27.11.1953
Neðri deild: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

63. mál, síldarleit

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 192 hefur sjútvn. þessarar hv. d. gefið út nál. um frv. til l. um síldarleit, 63. mál, þskj. 78. Eins og greint er frá í nál., leitaði n. umsagnar þeirra aðila, sem aðallega eiga að bera kostnaðinn við síldarleitina, en það eru síldarverksmiðjur ríkisins, síldarútvegsnefnd og fiskimálasjóður. Allir hafa þessir aðilar tjáð sig meðmælta samþykkt frv., enda hafa þeir á undanförnum árum greitt kostnað við síldarleit yfir sumarmánuðina fyrir Norður- og Norðausturlandi.

Síldarleit úr lofti hefur verið framkvæmd óslitið að sumarlagi síðan árið 1938. Engum dylst, að síldarleitin hefur oft komið að ómetanlegu gagni fyrir síldveiðiskipin, enda má fullyrða, að sjómenn og aðrir, sem bezt þekkja til þessara mála, telja síldarleitina ómissandi. Eins og getið er um í grg. með frv., er hægt að fljúga yfir síldveiðisvæðið á örfáum klukkustundum, þegar veður leyfir. Hægt er að benda á mörg dæmi þess, að síldarleit úr lofti hafi orðið að miklu gagni. T. d. er talið, að á s. l. sumri hafi upplýsingar flugvélarinnar, sem annaðist leitina, orðið til þess, að síldarskipin veiddu á einni kvöldstund útflutningsverðmæti, sem nam um það bil 4 millj. króna, sem annars má gera ráð fyrir að hafi farið að mestu forgörðum. Mörg önnur hliðstæð dæmi mætti nefna, sem sanna notagildi síldarleitar úr lofti, en þess gerist ekki þörf.

Í nál. á þskj. 192 hefur sjútvn. borið fram nokkrar breytingar á frv. Frumvarpið þannig breytt leggur n. einróma til að verði samþ. af hv. deild.