09.04.1954
Efri deild: 82. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

189. mál, prófesorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. N-M. viðvíkjandi rannsóknarstofunni get ég ekki svarað nema að örlitlu leyti. Þetta er að sjálfsögðu rannsóknarefni, eins og hann benti á. En ég hygg, að eins og nú standa sakir sé ákaflega torvelt að sameina þetta. Fyrst og fremst er það, að húsnæði er á hvorugum staðnum nægilegt fyrir báðar stofurnar, eins og nú standa sakir. Að öðru leyti eru þetta næsta óskyld verkefni, því að rannsóknarstofan, sem er byggð á lóð landsspítalans og er undir stjórn próf. Dungals, hefur aðallega vefjarannsóknir, líkskoðanir, krufningu og annað þess háttar, en blóðrannsóknir hafa til þessa verið aðalstarfsemin í rannsóknarstofunni, sem próf. Steffensen hefur rekið til þessa. Þetta eru býsna óskyld verkefni og sitt í hvorri fræðigrein. Auk þess er svo húsnæðisatriðið, sem ég nefndi í upphafi. Að öðru leyti get ég ekki upplýst þetta nánar.