30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

26. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Fyrir meira en mánuði var vísað til hv. heilbr.- og félmn. frv., sem ég hef flutt hér í deildinni á þskj. 26, frv. til l. um rétt manna til byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum og opinbera aðstoð í því skyni. Það hefur enn þá ekkert heyrzt frá þessari hv. n. um þetta frv., og svo er raunar um fleiri nefndir og fleiri frv. En ég vildi nú alveg sérstaklega, ekki sízt sökum þess, hve brýn þörf er á, að það komi í ljós hér á Alþ. hvað þingið vill gera í þessum málum, og vegna þess að þetta frv. er mjög veigamikið, mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sæi til þess, að hv. heilbr.- og félmn. skilaði áliti um þetta frv., en svo framarlega sem hún hefur ekki gert það, við skulum segja í þessari viku þá verði frv. tekið á dagskrá til 2. umr., án þess að nefndin hafi afgreitt það. Ég veit að vísu, að það hefur nokkuð lengi tíðkazt að n. hafi unnið slælega í sambandi við þau mál, sem til þeirra hefur verið vísað. En þó að orðhagur maður hafi sagt, að þegar guð gaf mönnum hugsjónirnar, þá hafi djöfullinn fundið upp nefndirnar til þess að eyðileggja þær, þá býst ég ekki við, að það sé sérstaklega hugsað um nefndir á Alþ., og a. m. k. ekki tilgangur hæstv. forseta, sem hér stjórnar vinnubrögðum, að þær hagi sér þannig. Ég vildi þess vegna bera fram þau tilmæli til hæstv. forseta, að hann ýtti við hv. heilbr.- og félmn. um að afgreiða þetta frv., en ella, ef það drægist, að taka þetta frv. á dagskrá til 2. umr.