09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

193. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil nú ekki verða til þess að lengja umræður um þetta mál úr hófi fram fremur en önnur hér í hv. deild.

Hv. frsm. meiri hl. vitnaði til umsagnar Brunabótafélags Íslands, sem fylgir nál. hv. meiri hl., um það, að sá samanburður, sem hér hefur verið gerður um iðgjöld vátrygginga, væri ekki réttur. Ég hef nú litið yfir þessa umsögn Brunabótafélags Íslands, sem er prentuð sem fskj. með nál., og get ekki séð, að þar sé hrakið neitt af því, sem ég hélt hér fram, þegar ég gerði hér lítils háttar samanburð á gildandi vátryggingarkjörum hjá Brunabótafélagi Íslands og bar þau saman annars vegar við þau kjör, sem hafa gilt í Reykjavík, og hins vegar þau tilboð, sem hafa fengizt fram vegna útboða á tryggingum í Reykjavík. En ég vil í því sambandi, eins og ég hef áður gert, benda á, að langbezti samanburðurinn í þessu efni mun fást, ef sveitarfélögum. væri leyft eins og Reykjavíkurbæ að bjóða út tryggingar í sínu umdæmi. Samanburðurinn á vátryggingarkjörum í Reykjavík liggur ljóst fyrir, vegna þess að Reykjavíkurbæ var heimilt að bjóða tryggingarnar út. Það er þess vegna, að það er nú hægt að bera þau vátryggingarkjör, sem fyrir liggja, fyrsta lagi saman við gildandi kjör hjá Reykjavíkurbæ, þau kjör, sem hafa gilt undanfarin 9 ár, og hins vegar kjörin hjá Brunabótafélagi Íslands, sem gilda í öllum öðrum stöðum á landinu. En það er ómögulegt fyrir sveitarfélög utan Reykjavíkur að fá fram samanburð á vátryggingarkjörum til þess að bera saman við gildandi kjör, sem þau verða að sæta hjá Brunabótafélagi Íslands, nema þau fái frelsi til þess að bjóða út tryggingarnar eins og Reykjavíkurbær. Þess vegna er það meginatriði þessa máls, að sveitarfélögin fái frelsi til þess að fá fram slíkan samanburð. Það má auðvitað segja, að brunavarnir skipti meginmáli í þessu sambandi; þær séu ekki eins fullkomnar á stöðum utan Reykjavíkur og í Reykjavík. En þá mundi það koma fram, þegar viðkomandi vátryggingarfélög gera tilboð í tryggingarnar á mismunandi stöðum, hvernig þau meta þær brunavarnir, sem fyrir eru, og þá áhættu, sem fyrir er á hverjum stað.

Í frv., eins og það var lagt fram og einnig með þeim breytingum, sem hv. meiri hl. leggur til að gera á því, er alls ekki gert ráð fyrir því, að sveitarfélögin utan Reykjavíkur fái frelsi til þess að bjóða út sínar tryggingar á þessu ári. Í frv. var — eins og það var lagt fram — gert ráð fyrir því, að það öðlist ekki gildi, ef að lögum verður, fyrr en 15. okt. 1955, og með brtt. hv. meiri hl. er alls ekki gert ráð fyrir, að sveitarfélög fái frelsi til þess að bjóða út sínar tryggingar og semja um þær fyrr en 15. okt. 1955, en þetta kemur vitanlega í einn stað niður. Með þessu móti og hvernig sem það er orðað í frv. er sveitarfélögum utan Reykjavíkur algerlega meinað að fá fram þann samanburð á vátryggingarkjörum eins og þau nú gilda hjá Brunabótafélagi Íslands og þeim kjörum, sem hugsanleg eru eða fáanleg yrðu hjá vátryggingarfélögum, sem í tryggingarnar vildu bjóða.

Ég veit, að hv. flm. frv. er það ljóst, að þetta er höfuðatriði í málinu, eins og það liggur fyrir, að frelsi fáist til þess, að þessi samanburður verði gerður á frjálsum grundvelli.

Hv. meiri hl. leggur það til, að kosin verði 5 manna nefnd til þess að endurskoða lög um Brunabótafélag Íslands og önnur lagafyrirmæli um brunamál utan Reykjavíkur, þar með vitanlega þetta frv., ef að lögum yrði. M. ö. o.: hv. meiri hl. gerir ráð fyrir, að þetta frv., ef að lögum yrði, yrði tekið til endurskoðunar strax á komandi sumri. Samt yrðu lögin um frelsi handa sveitarfélögum til að bjóða út sínar tryggingar algerlega óvirk til 15. okt. 1955. Ég held, að hv. flm. og hv. meiri hl. gætu ekki sagt það greinilegar, að þeir ætlast alls ekki til þess, að þessi lög komi á neinn hátt til framkvæmda fyrr en 15. okt. 1955, og það er ekki að reka hagsmunamál sveitarfélaganna í þessu sambandi að ætlast til þess og leggja það til, að það sé ekki hægt að fá neinn samanburð á tryggingarkjörum Brunabótafélags Íslands og hins vegar þeim möguleikum, sem fyrir hendi yrðu með frjálsum útboðum, fyrr en hinn 15. okt. 1955. En frv., hvort sem það yrði samþ. eins og það var lagt fram eða með þeirri breytingu, sem hv. meiri hl. gerir ráð fyrir, útilokar, að þessi samanburður fáist fyrr en þá 15. okt. 1955. Hitt er svo allt annað mál, að það er nauðsynlegt, eins og ég hef áður bent á í umr. hér í hv. d., að gera breytingar á lögum Brunabótafélags Íslands, ef svo breyttist, að það yrði að hætta að starfa áfram á þessum grundvelli. Það er í fyrsta lagi ekkert vit í því, þegar farið er að halda því fram og benda á rök í því sambandi, að Brunabótafélag Íslands sé félag allra þeirra, sem hjá því tryggja og skyldir eru til þess, sem eru þúsundir manna úti um allt land, og að það sé í deildum, sem sveitarfélögin myndi, að þá sé það samt svo, að þessar deildir hafi ekki hin allra minnstu áhrif á stjórn Brunabótafélagsins, ekki minnstu áhrif á ákvörðun iðgjalda eða vátryggingarkjör eða hvernig varið er þeim sjóðum, sem er safnað með of háum iðgjöldum, eins og sannað mál er að hafi átt sér stað, — að félagsmennirnir eða félagsdeildirnar hafi engin áhrif á neitt af þessu, en þetta er svo nú um Brunabótafélag Íslands. Það félag hefur alls enga stjórn. Það hefur aðeins einn forstjóra, sem ræður þar öllum kjörum, sem félagsmenn í Brunabótafélaginu verða að sæta, með einræðisvaldi, eins og hann hefur líka einræðisvald umsjóði þess. Þetta eru ómótmælanlegar staðreyndir. Á þessum lögum yrði auðvitað að gera breytingar, en sjálfsagt og sanngjarnt væri einnig, eins og ég hef áður bent á, að gera þá um leið þær breytingar á lögum félagsins, að því verði heimilað að taka að sér allar tryggingar, a. m. k. ekki meinað, eins og nú er með lögum þessum, að taka að sér vörutryggingar eða tryggingar á verzlunarbirgðum.

Ég held, að höfuðatriði þessa máls liggi nú alveg ljóst fyrir, að það, sem sveitarfélögin vantar eins og Reykjavíkurbæ, er frelsi til þess að bjóða út fyrir sína íbúa brunatryggingar. Hvort sem það yrði gert með því, að það frv., sem fyrir liggur um tryggingar í Reykjavík, yrði látið ná til allra sveitarfélaga á landinu eða þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þá er það höfuðskilyrði í báðum tilfellum, að hægt sé þegar í stað á þessu ári, ef slík lagabreyting á að koma að gagni, að bjóða út tryggingarnar, en það er ekki gert með þessu frv., hvorki eins og það liggur fyrir né með till. hv. meiri hl.

Ég mun því aðeins fylgja þessu frv., að þetta frelsi sveitarfélögunum til handa til að bjóða út sínar tryggingar nú þegar á þessu ári verði fellt inn í frv. Það er skilyrði þess, að ég geti fylgt frv.