29.03.1954
Neðri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta frv. um Kirkjubyggingasjóð hefur verið rætt á fundum heilbr.- og félmn., og hefur n. samþykkt samhljóða að mæla með samþykkt þess.

Eins og fram kemur í grg. frv., þá eru kirkjur viða orðnar mjög lélegar og þurfa gagngerðra endurbóta eða endurbyggingar við, en margir söfnuðir hins vegar svo fámennir, að þeim er þetta torvelt eða ókleift, eins og byggingarkostnaði er nú háttað, nema þeir fái verulega aðstoð hins opinbera.

Mér virðist raunar, að nauðsynlegt sé að athuga vel í sambandi við kirkjubyggingar, hvort ekki sé skynsamlegt og sjálfsagt að byggja saman kirkju og skóla eða samkomuhús og kirkju, þar sem svo hagar til, að það gæti hentað. Við þetta verður kostnaður við byggingu þessara stofnana viðráðanlegri, einkum í fámenni. Og þó hefur reynslan sýnt, að þetta getur mjög vel farið saman. Þetta er raunar heldur ekki óalgengt, jafnvel hér í sjálfum höfuðstaðnum, að söfnuðir noti hátíðasali skólanna, sem hér hafa verið byggðir, fyrir messur sínar, og þó hefði þetta verið miklu hægara, að nota hátíðasalina, ef í upphafi hefði verið ráð fyrir því gert, að þeir yrðu einnig notaðir sem kirkjur. Það er nokkuð byrjað á þessu úti um landið, að byggja saman skóla og kirkju. Ég hygg, að fræðslumálastjórnin hafi fallizt á, á einum tveimur stöðum á landinu a.m.k., að skólar, sem verið er að byggja, verði þannig, að jafnframt sé hægt að nota þá sem kirkjur.

Enn um sinn verður þó sennilega að byggja allmikið, af nýjum kirkjum og þó einkum að hressa upp á og gera við þær eldri, þannig að þær séu viðunanlegar. Virðist sú upphæð, sem gert er ráð fyrir í frv., vera hófleg til þess.

Nefndin ræddi einnig um brtt. hv. þm. N-Þ. við frv. Þær fjalla aðallega um nefndarkosningu til ráðstöfunar þessa fjár, sem lagt verður í Kirkjubyggingasjóð, og töldu nm. óþarfa umstang að vera að kjósa til þess fimm manna nefnd, mundi vera nægilegt að láta þrjá menn úthluta fénu, eins og gert er ráð fyrir í frv., nefnilega biskup landsins, sem átti í raun og veru að vera í báðum þessum nefndum, húsameistara ríkisins og þriðja mann, sem kirkjumrh. skipar.

N. leggur sem sagt til, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að þetta frv. verði samþ. óbreytt: