06.10.1953
Neðri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

15. mál, sjúkrahús o. fl.

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt við þessa 1. umr. að segja aðeins örfá orð, vegna þess að ég átti nokkra aðild að því, að þetta frv. var samið.

Það var á síðasta Alþingi, eins og hv. þm. Ak. lýsti nú áðan, að n. frá Akureyrarkaupstað kom hingað til viðræðu við heilbrigðisstjórnina um það, á hvern hátt hugsanlegt væri að reka þeirra mikla og vandaða sjúkrahús, þegar það yrði fullgert, en það er nú fullreist og tekur sennilega til starfa innan mjög stutts tíma. Það virtist þá, að það væri mjög langt á milli þeirrar aðstoðar eða styrks, sem ríkið hafði veitt að undanförnu til rekstrar sjúkrahúsa, og yfirleitt þeirra reglna, sem giltu um það, og að unnt væri að reka þetta sjúkrahús. Það var á þeim tíma helzt reiknað með, að sjúkrahús Akureyrar tæki til starfa á miðju þessu ári eða einhvern tíma eftir mitt ár, og var þeim að sjálfsögðu mjög mikið í mun, að tryggð yrði sú skipan þessara mála, að húsið gæti strax tekið til starfa og það væri fullgert. Ég ræddi þetta mál töluvert við hv. fjvn. í fyrra, og kom það mjög greinilega fram þar, að það var engin leið að ætla að taka úr eitt sjúkrahús eða einn flokk sjúkrahúsa, þótt svo væri, og ætla að veita honum einhvern sérstakan rekstrarstyrk, án þess að sjúkrahúsmálin í landinu yrðu tekin til meðferðar í heild. Það var m.ö.o. engin leið að ná þá samkomulagi um það að veita eitthvert fé til rekstrar sjúkrahússins á Akureyri, eitthvert aukaframlag, eins út af fyrir sig. Það varð samkomulag, ja, kannske má segja þegjandi samkomulag, milli mín og hv. Fjvn., að það mundi ekki verða átalið, þótt eitthvert fé yrði veitt til rekstrar sjúkrahússins síðustu mánuði ársins, ef það tæki til starfa, og að öðru leyti væri þetta mál látið bíða næsta þings.

Að vísu hefur það farið svo, að sjúkrahúsið tekur ekki til starfa fyrr en um næstu áramót eða upp úr þeim, en hins vegar varð mér það mjög ljóst af gangi þessa máls í fyrra, að það var að mínum dómi ekki hægt að taka þetta mál upp öðruvísi en í heild, reyna að gera sjúkrahúsin í landinu yfirleitt rekstrarhæf með einhvers konar framlögum úr ríkissjóði umfram það, sem áður hafði verið. Og það er út af þessu, sem samkomulag varð um það milli mín og landlæknis, að hann gerði till. um þetta atriði. Og þetta frv. er í raun og veru árangur af því, sem landlæknir og heilbrmrn. hafa starfað að þessum málum.

Ég skal ekkert fara inn á einstök atriði frv., sem er ekki mjög margbrotið. Sjúkrahúsunum er skipt í þrjá flokka og mismunandi rekstrarstyrkur ætlaður eftir því, hvað þau eru stór, hvað fullkomin tæki þar eru og yfirleitt hvaða aðstöðu þau hafa til að veita fullkomna þjónustu sem sjúkrahús. Ég vildi bara láta það koma hér fram við 1. umr. málsins, að ég tel ekki hægt að leysa þetta mál öðruvísi en á þessum grundvelli. Ég er ekki að segja, að þessar tölur, sem þarna eru settar fram, séu endilega þær einu, sem koma til greina, eða að ekki geti þurft að gera einhverjar aðrar breytingar, en m.ö.o. sé reynt að leysa þetta í heild.

En um leið og þetta er mín skoðun, mynduð af þeirri þekkingu, sem ég hef öðlazt á þessum málum þessi síðustu ár, þá vil ég taka annað fram, sem mér finnst að verði að athuga um leið. Það er geysilegur áhugi hjá flestum héruðum um að reisa sjúkrahús innan sinna endimarka.

Þetta er auðvitað eðlilegt og ekki nema gott eitt um það að segja. En vitanlega hlýtur það að vera takmarkaður fjöldi sjúkrahúsa, sem rétt er að reisa hér hjá okkur nú og starfrækja. Og þegar ríkið veitir jafnmikinn stuðning til stofnkostnaðar sjúkrahúsanna og nú er og ef það nú lögfestir rekstrarstyrk til allra sjúkrahúsa eftir þessu frv. eða eitthvað svipuðum línum, þá má segja, að þessi starfsemi sé að mjög miklu leyti komin á hendur ríkisins og kostuð af því. Þá finnst mér um leið, að það sé eftir eitt, sem alþingi verður að gera í þessu efni, og það er að ákveða með föstu skipulagi, hvar á að reisa sjúkrahús hér á landi. Með þeim breyt., sem orðið hafa í samgöngum á síðustu árum og áratugum, getum við sagt, þá virðist mér aðstaða vera nú allt önnur en áður var. Með þeim nýjungum, sem nú eru í læknavísindunum á öllum sviðum, er það svo, að það eru aðeins tiltölulega mjög stór sjúkrahús, sem geta haft öll þau tæki, sem nauðsynleg eru til að geta veitt þjónustu. T.d. er mér tjáð af fróðum mönnum í þessum efnum, að þau megi ekki vera minni en sjúkrahús Akureyrar, til þess að hægt sé að hafa þá þjónustu, að það geti talizt í raun og veru fyrsta flokks sjúkrahús að öllu leyti. Og alltaf er að bætast við nýtt í þessum efnum, nýjar uppgötvanir, ný tæki, sem þá gerir nýjar kröfur, bæði um mannahald, sérfróða menn og um alls konar tæki í þessu skyni.

Mér finnst því, að það þurfi, — ég skal ekki segja í sambandi við þetta frv., það verður sjálfsagt að taka það upp sérstakt, en ég vildi aðeins geta þessa hérna, að ég held, að það verði að gera alveg ákveðna skipan um það og Alþingi verði að reyna að leysa það og ákveði: Svona mörg sjúkrahús og svona stór þarf að reisa hér með okkar þjóð, eins og nú er ástatt, til þess að hægt sé að veita nokkurn veginn fullkomna þjónustu á þessu sviði, eftir því sem fjárhagsgeta okkar leyfir.

Núna er verið að reisa myndarlegt sjúkrahús á Blönduósi. Skagfirðingar eru mjög áhugasamir um að reisa þar sjúkrahús. Þetta er í námunda við hið stóra sjúkrahús á Akureyri, sem nú á að taka til starfa. Og ef við höldum þannig áfram, þá hygg ég, að hægt sé að segja, að tiltölulega fljótt kunni að einhverju leyti að verða yfirbyggt í þessum efnum hjá okkur. Það er að mínum dómi jafnvel meiri þörf að setja eitthvert skipulag um það, hvar sjúkrahús eigi að vera nú á næstu árum, einmitt vegna þess að hér með verður í nýjum áfanga veittur aukinn stuðningur til sjúkrahússrekstrar, og ýtir það eðlilega undir hvert hérað að koma upp þessum stofnunum hjá sér, en getur hins vegar að mínum dómi kannske lagt ófyrirsjáanlega miklar fjárhagsbyrðar á herðar þjóðarinnar, ef þess er ekki gætt að stilla því sæmilega í hóf, hve viða séu reist sjúkrahús.

Mig langaði aðeins til að láta þessar hugleiðingar mínar koma fram, vegna þess að ég hef haft með þessi mál að gera að undanförnu, en er þakklátur núverandi hæstv. heilbrmrh. fyrir það, að hann hefur lagt frv. fram, sem ég sendi honum, enda hafði ég um það samið í raun og veru við sjúkrahúsnefnd Akureyrar, að ég mundi sjá um, að þessar till. kæmu fram fyrir Alþingi það, sem nú er að hefja störf sín. Hefði ég að sjálfsögðu reynt að standa við það, þó að hæstv. núverandi heilbrmrh. hefði ekki séð sér fært að flytja frv., en hann hefur gert það og virðist hafa svipaðan skilning á þessu máli og ég hafði og hef.