27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Skúli Guðmundsson:

Það eru aðeins nokkrar athugasemdir út af ummælum hv. 7. þm. Reykv. áðan. Hann sagði, að lögum þeim, sem nú gilda, þyrfti að breyta, til þess að hægt væri að taka einhverju af þeim tilboðum, sem nú liggja fyrir um brunatryggingarnar í Rvík. Ég er ekki viss um, að þetta sé nú rétt hjá hv. þm. Að vísu þykist ég sjá það af útboði bæjarstjórnar, að það muni hafa verið í samningum eitthvað um, hvað tryggingarfélag mætti reikna sér háan rekstrarkostnað, og gert ráð fyrir að lækka þann hundraðshluta um helming, en ekki þykir mér ósennilegt, að bæjarstjórn gæti nú komizt að samkomulagi um það atriði — það er ekki það stórvægilegt í sambandi við málið til þess að geta tekið hagstæðasta tilboðinu án þess að fá fram lagabreytingu. Mér þykir ólíklegt annað en það væri hægt.

Ekki hafði hv. 7. þm. Reykv. að öllu leyti rétt eftir það, sem ég sagði í minni ræðu. Hann hefur það eftir mér, að ég hafi sagt, að hér hafi verið framið lögbrot í sambandi við þennan ágóðahluta, sem bærinn hefur tekið til sín. Ekki voru það mín orð, en ég sagði, að ég sæi ekki neina heimild til þess í lögunum um brunatryggingar í Rvík að taka hagnað í sambandi við þetta í bæjarsjóð Rvíkur. Ég sagði enn fremur, að mér þætti fróðlegt að vita, hvort slík heimild væri einhvers staðar annars staðar í lögum.

Ég varð satt að segja fyrir nokkrum vonbrigðum, þegar hv. 7. þm. Reykv. talaði hér áðan, að hann benti ekki á neinn lagastaf um þetta efni, og hljóta þá að vakna grunsemdir um það, að slík heimild finnist ekki í lögum. Hann segir að vísu, að þetta fyrirkomulag hafi staðið lengi, og mig minnir, að hann væri jafnvel að tala um, að ráðh. hafi samþykkt einhverja reglu um þetta. Nú veit þessi hv. þm. það auðvitað ekki síður en ég, að lög eru nú æðri en einhverjar samþykktir bæjarstjórna, jafnvel þó að þær séu uppáskrifaðar af ráðherra. Ekki fæ ég heldur séð, að þetta sé neitt betra, þetta tiltæki, ef það er ólöglegt, þó að það hafi staðið lengi. Ég held, að það væri þá sýnu lakara, ef það hefur staðið mjög langan tíma, heldur en ef þetta hefði nýlega verið upp tekið. Ég, eins og ég sagði áður, hélt því ekki fram, að þetta væri lögbrot, en ég hef ekki getað séð í lögum heimild til að taka þennan hagnað fyrir bæinn, og ég skal ekkert um það segja, hvernig það færi, ef einhver húseigandi hér færi að gera kröfu til þess að fá sinn hluta af þessum sjóði, sem þarna hefur verið myndaður í sambandi við tryggingarnar.

Hv. 7. þm. Reykv. fór að gera samanburð á tryggingariðgjaldi fyrir brunatryggingar húsa og innanstokksmuna og lausafjár, en þetta er nú að ýmsu leyti ólíkt og ekki gott að bera saman.