01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur orðið talsverður ágreiningur og átök um þetta mál í hv. Nd., og það lítur út fyrir, eins og raunar er eðlilegt, að það verði einnig hér í hv. d.

Mér virðist, að það hafi einkum verið deilt um það í hv. Nd. og sé deilt um það hér, hvort það sé rétt að heimila Reykjavíkurbæ í fyrsta lagi að taka í eigin hendur rekstur brunatrygginga í bænum inn á við, eins og kallað er, þ. e. a. s. innheimtu iðgjalda og annað, og í öðru lagi og þá meira um það, hvort það sé rétt að heimila Reykjavíkurbæ að taka að einhverju eða verulegu leyti á bæinn áhættuna sjálfa af brunatryggingum og heimila Reykjavíkurbæ þannig að gerast með nokkrum hætti eins konar brunabótafélag sinna íbúa. En á síðara stigi málsins í hv. Nd. og að því er virðist einnig hér hefur verið um það deilt, eftir að sýnt var, að öruggur meiri hluti var fyrir því í hv. Nd. að veita Reykjavíkurbæ þær heimildir, sem hann fór fram á í þessu frv., hvort það eigi að veita öðrum sveitarfélögum í landinu sama rétt og Reykjavíkurbæ. Og mér virðist, að eins og málum er komið nú, þá verði fyrst og fremst deilt um það á þessu stigi málsins hér í hv. d., hvort önnur sveitarfélög en Reykjavíkurbær eigi að fá þann rétt, sem Reykjavíkurbæ er heimilaður eða gert er ráð fyrir að heimila Reykjavíkurbæ í þessu frv. samkv. ósk hans.

Það má vitanlega deila lengi um það, hvort verði af því meiri eða minni sparnaður, að Reykjavíkurbær taki að sér rekstur trygginganna gagnvart tryggjendum, og í því sambandi er náttúrlega deilt um það, hvort það sé rétt af sveitarfélögum yfirleitt að taka að sér meiri opinberan rekstur en þau nú hafa lögum samkv. En ég get nú ekki séð, að það sé mjög óskylt starfsemi sveitarfélaga, þó að þau tækju að sér innheimtu brunabótaiðgjalda og annað í því sambandi, sem raunar umboðsmenn tryggingarfélaga hafa haft með höndum fram að þessu. Hitt finnst mér miklu meira vafamál, hvort það sé rétt, að sveitarfélögin yfirleitt fari út í það að gerast brunabótafélög og taka á sig áhættu, sem því fylgir, en það hefur auðvitað verið mikið deilt um það, hvort það sé rétt, að sveitarfélög og ríki taki að sér opinberan rekstur í minni eða stærri stíl. Hér bregður svo við, að einmitt þeir, sem yfirleitt eru á móti því, að ríki og bæir seilist til þess að taka að sér rekstur, sem einstaklingar og félög hafa annars með höndum, virðast nú telja það rétt af Reykjavíkurbæ að taka að sér sem mestan opinberan rekstur í þessu efni.

Ég hef sjálfur ekki haft mikinn áhuga á því, að það verði komið á sem mestum opinberum rekstri. Ég hef minni áhuga á því en margir aðrir, sem svipaðar skoðanir hafa á þjóðfélagsmálum og ég. En mér finnst hins vegar um deilur, sem hafa komið fram um það, staðhæfingar, sem hafa verið bornar fram um það, að hér sé um mikla þjóðnýtingu að ræða, þó að Reykjavíkurbær taki nú að sér þennan nýja rekstur, taki á sig áhættu af tryggingum, að það sé ekki mikil þjóðnýting í því falin. Ég álit, að það sé alls ekki sama, opinber rekstur og þjóðnýting. Það verður þá að vera tryggt um leið, að hinn opinberi rekstur færi þjóðinni, allri alþýðu, allan þann hag, sem hugsanlegur er af þeim rekstri, sem fyrirhugaður er eða rætt er um. En það er nú ekki alltaf, að það fari saman með opinberum rekstri, að þeim, sem hans eiga að njóta, sé tryggður hagurinn af rekstrinum. Ég er nú ekki alveg viss um, að það sé í þessu sambandi heldur, að húseigendum sé tryggður, a. m. k. ekki beint, allur arður, sem kynni að verða af því, að Reykjavíkurbær tæki að sér þessar tryggingar og áhættuna af þeim að verulegu leyti. En ég álit, að deilur um það séu nú ekki það, sem mest liggur fyrir hér á þessu stigi málsins, því að það er sýnt þegar, að það mun vera meiri hl. hér á hv. Alþingi yfirleitt fyrir því að veita Reykjavíkurbæ þær heimildir, sem hann fer fram á í þessu efni í þessu frv. Deilurnar hljóta að standa um hitt, eða ágreiningurinn, hvort eigi að veita öðrum sveitarfélögum sömu heimildir, og í frv., eins og það nú kemur til þessarar hv. deildar, er það ákveðið, að öll sveitarfélög á landinu skuli sitja við sama borð og hafa sama rétt í þessu efni, og það er nýmæli.

Ég held, að það sé rétt, ef maður athugar þetta mál, að gera sér fyrst grein fyrir því, hvað þetta er stórt mál, eða reyna að gera sér grein fyrir, hvað vátryggingarupphæðir fasteigna í landinu öllu eru orðnar. Þá er niðurstaðan sú, að þær muni nema hvorki meira né minna en 5400 millj. kr., og í því sambandi er athyglisvert, hvað þær upphæðir hafa vaxið og margfaldazt á síðustu árum. Árið 1946 voru vátryggingarupphæðir fasteigna á öllu landinu milli 1300 og 1400 millj. kr. Árið 1950 eru þær orðnar tvöfalt hærri, 2700 millj. kr., en árið 1952–53, sem er síðasta tryggingarár, sem skýrslur liggja fyrir um, mun það vera, eins og ég sagði áðan, um 5400–5500 millj. kr., en iðgjöld af þessum skyldutryggingum — þetta eru allt skyldutryggingar, bæði í Rvík og í landinu yfirleitt, sem betur fer — munu nema 10–11 millj. kr. Vátryggingarupphæðir þessara fasteigna hafa verið mjög svipaðar í Rvík annars vegar og hins vegar alls staðar annars staðar á landinu. En hið sama verður ekki sagt um iðgjöldin, því að þau hafa verið utan Rvíkur um það bil þrefalt hærri en í Rvík, þó að miðað sé við þau tryggingarkjör, sem hafa gilt í Rvík fram á þennan dag, nú s. l. níu ár, og þó hefur verið upplýst, að þau hafa verið mikils til of há, samkv. opinberum skýrslum, sem nú liggja fyrir, m. a. í grg. þessa frv., og einkum þó ef borið er saman við þau tilboð, sem nú liggja fyrir í Reykjavík um iðgjöld trygginga í bænum í heild og öllum er líka kunnugt um. Það er því svo stórkostlegur munur á iðgjöldum í Rvík og utan Rvíkur, að það vekur í fyrsta lagi undrun manns, sem kynnir sér þessi mál. Ef það er svo athugað nánar hvernig iðgjaldatöxtum er varið í landinu þá kemur í ljós, að í bæ eins og Hafnarfjarðarbæ, sem alveg nýlega hefur þó fengið lækkun á sínum iðgjöldum með samningi við Brunabótafélag Íslands, eru iðgjöld nú í dag fjórfalt hærri og þau yrðu í Rvík samkv. þeim tilboðum, sem fyrir liggja, af þeim flokki húsa, sem raunar er nú orðið a. m. k. mest um, þ. e. a. s. steinhúsum, íbúðarhúsum. Hafnarfjarðarbær og Akureyrarbær eru þó einmitt þau sveitarfélög utan Reykjavíkur, sem hafa lægst tryggingargjöld og hafa fengið þessa lækkun á tryggingargjöldum alveg nýlega. Þau hlutu vildarkjör hjá Brunabótafélagi Íslands. Á Ísafirði eru þessi iðgjöld af steypuhúsum 1.60‰, á Seyðisfirði 1.80, í Vestmannaeyjum einnig 1.80, í Neskaupstað 1.91 og á Siglufirði 1.91, þ. e. a. s., í þessum bæjum, sem ég síðast taldi, fimmfalt hærri en í Rvík samkv. því lægsta tilboði, sem þar liggur fyrir. Sama verður uppi á teningnum, ef borin eru saman iðgjöld af timburhúsum, að vísu ekki eins gífurlegur munur, en þó má segja, að þau séu um það bil þrefalt eða 3½ sinnum hærri utan Rvíkur heldur en í Rvík samkv. þeim tilboðum, sem fyrir liggja og má þá bera saman við. Á Akureyri eru þau á vörðum timburhúsum, sem kallað er, eftir því sem mér hefur verið gefið upp, 2.70‰, í Hafnarfirði sama, 2.70, á Ísafirði 2,90 , á Seyðisfirði 3.20, í Vestmannaeyjum 3.20, í Neskaupstað 3.40 og á Siglufirði 3.40, en í Reykjavík samkv. fyrirliggjandi tilboðum 1.02‰. Um óvarin timburhús er hið sama að segja. Þar eru iðgjöld allt upp í 5 og yfir 5‰, en í Rvík samkv. tilboðum 1.30‰, eða nærri fjórfalt hærri utan Rvíkur í öllum kaupstöðum heldur en þau gætu verið í Rvík, ef lægsta tilboði væri tekið.

Það er upplýst, að ef tekið er meðaltalsiðgjald af öllum húseignum í Rvík, þá er það 1.24‰, en hjá Brunabótafélagi Íslands er þetta þrefalt hærra samkv. skýrslum, sem fyrir liggja, a. m. k. miðað við árið 1950.

Það mætti endurtaka eitt dæmi, sem sýnir ljóslega, hver munur er á iðgjöldum utan Rvíkur og í Rvík. Það er í Kópavogs- og Seltjarnarneshreppum, sem eru næsta nágrenni Reykjavíkur. Þar er skylt að tryggja hjá Brunabótafélagi Íslands, og þar hafa til skamms tíma, þangað til fyrir nokkrum mánuðum, gilt þeir taxtar, að hefur orðið að greiða 2.50‰ af öllum húsum, einnig steinhúsum. En frá 15. okt. í haust var gjald af steinhúsum þar lækkað í 1.80, en það, eins og ég hef áður sagt, yrði samkv. tilboðum í Reykjavík 0.37‰, þ. e. a. s. rétt tæplega fimmfalt hærra í Kópavogshreppi heldur en í Reykjavík á sambærilegum húsum. Kópavogs- og Seltjarnarneshreppar hafa þó fasta samninga við slökkvilið Reykjavíkur og hafa haft mörg ár um, að slökkvilið Reykjavíkur gegni jafnan brunakalli í þessum sveitarfélögum, og gerir það svo vel, að það líða ekki nema örfáar mínútur þangað til slökkvitæki og slökkvilið Reykjavíkur er komið á vettvang, ef kviknar í húsum í þessum nágrannahreppum, enda sýna brunatjón, sem hafa orðið síðustu árin í þessum nágrannahreppum Rvíkur, að brunavarnirnar hafa tekizt mjög vel. Sveitarfélögin greiða svo slökkviliði Reykjavíkur þetta ágæta og mikilsverða starf samkv. reikningum þess, eins og það setur upp.

Í þessum tveimur sveitarfélögum er svo þess að gæta, að þar eru hús mun dreifðari en í jafnvel úthverfum Reykjavíkur, og þó að það rísi upp ný byggðarhverfi þar, eins og t. d. gerist í stórum stíl í Kópavogshreppi, þá er þar miklu lengra milli húsa, stærri lóðir en í sambærilegum hverfum Reykjavíkur, svo að þar er mikill munur á áhættunni eða sambrunahættunni, sem kalla má, hættunni á því, að mörg hús brenni, ef kviknar í einu. Að öllu samanlögðu held ég að athuguðu máli og þekki það nokkuð, að það sé a. m. k. sízt meiri hætta á eldsvoða eða áhætta fyrir tryggingarfélög á tryggingum í Kópavogs- og Seltjarnarneshreppum heldur en í Reykjavík, a. m. k. úthverfum hennar. En iðgjöldin eru, eins og ég áðan sagði, frá því að vera tvöfalt upp í að vera nærri fimmfalt hærri í þessum sveitarfélögum.

Þessi sveitarfélög eru nú lögum samkv. bundin við það, eða allir húseigendur bundnir við það að tryggja hjá Brunabótafélagi Íslands og sæta þeim kjörum, sem það sjálft ákveður, því að þess er að gæta um Brunabótafélag Íslands, hversu ágætt félag sem það kann nú að vera, og ég játa, að það hefur unnið mikið gagn, þá er það ekki svo uppbyggt, að félagar í því hafi minnstu áhrif á stjórn þess. Það er víst kveðið svo á í lögum þess, að sveitarfélög landsins skuli heita deildir innan þess, en þau hafa engin áhrif á stjórn þess á einn eða annan hátt. Það er engin stjórn til, það er aðeins einn forstjóri, og hann ákveður upphæð iðgjalda og öll kjör, sem meira en helmingur landsmanna verður að sæta, og þau eru með þessum hætti, sem ég hef lýst.

Þær skýrslur, sem liggja fyrir um rekstur Brunabótafélags Íslands, sýna það líka ótvírætt, að þessi háu iðgjöld hafa komið fram í mjög góðri rekstrarafkomu þess. Samkv. reikningum þess, sem fyrir liggja, og upplýsingum, sem hægt er að fá nokkurn veginn um allra síðustu reikninga þess, sem hafa ekki verið birtir, hefur tekjuafgangur félagsins síðustu fimm árin numið 10 millj. kr., eða 2 millj. kr. að meðaltali á ári, og þó s. l. tryggingarár um 3 millj. kr. Þetta er hreinn tekjuafgangur, eftir af afskriftir, sem manni virðast vera mögulegar, hafa farið fram, en fasteignir eða eignir aðrar en verðbréf og hlutabréf á félagið ekki nema eina fasteign, er mér sagt, í Hafnarfirði, sem er í reikningum þess talin á 100 kr., svo að það virðast hafa farið fram allar afskriftir, sem mögulegt er, með brúttótekjuafgangi, en varasjóð hefur félagið þegar byggt sér upp, sem nemur 20 millj. kr.

Það liggur nú fyrir í þessari hv. deild í þessu máli till, um að breyta því frv., sem hér er rætt um, á þann veg, að Reykjavík ein hafi heimild til þess af öllum sveitarfélögum landsins, eins og verið hefur auðvitað, til þess að bjóða út fyrir sína íbúa og hafa afskipti af brunatryggingum í bænum. Frá hv. meiri hl. kemur sú till., að þessu frv. skuli nú breytt í það horf, að ekkert annað sveitarfélag á landinu skuli hafa rétt til þessa, Rvík skuli fá þær ýtrustu heimildir, sem hún fer fram á, en öll önnur sveitarfélög landsins, sem hafa sætt þeim kjörum, sem ég hef nú lýst og ég hygg að verði ekki hrakin, fái engan aukinn rétt til þess að hafa nein afskipti af tryggingarmálum sinna íbúa. Þetta er till. hv. meiri hl. í þessu máli, og ég get ekki varizt því, að mér finnst eftirtektarvert, hverjir það eru, sem standa að slíkri till.

Þeir menn, sem leggja það til, að sveitarfélög landsins utan Rvíkur megi ekki fá jafnrétti á við Rvík, eru hv. jafnaðarmenn, og þeir menn, sem leggja til, að hvorki sveitarfélög landsins né tryggingarfélög skuli fá jafnan rétt til tryggingarmála, eru hv. sjálfstæðismenn, en þeir vilja veita Reykjavíkurbæ rétt til þess að gerast brunabótafélag fyrir Reykvíkinga. Það má vitanlega deila lengi um það, hvaða fyrirkomulag sé bezt í tryggingarmálum eins og öðrum málum. Þar er í raun og veru margs konar fyrirkomulag til. Það fyrirkomulag er til fyrst og fremst, að hið opinbera hafi engin afskipti af þeim málum, að öllum sé frjálst að tryggja eða tryggja ekki og þá líka hvar þeir tryggja, ef þeir tryggja. Þetta er fyrirkomulag hinnar frjálsu samkeppni. En það væri nú kannske gaman að sjá, hverjir vildu vera formælendur þessa skipulags. Sem betur fer ákvað Alþingi fyrir 37 árum, að þetta skipulag skyldi ekki eiga sér stað í landinu, það væri óhæft, og það var gert að skyldu að tryggja fyrir eldsvoða fasteignir í landinu, og svo er enn. Það er því víst ekki um það að ræða, að neinir gefi sig fram sem talsmenn hinnar alfrjálsu samkeppni í þessum málum. En nú liggur hér fyrir frá hv. Framsfl. sú till., að það skuli að vísu vera skylt að tryggja, en mönnum skuli vera frjálst, hvar þeir tryggja. Það má vafalaust segja margt gott um þessa leið, en það er mín skoðun, að með því að sveitarfélög hafi þau afskipti af þessum málum, að þeim sé veitt heimild til þess að bjóða út tryggingar á sínum .stað fyrir alla sína fasteignaeigendur, þá séu meiri líkur til þess, að það fáist góð kjör hjá hinum ýmsu tryggingarfélögum, sem eru sem betur fer orðin mörg innlend og geta nú boðið hvert í kapp við annað um þessi stóru viðskipti. Eins og ég sýndi fram á áðan, eru það stórkostleg viðskipti fyrir tryggingarfélögin að tryggja fasteignir í Reykjavík, sem eru að verðmæti 2800 millj. kr. Það eru stór viðskipti. En ef hver einasti húseigandi væri frjáls að því, hvar hann tryggði, þá yrði hver og einn að snúa sér til þess tryggingarfélags, sem honum litist bezt á. Ég hygg, að það yrði ekki um neitt útboð að ræða, og ég get ekki betur séð en að það sé verulegt atriði í augum tryggingarfélaganna, að hægt sé að bjóða þeim allar brunatryggingar í Reykjavík, eins og gert hefur verið nú nýlega, enda segja mér ýmsir sérfróðir menn, að þau tilboð, sem hafi fengizt í Reykjavík fyrir útboð Reykjavíkurbæjar, séu jafnvel furðulega lág, þau lægstu þeirra. Þau eru stórkostlega miklu lægri en þau tryggingarkjör, sem hafa gilt síðustu 9 árin í Reykjavík. Það geta allir, sem vilja, borið saman.

En ef Reykjavíkurbæ á að vera frjálst að bjóða út þessar tryggingar eins og hann hefur gert, þá er spurningin um hitt, hvort önnur sveitarfélög megi gera það líka. Það er staðreynd, að vegna þess að Reykjavík hefur boðið út þessar tryggingar samkvæmt þeim heimildum, sem hún hefur haft, þá fengjust nú a. m. k. um fimmfalt lægri iðgjöld í Reykjavík heldur en í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, sem ég áður hef lýst, og þá allt að því fjórfalt lægri iðgjöld en í Hafnarfjarðarkaupstað og Akureyrarkaupstað. Þetta er upplýst. En svo ætlar Reykjavíkurbær sjálfur að gera betur, því að þessu tilboði, sem ég er nú að ræða um sem lægsta tilboð og ber saman við gildandi kjör utan Reykjavíkur, tekur Reykjavíkurbær ekki, vegna þess að hann þykist geta og ætlar sér að gera betur, og vil ég á engan hátt rengja, að það sé jafnvel hægt, því að vitanlega felst í þessu einhver hagnaður til viðkomandi tryggingarfélags. Ekki ætlar viðkomandi tryggingarfélag að gefa húseigendum í Reykjavík stórfé. Það er ótrúlegt. En hvers vegna má ekki fá þetta upplýst í öðrum sveitarfélögum á landinu heldur en í Reykjavík? Hvers vegna má ekki fá það upplýst, hvaða tryggingarkjör eru fáanleg í hinum ýmsu kaupstöðum og stærri byggðum landsins og jafnvel öllum sveitarfélögum landsins? Ég get ekki séð, að það yrði annað, sem gerðist, ef þetta frv., sem fyrir liggur hér, yrði samþykkt óbreytt. Það mundi verða leitað eftir því, hvaða tryggingarkjör væru fáanleg hjá hinum ýmsu tryggingarfélögum á hverjum stað. Það má kannske segja, að sveitarfélög gætu nú gert þetta, leitað eftir slíkum tilboðum, eins og Reykjavíkurbær gat boðið út, samkv. því sem upplýst er, á öðrum grundvelli en hann hafði heimild til samkv. lögum eða var búinn að fá heimild til samkv. lögum. En sveitarfélög hafa nú enga heimild til þess í lögum að bjóða út tryggingar í sínum umdæmum.

Það er upplýst, að iðgjöldin í Reykjavík á árunum 1944–53 hafa verið of há, svo að nemur mörgum millj. kr. fyrir iðgjaldagreiðendur í Reykjavík. Það er upplýst, að það er hægt að spara húseigendum í Reykjavík margar milljónir með því að taka þeim lægstu tilboðum, sem fyrir hendi eru. Og það eru, eftir því sem fyrir liggur, allar líkur til þess, að það sé hægt að spara iðgjaldagreiðendum í landinu utan Reykjavíkur líka margar milljónir með því að leyfa, að það fari fram útboð á tryggingunum þar. Væri það þá til ónýtis að spara fasteignaeigendum í landinu margar millj. kr. af þessum 10–12 millj., sem þeir hafa greitt nú á hverju ári undanfarin ár? Ég held það ekki. Ég held, að vátryggingariðgjöld hafi þýðingu fyrir fleiri í landinu en bara fyrir iðgjaldagreiðendurna sjálfa. Ég held, að þau komi beint og óbeint á atvinnureksturinn í landinu. Ég held, að það sé mjög mikilsvert atriði fyrir allan rekstur í landinu. Og það væri alls ekki ónýtt, ef það væri hægt að fá vátryggingariðgjöld af brunatryggingum stórlega lækkuð.

En það undarlega gerist í þessu máli, að þeir sömu menn sem hafa boðið út tryggingar í Reykjavík og fengið þar stórkostlega lækkun iðgjalda leggja til, að öðrum sveitarfélögum í landinu sé bannað að leita fyrir sér um slíka lækkun iðgjalda, sem öll líkindi eru til að þau fengju. Þeir segja: Brunabótafélag Íslands er svo gott félag, og það væri kippt undan því fótunum, ef það væri leitað eftir því, hver raunveruleg áhætta er fyrir tryggingarfélög af brunatryggingum utan Reykjavíkur. Það væri að kippa undan því fótunum. — Það hefði eins mátt segja í Reykjavík: Almennar tryggingar er svo gott félag, það hefur tryggt hér fyrir svo lág iðgjöld s. l. níu ár, að það er engin ástæða til þess að vera að halda, að það fáist lægri iðgjöld. — En það hefur hins vegar ekki verið hugsað svoleiðis í Reykjavík. Sömu menn hefðu átt að segja okkur: Það er bezt að lögbjóða iðgjöld Almennra trygginga í Reykjavík eins og iðgjöld Brunabótafélags Íslands eru sama sem lögboðin.

Ég get ekki með nokkru móti séð, að það raskaði eða kippti á nokkurn hátt fótunum undan starfsemi Brunabótafélags Íslands, þó að tryggingar utan Reykjavíkur yrðu gefnar frjálsar og sveitarfélögum leyft áð bjóða út og leita eftir tryggingum hjá fleiri tryggingarfélögum en því. Ég get ekki skilið það, að þessir velunnarar Brunabótafélags Íslands meini, að það félag geti alls ekki starfað á öðrum grundvelli en með einokun. Brunabótafélag Íslands hefur, eins og ég gat um hér áður, haft um 3 milljóna króna tekjuafgang s. l. tryggingarár. Reikningar liggja fyrir um það. Það á 20 millj. kr. í varasjóði. Það hefur 37 ára reynslu af tryggingarstarfsemi. Það hefur yfir 200 umboðsmenn víðs vegar um allt land. Það á vafalaust miklum velvilja og vinsældum að fagna. Ef tryggingar utan Reykjavíkur væru boðnar út, þá mundi það vitanlega hafa góða aðstöðu til þess að bjóða í þær. Og ég vil benda á, að það bauð einmitt í tryggingar í Reykjavík. Það fór að vissu leyti út fyrir sitt verksvið, þegar það bauð í tryggingar í Reykjavík. Og það gat boðið að taka tryggingar í Reykjavík fyrir mjög lágt iðgjald, eða svona um fjórfalt lægra en í öðrum sveitarfélögum á landinu, sem eru þess viðskiptavinir. Ég held, að það mundi líka telja sér óhætt vegna afkomu sinnar að bjóða í tryggingar utan Reykjavíkur, ef þær yrðu boðnar út, og það stæði ekkert illa að vígi. Ég álít, að það stæði á allan hátt betur að vígi en önnur tryggingafélög og allar líkur væru til þess, að það héldi tryggingunum víðast hvar með hóflegum ágóða fyrir sig. En ég vil taka það fram, að ef brunatryggingarstarfsemin kæmist þannig á frjálsan grundvöll, þá álít ég sjálfsagt að breyta lögum Brunabótafélags Íslands, þannig að því væri þá alveg frjálst að reka alla almenna tryggingarstarfsemi eins og öðrum tryggingarfélögum. En nú eru í lögum Brunabótafélagsins vissar hömlur á því. Það má ekki taka að sér tryggingar á verzlunarbirgðum, vörutryggingar, sem eru taldar mjög góðar fyrir tryggingarfélög eða ábatasamar. Ég áliti sjálfsagt að létta af því slíkum hömlum, svo að það gæti starfað alveg frjálst eins og önnur félög, en hefði sína miklu reynslu og sinn stóra varasjóð upp á að hlaupa, svo að það gæti, þegar það byrjaði að taka þátt í samkeppninni við önnur innlend félög, sem hafa vaxið upp, staðið vel að vígi. Ég vil ekki viðurkenna það frá minni hálfu, að það sé, þegar lagt er til, að önnur sveitarfélög en Reykjavík fái sömu heimildir til þess að ráðstafa tryggingum fyrir sína íbúa, verið að gera neitt tilræði við Brunabótafélas Íslands. Það hefur verið mikils virði, að Brunabótafélag Íslands var stofnað fyrir rúmum 37 árum, það hefur verið mikils virði fyrir þjóðina, að tryggingarnar voru teknar inn í landið. Þær hafa verið að færast inn í landið, sem betur fer, s.l. áratugi. Önnur tryggingarfélög, sem risið hafa upp á síðari árum, hafa einnig starfað að því að færa tryggingarnar inn í landið. En það er mikið ógert í þeim málum. Það er sjáanlegt af hagskýrslum, að það fara enn kannske um 20 millj. kr. árlega út úr landinu fyrir tryggingariðgjöld og bætur fram yfir það, sem kemur inn frá erlendum félögum. En þetta mál, brunatryggingar húsa, sem hér liggur fyrir, er aðeins einn liður tryggingarstarfseminnar í landinu, en hún verður með hverju ári mikilvægari öllum landsmönnum. Ég hygg, að ef það væri athugað, þá séu einmitt tryggingariðgjöldin, sem að sumu leyti eru lögboðin og að sumu leyti frjáls, stórkostlegur liður í rekstrarkostnaði okkar atvinnuvega og mjög mikils virði, ef hægt er að lækka þau. Ég er alveg viss um, að með því frv., sem hér liggur fyrir, ef það fæst samþykkt óbreytt, þá er stefnt að stórlega lækkuðum brunabótaiðgjöldum í landinu, og það eitt er stórmikils virði.