30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

164. mál, brúargerðir

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í rauninni er það óþarft fyrir mig að taka til máls í sambandi við till. á þskj. 537, þar sem frsm. samgmn. hefur lýst því, að samgmn., eftir að hafa rætt við vegamálastjóra, fellst á till. Það má segja, að till. sé lítið annað en leiðrétting; hún fer ekki fram á nein fjárframlög fram yfir það, sem væri, ef brúin á Hólsá væri byggð þar, sem brúarstæðið er nú ákveðið. En ástæðan til þess, að við þm. Rang. flytjum þessa brtt., er sú, að brúarstæðið hjá Ártúni er ekki eins hagstætt og ætlað var í fyrstu og reynslan hefur sýnt, að það er jafnvel hættulegt að þrengja ána hjá Ártúnum fyrir ofan Djúpóssfyrirhleðsluna; af því gæti stafað hætta fyrir Djúpóssfyrirhleðsluna.

Með þessari brtt. er gert ráð fyrir að brúin verði byggð allmiklu neðar, en þar sem ekki hefur verið mælt nákvæmlega fyrir brúarstæðinu, er ekki nánar tiltekið með þessari till., hvar brúin skuli byggð, heldur en það, að hún skuli byggð í Landeyjum, við þjóðveginn í námunda við Þykkvabæ.

Ég vil aðeins láta þetta koma fram hér, vegna þess að brúin er búin að vera í brúalögum í nokkur ár, og hefur ekkert fjárframlag fengizt til hennar nú á síðustu árum. Einu sinni hafði verið veitt til hennar að mig minnir 80 þús. kr., en vegna þess, hversu brúarstæðið þótti alltaf vafasamt, hefur ekki enn verið byggð þarna brú, og nú upp á síðkastið ekkert fé veitt til hennar. Við teljum þess vegna, flm., að það sé ekki forsvaranlegt, úr því að verið er nú að endurskoða brúalögin og samþ. hér lög um margar brýr, sem skuli byggðar í náinni framtíð, að láta brúarstæðið enn vera ákveðið hjá Ártúnum yfir Hólsá, þrátt fyrir það þótt reynslan hafi sýnt okkur og kennt, að þetta brúarstæði sé vægast sagt vafasamt.

Þakka ég svo hv. samgmn. fyrir góðar undirtektir í sambandi við þessa till.