03.12.1953
Efri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Fjhn. d. hefur haft þetta frv. til athugunar og gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Hv. 4. þm. Reykv. leggur til, að frv. verði fellt samkvæmt nál. hans á þskj. 227, en við hinir nm. lítum svo á, að það sé með öllu óhugsandi að svipta ríkissjóð þeim tekjum, sem hann hefur af söluskattinum, og þess vegna leggjum við til, fjórir nm., að frv. verði samþ. Þess er getið í nál. okkar í meiri hl. á þskj. 218, að við munum athuga nánar fyrir 3. umr., hvort ekki sé þörf á að bera fram brtt. við frv., og var það út af þeim breytingum, sem frv. tók í hv. Nd. frá því, að það var þar lagt fram í fyrstu af hæstv. ríkisstjórn.

Ég skal nú geta þess, þó að það sé ekki að öllu leyti fyrir hönd n., að ég hef á ný athugað þessar brtt., sem samþ. voru í hv. Nd., og ég get ekki fyrir mitt leyti fundið, að í þeim felist neitt annað en að gera ákvæði frv. skýrari, a.m.k. raska þau framkvæmd þessara l. ekki á neinn hátt. Lögin hafa verið framkvæmd á þann veg, sem 3. gr. frv. segir fyrir um. Þær upplýsingar hef ég frá fjmrn. Samt sem áður mun ég á sínum tíma spyrjast fyrir um það í fjhn., hvort einhverjir nefndarmanna þar sjái ástæðu til að bera fram brtt. út af þeim breytingum, sem Nd. setti inn í frv.

Um álit hv. minni hl., 4. þm. Reykv., skal ég ekki ræða, fyrr en hann hefur gert grein fyrir því, en þó vil ég til að spara tíma nú þegar spyrjast fyrir um það hjá honum, og ætlast til að hann svari því: Hvernig á að hans áliti að afgreiða fjárl. næsta árs, ef hans till. um að fella frv. verður samþ.? Hvernig á að mæta þeim stórkostlega tekjumissi, sem af því mundi leiða? Er það t.d. með því að draga eitthvað töluvert úr tryggingalöggjöfinni, þannig að spara mætti útgjöld ríkisins á þann veg? Eða þótt ekki væri dregið úr tryggingunum sjálfum, er það meint þá með því að færa gjöld af ríkissjóði og yfir á þá tryggðu, svo að þetta yrðu virkilegar tryggingar, en ekki að nokkru leyti opinber framfærsla? Eða hvað er það, sem fyrir hv. þm. vakir? Menn halda, að það sé vinsælt að vera á móti sköttum, en með verklegum framkvæmdum og ýmsum öðrum útgjöldum, sem ríkissjóður þarf að inna af hendi, en ég er nú ekki alveg viss um, að almenningur sé yfirleitt svo blindur, að hann sjái ekki, að slík pólitík er alls ekki framkvæmanleg. Þess vegna vil ég mjög skora á hv. minni hl. n. að gera grein fyrir, hvað hann hyggst fyrir um afgreiðslu fjármála t.d., ef hann ætti nú skyndilega að taka við þeim málum og bera á þeim fulla ábyrgð. Mér finnst hann skyldugur til þess, þegar hann gerir svona till., að gera jafnframt grein fyrir afleiðingum hennar.