25.02.1954
Neðri deild: 53. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

72. mál, lax- og silungsveiði

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hin ýtarlega ræða hæstv. landbrh. hefur brugðið nýju ljósi yfir málið eins og það stendur nú. Ég hefði nú haft tilhneigingu til að átelja veiðimálastjóra og veiðimálanefnd fyrir það að hafa ekki svarað n. þrátt fyrir bréf hennar og tilmæli, en ég tek skýringu hæstv. ráðh. fullkomlega gilda í þessu efni og tek því bæði nefnd og veiðimálastjóra undan öllu ámæli í þessu eins og það nú stendur.

Eins og fram kemur í nál., þá hefur risið upp talsvert mikill ágreiningur um mál þetta í Borgarfirðinum, eins og við var að búast, því að það snertir þetta hérað mest. Hv. frsm. gat ekki þess, hversu margir hafa sent áskoranir til nefndarinnar með og mótí, en ég skal gjarnan upplýsa, að það eru 37 bændur í Borgarfirði, sem eru eigendur að bergvatnsám, er hafa skorað á Alþingi að samþ. frv., og 24 bændur, sem netjaveiðirétt eiga í Hvítá, er hafa sent áskorun um, að frv. verði ekki samþ. Af þessu er sýnilegt, að mikill ágreiningur er þar í héraði um málið og talsverð átök. Ég get því vel skilið, að nefndin hafi ekki viljað taka afstöðu til málsins eins og það liggur nú fyrir og sérstaklega af þeim sökum, að ég hygg, að henni hafi verið kunnugt um hina deildu afstöðu veiðimálastjóra og veiðimálanefndar til málsins.

Ég tel engan vafa á því, sem var frekar skýrt í ræðu hæstv. ráðh., að það er mikil nauðsyn á að athuga fleiri atriði í lögunum en þau, sem tekin eru fram í frv., þótt að mínu áliti séu það þau atriði, sem mest nauðsyn er að fá leiðréttingu á. Skal ég í því efni aðeins benda á þá staðreynd, að stærð laxa í Borgarfirði, sem veiðast í bergvatnsánum, hefur farið stöðugt minnkandi s. l. 10 ár. Þetta segir sína sögu. Fyrir 10 árum mun meðalþungi laxa hafa verið 9–10 pund. Nú er þessi meðalþungi kominn niður í 4–5 pund í bergvatnsánum.

Mér þótti vænt um að fá yfirlýsingu hæstv. ráðh. um það, hvað hann mundi gera, ef þessu máli yrði vísað til stjórnarinnar. Ég hafði að vísu hugsað mér að bera fram rökstudda dagskrá til þess að ákveða nánar um það, hvernig með þetta mál yrði farið, en úr því að hæstv. ráðh. hefur gefið þessa yfirlýsingu, að hann muni skipa nefnd í málið til þess að endurskoða lögin í heild, þá tek ég það fyllilega gilt og mun ekki bera fram þá rökstuddu dagskrá, er ég hafði hugsað mér. En til hins vildi ég mælast af hæstv. ráðh., og þætti mér vænt um, ef hann sæi sér fært að lýsa yfir einhverju í því efni, að væntanlegar breytingar á lögunum yrðu lagðar fyrir næsta Alþingi.