil þó segja það, að ég vildi, að það væri tekið til athugunar, fyrst þessi heimild verður gefin, sem er líklegt eða fyrirsjáanlegt að verður, hvort ekki sé hægt að flytja kjötið inn frá löndum, þar sem þessa sjúkdóms, gin- eða klaufaveikinnar, hefur aldrei gætt eða annarra sjúkdóma, sem eru mjög hættulegir alidýrasjúkdómar, en þau lönd hygg ég að séu til. Og ég vil mjög eindregið beina þeim tilmælum til ríkisstj. og þeirra, sem með þessi mál fara af hennar hálfu, að þetta atriði sé tekið til gaumgæfilegrar athugunar.

Það er ekki hægt að neita því, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, vekur hjá mér einkennilegar endurminningar frá störfum í þessu þingi. Ég bar einu sinni fram frv. um það, að flutt væri hér inn til kynbóta holdakyn, sem margir álíta að væri til bóta fyrir kjötframleiðsluna í landinu. Það eru margir og það meira að segja þeir, sem hafa reynt framleiðslu á kjöti á þennan hátt, að ala hér holdakyn, þeirrar skoðunar, að þessi atvinnuvegur geti borið sig mjög vel á Íslandi. Var gert ráð fyrir því í þessu frv., að gætt yrði allrar hugsanlegrar varúðar við innflutning; það yrði sett upp einangrunarstöð, sem átti að kosta stórfé og útbúa þannig að allt væri með fyllsta öryggi, og það átti að flytja inn ungviði af þessu holdakyni frá löndum eða landi, þar sem ekki höfðu verið hættulegir alidýrasjúkdómar, þ. á m. ekki gin- og klaufaveiki. En þessa var algerlega synjað af hv. Alþ. Það mátti ekki heyrast nefnt. Nú þegar skortir kjöt í þrjá mánuði, þá er undireins rokið til, þó að ég efist um, að hættan af innflutningi kjöts sé minni en hættan af því að flytja inn ungviði, sem er flutt inn frá löndum, sem eru ósýkt af þessum alldýrasjúkdómum. Nú er rokið til, og þá má flytja inn kjöt, þó að hættan sé ef til vill alveg eins mikil og við að flytja inn ungviði til að koma hér á stofn atvinnuvegi, sem ef til vill gæti verið framtíðaratvinnuvegur á Íslandi. Meðal annars hafa bænaur, sem standa engum að baki í þessu landi, hvað eftir annað gert ályktanir um að flytja inn holdakyn og einangra það í fleiri ár á afskekktum stað, — þeir hafa stungið upp á Grímsey í þessu skyni, — og það er mjög mikið vafamál, að þeim verði heimilað hér frá Alþ. að gera þessa tilraun, þó að hún sé sennilega ekki hættumeiri en það að flytja inn kjötið og þó að þessi innflutningur sé leyfður eingöngu vegna þess, að okkur vantar kjöt í tvo, þrjá mánuði, en sá innflutningur, sem þeir sennilega fara bráðlega fram á, og sá innflutningur, sem ég fór fram á, var til þess að skapa hér nýjan atvinnuveg. Meðal annars minnist ég þess, að ég átti ýtarlega fundi með dýralæknum landsins um þessi atriði. Þeir töluðu þar hver í kapp við annan um það, að þeir vildu ekki ráðleggja þennan innflutning, og þar á meðal var tilraunastöðin á Keldum fremst í flokki. Það er ómögulegt að neita því, að þetta er dálítið einkennilegt viðhorf hér á Alþ., og ég get ekki komizt hjá því að minna á það.

Ég mun svo að öðru leyti láta afgreiðslu þessa máls afskiptalausa, eins og það er undirbúið af hálfu ríkisstj. af sérfræðingum og framleiðsluráði.