02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

165. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Vestm. (JJós) vil ég vinsamlega benda honum á það, að ástæðan til þess, að ekki stendur eins á um þær konur, sem hann og hv. þm. V-Sk. (JK) talaði um, er sú, að milli þess, sem þær giftast, komu í gildi ný lög, sem eru öðruvísi en gömlu lögin voru. Eftir gömlu lögunum um ríkisborgararétt varð kona íslenzkur ríkisborgari jafnskjótt og hún giftist íslenzkum ríkisborgana. Þessu hefur verið breytt eftir ákveðnum kröfum kvennasamtakanna, sem kröfðust þess, að konur hefðu sjálfstæðan ríkisborgararétt. Mismunur á afstöðu þeirra er því ekki nema það, sem svo iðulega kemur fyrir, þegar lögum er breytt í landinu. Ég get ekki séð, að það sé hundrað í hættunni, þó að þessar konur verði að bíða í þrjú ár til þess að sýna og sanna, að það sé þeirra ákveðni vilji að staðfestast hér í landinu. Við höfum engin lög, sem leggja haft á fólk við sérstakar sveitir eða þess háttar, og ég get ekki fallizt á, að það eigi að vera einhver sérstök forréttindi, að menn starfi í sveit, fram yfir störf að öðrum nauðsynlegum atvinnuvegum þjóðarinnar.

Það, sem mér virðist vera höfuðatriði þessa máls, er, hvort við eigum að opna flóðgátt, þannig að hver sú kona, sem giftist íslenzkum ríkisborgara, og þá um leið hver sá maður, sem kvænist íslenzkri konu, geti þegar í stað orðið íslenzkur ríkisborgari. Þá er áreiðanlega farið langt út fyrir það, sem hingað til hefur gilt og menn óska eftir að gildi. Þá getum við verið komnir inn á þá braut, áður en við vitum af, sem þekkt er erlendis, t. d. í Englandi, þar sem erlendir flóttamenn kaupa menn eða konur til að giftast sér til þess að fá enskan ríkisborgararétt og skilja svo um leið. Það er ekki vegna þessara kvenna, þessara tveggja eða þessara ellefu sem nú er verið að ræða, að ég er á móti þessu, heldur vegna fordæmisins, sem það gefur yfirleitt í sambandi við afgreiðslu þessara mála framvegis. Ég verð að segja það, að ég tel mjög vægt farið í sakirnar, þegar n. ákvað í þessum tilfellum að sætta sig við, að fólkið hefði ekki verið nema þrjú ár hér á landi eftir stofnun hjónabandsins.