09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

92. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Árið 1952 voru samþ. hér á Alþ. lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum og þá felld úr gildi þau lög, sem giltu áður um véla- og verksmiðjueftirlit í landinu. Í þeim lögum var þá ákveðið, að breyta skyldi tilhögun um innheimtu eftirlitsgjaldanna þannig, að þau skyldu greidd gegn skoðanaskírteinum, sem gefin væru út á hverjum tíma. Áður hafði sá háttur verið hafður á, að lögreglustjórar og sýslumenn voru látnir innheimta gjöldin; reikningarnir voru sendir frá skrifstofunni hér í Reykjavík, og gjöldin voru svo innheimt, hvort sem skoðanir höfðu farið fram eða ekki, og þar af leiðandi ekkert samband á milli skoðananna annars vegar og greiðslu fyrir skoðunina hins vegar, og þá heldur engin trygging fyrir því, að skoðanir færu fram. — Þessu ákvæði var breytt með þeim lögum, sem ég hef lýst, í það horf, eins og ég tók fram áðan, að gjaldið skyldi greitt aðeins gegn afhendingu skírteinisins.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. þann 18. febr. 1953 gefið út reglugerð, nr. 21 1953, sem fer beint í bága við ákvæði þessara laga. Þar er enn fyrirskipað í reglugerðinni, að haldið skuli hinu gamla fyrirkomulagi um innheimtu gjaldanna, og um þetta hefur orðið mikill ágreiningur á milli lögreglustjóranna, sem áttu að innheimta gjöldin, og þeirra, sem hafa átt að greiða gjöldin, og þess vegna var óskað eftir því, að þessu yrði breytt með því frv., sem liggur hér fyrir á þskj. 145.

Þá eru einnig gerðar nokkrar breytingar í 1., 2. og 3. gr. frv., sem eingöngu stafa af því, að fjölgað hefur verið starfsmönnum í eftirlitinu, og er ekkert við þær breytingar að athuga. Nefndin leggur til, að þær verði allar samþ. En hún leggur hins vegar til, að 4. gr. verði breytt þannig, að orðalagið samrýmist við þá reynslu, sem fengizt hefur síðan á þessum málum, — það hefur ekki aðeins farið fram árleg skoðun, heldur einnig aukaskoðanir, — en haldið sé þeirri reglu, sem er í núgildandi lögum, að gjaldið skuli ekki greitt nema við afhendingu skírteinis. Hún leggur því til, að 4. gr. orðist svo:

2. málsgr. 45. gr. l. orðist svo: „Að lokinni árlegri skoðun, hafi engar athugasemdir verið gerðar við öryggisbúnað eða hollustuhætti, eða að lokinni eftirskoðun, þegar búið er að framkvæma umbætur þær, sem kunna að hafa verið fyrirskipaðar við aðalskoðun, gefur eftirlitsmaður út skoðunarvottorð ásamt reikningi fyrir eftirlitsgjaldið.“

Þegar svo haldið er áfram fyrirmælum þessarar sömu greinar, 45. gr., þá segir þar:

„Skal eigandi þá jafnframt greiða allt skoðunargjaldið. Getur starfsmaður eftirlitsins stöðvað rekstur fyrirtækisins, sé gjaldið eigi greitt, enda afhendi hann þá eigi skoðunarskírteini.“

Þetta tryggir að fullu hvort tveggja, bæði skoðunina og eins það, að gjaldið komi eins fljótt og hægt er í ríkissjóð. Þessi regla er hin almenna regla hjá eftirliti. m. a. hjá Lloyds, sem er alþekkt heimsfyrirtæki, og hefur það verið viðurkennt hér á Alþingi fyrr, að þessi regla skyldi haldin. Orðalag greinarinnar er tekið upp í samræmi við till. öryggismálastjóra að öðru leyti en því hvað snertir greiðsluinnköllunaraðferðina.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta nánar og legg til f. h. nefndarinnar, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem lagt er til á þskj. 772.