09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið, en ræða hv. þm. Str. gaf mér tilefni til þess að segja hér aðeins nokkur orð. Hann talaði um gildistöku laganna að því leyti til sem snertir Brunabótafélag Íslands eða rétt Brunabótafélags Íslands til trygginganna. Ég vil í þessu sambandi benda hv. þm. á, að í frv. var frá upphafi miðað við það, að lögin tækju gildi 15. okt. 1955, svo að þetta er ekki nein sérstök brtt. hjá meiri hl. En það, sem hv. þm. vill, er, að lögin taki gildi strax og að engin athugun á rekstri Brunabótafélagsins skuli fara fram.

Um það, að það hefði mátt skilja mína ræðu þannig, að hér væri um sýndarfrv. að ræða og það væru bæði hv. flm. og meiri hl. allshn., sem stæðu á bak við það, þá vil ég segja, að það er mesti misskilningur. Mín framsöguræða var hér að öllu leyti á mína ábyrgð, og ef hv. þm. hefur skilið ræðu mína þannig, að meining mín væri að koma í veg fyrir, að brunatryggingar yrðu frjálsar í framtíðinni, þá vil ég láta hann vita, að það er hreinn misskilningur hjá honum, annaðhvort af klaufalegri eða ekki réttri framsetningu minni eða misheyrn hv. þm.

Ef frv. þetta verður samþ. og nefnd kosin til þess að athuga þessi mál, þá hefur vitanlega hv. Alþingi, sem nú kýs þessa nefnd, ekkert með það að gera, að hvaða niðurstöðum hún kemst. Þessir menn hljóta að vera frjálsir að athuga þessi mál eins og þau liggja fyrir, leggja það niður fyrir sér að öllu leyti og gera till. eftir því, sem þeim finnst réttast. Ef þeir álíta það að öllu athuguðu, að Brunabótafélagið skuli halda áfram á sama grundvelli og það hefur starfað í þessi 20 ár eða rúm 20 ár, sem það hefur starfað, og gera tillögur um það, þá er það Alþingis að ákveða það. Nefndin hefur ekki nema tillögurétt í þessu máli að lokinni rannsókn og athugun. — En ég vil taka undir það, sem hv. 2. flm. þessa frv., hv. þm. Vestm., sagði viðvíkjandi sýndarmennsku þessa frv.