23.10.1953
Neðri deild: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

63. mál, síldarleit

Flm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Eins og segir í grg. með frv. þessu, hefur síldarleit verið haldið uppi með flugvélum fyrir Norður- og Norðausturlandi óslitið og kerfisbundið síðan 1938, en löngu áður var farið að leita síldar úr flugvélum einstöku sinnum og óreglulega. Kom það undireins í ljós, að síldarleit úr flugvélum var til hins mesta hagræðis fyrir síldveiðiflotann. Gilti það bæði um þau sumur, er síldveiði var mikil og síldin óð á mörgum og stórum svæðum fyrir Norður- og Norðausturlandi, og þó ekki síður nú á síðustu 9 árum, er síldveiði hefur verið lítil og stopul. Hefur síldarleitin á þessum síðustu 9 árum fengið alveg sérstaka þýðingu og orðið til ómetanlegs gagns, eins og bent er á í grg., sem fylgir frv. þessu. Nú á síðustu árum hefur það litla, sem veiðzt hefur af síld, aflazt alllangt frá landi, síldin vaðið dreift og hingað og þangað frá degi til dags. Ég held, að það sé alveg óhætt að segja, að án síldarleitar úr lofti mundi sú síld, sem þó hefur aflazt á síðustu síldarleysisárum, hafa farið fyrir ofan garð og neðan. Þá er það mjög mikilvægt, að síldarleitin hefjist nægilega fljótt á vorin eða fyrri hluta sumars. Hafa sjómenn vanir síldveiðum sagt mér, að það sé álit þeirra, að þegar síldin geri lítið eða ekkert vart við sig á grunnmiðum uppi undir landi, kunni hún að byrja að vaða djúpt úti á miðum, þar sem hún hefur aðallega veiðzt nú undanfarin síldarleysisár, fyrr en áður var vitað um, jafnvel í byrjun júnímánaðar. Á þeim tíma hefur fram að þessu ekki verið haldið uppi neinni síldarleit, en í frv. því, sem hér er til umræðu, er gert ráð fyrir, að síldarleit hefjist ekki síðar en 1. júní. Ætti því með því að vera tryggt, að síldin færi ekki fram hjá án þess, að við hana yrði vart.

Ég vil taka það fram, að enda þótt flm. þessa frv. hafi ekki komið auga á aðra heppilegri og sanngjarnari skiptingu kostnaðar við síldarleitina en þá, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu, má vel vera, að einstakir þm. hv. d. eða hv. sjútvn. geri það, en til þeirrar n. mun ég leggja til að frv. verði vísað að umr. þessari lokinni. Hygg ég, að enginn flm. mundi setja það fyrir sig, þótt þeim ákvæðum frv. yrði eitthvað breytt, ef leidd væru rök að réttmæti brtt. Hitt er aðaltilgangur flm. frv., að komið verði á fastri skipan við skiptingu kostnaðarins við síldarleitina svo og annað viðkomandi henni og yrði þar með sköpuð meiri festa og öryggi í framkvæmd hennar en hingað til hefur verið.

Vil ég svo leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.