20.10.1953
Neðri deild: 8. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

54. mál, vegalagabreyting

Flm. (Eiríkur Þorsteinsson):

Herra forseti. Hér á landi hefur til skamms tíma meiri hluti landsmanna búið og hafzt við í dreifbýli víðs vegar um landið og hagnýtt til hins ýtrasta lífsskilyrðin, hvar sem þau voru fyrir hendi á landi og sjó, til þess að sjá sér og sínum fyrir lífsnauðsynjum, eftir því sem ástæður gáfu hverjum einum getu til. Það, að vera duglegur bóndi, góður og gegn vinnumaður eða vinnukona í sveit og duglegur ræðari á fiskibátunum, þetta voru mestu kostir þjóðfélagsþegnsins allt fram yfir aldamót og varla á annað litið.

Á þessum síðustu fimmtíu árum hefur fólkið safnazt meira en áður saman á einn tiltölulega lítinn blett á landinu. Bæir hafa risið upp með nútíma þægindum, sem heillað hafa til sín yngri kynslóðina úr dreifbýlinu, enda margt af æskufólkinu leitað til bæjanna og aldrei komið aftur til langdvalar heim. Mikið af þessu unga ágæta æskufólki er horfið dreifbýlinu fyrst og fremst fyrir það, að framkvæmdum og fjármagni hefur verið haldið hlutfallslega meina til hinna þéttbýlli byggða. Ég leyfi mér að hafa þá trú, að gæfa landsins sé eigi öll á einum hjara landsins, heidur sé átthagaást og þjóðarmetnaður enn þá óskert í dreifbýli þess, sem valdi því, að þar sé enn þá fólgin framtíð lands og þjóðar, þess vegna beri Alþingi Íslendinga að sýna afskekktum byggðum landsins fyllstu virðingu og tillitssemi í afgreiðslu jafnréttismálefna. Það má merkilegt heita, að kjördæmi Jóns Sigurðssonar, sem var sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, þ. e. kjördæmi og fæðingarsýsla þessa merka manns, er eina sýslan á landinu, sem hv. alþm. hafa ekki getað fundið ástæðu til að leggja veg til frá aðalakvegi landsins.

Forsaga þessa vegamáls er að nokkru kunn af fréttum frá Alþingi. Árið 1951 síðast þegar vegalög voru opnuð, fékkst ekki vegur af Barðastrandarvegi til Vestur-Ísafjarðarsýslu tekinn inn á vegalög vegna andstöðu í Alþingi. Nú er komin fram í Ed. frá hv. þm. Barð. (GíslJ) brtt. við vegalögin, sem lengir veginn frá Vestur-Ísafjarðarsýslu á Barðastrandarveg um a. m. k. 20 km, auk þess sem vegarstæðið yrði þá verra, enda líkur fyrir, að slík breyt. mundi seinka um nokkur ár, að sýslan kæmist í vegasamband.

Ég verð að leyfa mér að minna á það, að brýr hafa verið byggðar, og það af eðlilegum ástæðum, til að tengja samgönguæðar fjarlægra landshluta og hafa kostað milljónir. Vil ég þar nefna brúna á Jökulsá á Fjöllum. Þetta finnst mér rétt og sjálfsagt fyrir Austurland, en þetta og margar vegaframkvæmdir á Suðurlandi styðja þann málstað minn, að ekki sé annað sæmilegt fyrir hið háa Alþingi en taka þennan veg, sem frv. mitt gengur út á og ég nefni Vestfjarðaveg, inn á vegalög nú á þessu þingi, þótt enginn annar nýr vegur yrði tekinn inn. Það virðist hæpin átylla fyrir því að meina Vestur-Ísafjarðarsýslu að komast í vegasamband við aðalakveg landsins, að allar aðrar sýslur séu búnar að fá slíkt samband, eða aðstöðu til að gera það fullkomið, og þess vegna sé engin ástæða til að opna vegalög fyrir þessum vegi. Mál eins og þetta er jafnréttismál byggðarlags með 7–8 þús. íbúa. Hvers er að vænta um framtíð slíkra byggðarlaga, ef löggjafarsamkoma þjóðarinnar synjaði um svona sjálfsögð mannréttindi, en á sama tíma er byggt hvert tug- og hundraða milljóna fyrirtækið af öðru í öðrum héruðum landsins? Það þýðir ekki fyrir frumbýlinginn að vakna af Þyrnirósusvefni í nýrri trú á bjartari veröld og hamingjusamt líf, ef samhugur meðbræðranna, sem ráða yfir sól og regni, neitar honum, sem býr á fjarlægri strönd, um öll lífsins gæði. Alþingi ber að taka tillit til þess, að góðir möguleikar hafa opnazt fyrir því að leysa þetta mál, og þess vegna hljóta vegalög að verða opnuð fyrir þessum vegi, svo að Vestur-Ísafjarðarsýsla fái sjálfsagðar samgöngubætur eins og hvert einasta hérað á landinu er þegar búið að fá.

Ég óska svo, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og samgmn.