13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

44. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Íslendingum er það höfuðnauðsyn að efla landbúnað sinn, auka hagnýtingu gróðurmoldarinnar, sem með vaxandi þekkingu og tækni hefur öll skilyrði til þess að gefa góða og örugga yrkju. Það hefur á síðustu árum orðið mikil framför í þekkingu vorri og aðstöðu allri til hagnýtingar jarðargróðans. Misæris og breytilegs árferðis í veðráttufari gætir nú miklu minna í þessu sambandi en löngum var áður. Hafa oss á brautum nýrrar tækni borizt upp í hendurnar margvísleg úrræði, er létta göngu vora í þessu efni. Þeirri vá, að misæri í landbúnaðinum gæti valdið því, að fjöldi fólks kæmist þar á vonarvöl, hefur nú verið bægt frá dyrum þjóðar vorrar. Með hverju árinu, sem líður, eflist þekking vor og þróttur á þessu sviði. Tryggasta og bezta fasteign vor og sparisjóður er vel ræktað land. Það er traustur grundvöllur til þess að byggja á framtíð íslenzku þjóðarinnar. Oss ber því að kappkosta öðru fremur að nema land vort, sem enn er ekki nema að nokkru leyti numið, miðað við þá geysimiklu víðáttu, sem biður þess, að mannshöndin leggi þar hönd á plóginn. Framtíð vor, hagur og farsæld veltur mikið á því, hversu oss sækjast ræktunarstörfin.

Það ber vott um víðsýni og glöggan skilning á framtíðarmöguleika þjóðar vorrar, að Alþ. hefur hin síðari ár sýnt viðleitni í þá átt að beina fjármagninu í umbætur í sveitum landsins. Jarðræktarlögin eru lofsvert dæmi þess. Þau eru hvort tveggja í senn hvatning og skilningur við þá þjóðfélagslegu nauðsyn að byggja og rækta landið. Þetta hefur borið góðan árangur. Það hefur verið því fólki, sem í sveitunum býr, hvort tveggja stuðningur og uppörvun til umbóta og til öryggis í afkomu þess fólks.

Fólkinu fjölgar. En vér horfumst í augu við þá staðreynd, að ekki fjölgar að sama skapi því fólki, sem tekur sér bólfestu í sveitunum og vinnur þar að nýju landnámi, ræktunarstörfum og uppbyggingu. Þetta er varhugaverð og hættuleg þróun. Þess vegna þarf að kosta kapps um, að á þessu geti orðið breyting og það sem fyrst. Á þetta mál þarf því að líta bæði með víðsýni og raunsæi. Hvatningu og stuðning þess opinbera við aukna ræktun og aðrar undirstöðuumbætur í sveitunum þarf að miða við það, að hinni uppvaxandi æsku í landinu verði sköpuð skilyrði til þess að helga sveitunum krafta sína.

Breyt. þær á jarðræktarlögunum, sem í þessu frv. felast, eru spor í þessa átt. Í frv. því um breyt. á jarðræktarlögunum, sem borið hefur verið fram og var reifað hér áðan, er eingöngu gert ráð fyrir því, að tekinn verði út úr einn liður jarðræktarframkvæmdanna, þ. e. vélgrafnir skurðir, og framlagið til þeirra hækkað, en með því er rofið styrkhlutfallið milli einstakra jarðræktarframkvæmda, sem hefur verið á síðustu árum. Vitað er, að ekki verður unað við þessa breyt. eina, því að ræktunin og aðrar umbætur þurfa að sjálfsögðu að fylgja sem hraðast eftir landsþurrkuninni, sem er nauðsynlegt undirstöðuatriði. Er því lagt til í frv. þessu, að hinir einstöku framkvæmdaliðir í jarðræktarlögunum verði í heild hækkaðir um 20%. Það frávik er þó gert, að hækkun til grjótnáms verði 50%, og er það gert með tilliti til þess, hve miklum örðugleikum ræktun á grýttu landi er bundin.

Væntum við flm. þessa frv., að fyrir hendi sé nú sem áður á Alþingi skilningur á þörf og nauðsyn þess að rækta og byggja sveitir landsins og því að beina æskunni inn á þá braut, að hún vilji tryggja framtíð sína og staðfestu við landbúnaðarstörf.

Ég vil svo óska þess, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.