16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

85. mál, kosningar til Alþingis

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það var mjög einkennilegt að hlusta á ræðu hv. 1. landsk., ef menn hafa tekið eftir upphafsorðum hans. Hann fór hér mjög geyst í ræðustól og hagaði sér með þeim riddarabrag, sem hann notaði svo mjög í sínum samlíkingum. En það var eitt sérlega athyglisvert, hvernig stóð á því, að hann þurfti að halda þessa löngu ræðu, ef hlustað var á upphaf máls hans, því að hann tók það mjög fram, þegar hann kom hér upp í ræðustól, að það væri búið að hrekja hvert einasta atriði af því, sem við, sem mæltum gegn þessu frv., hefðum sagt hér á síðasta fundi. Ef það hefur verið svo, að það hafi hvert einasta atriði af því verið hrakið, þá virðist manni ekki, að það hefði þurft að viðhafa jafnlanga og jafnháværa ræðu og þessi hv. ræðumaður flutti hér nú rétt í þessu. Sannleikurinn var líka sá, enda hefur það gengið í gegnum ræður þeirra hv. forustumanna þessa máls, sem hér hafa rætt í dag, að þeir eru sífellt að reyna að hrekja rök okkar sjálfstæðismanna gegn þessu máli og tekst það ekki betur en svo, að þeir þurfa æ ofan í æ að standa á fætur til þess að reyna að sannfæra sjálfa sig um það, að þeir hafi þegar hrakið okkar málsatvik. Það eitt út af fyrir sig gefur til kynna, að þeir hafi ekki sjálfir mikla trú á því, að þeirra rök séu ýkja sterk.

Ég skal ekki eyða mörgum orðum að hugleiðingum hv. 1. landsk. um Framsóknarkærustuna. Ég býst við, að það mætti vafalaust um það langt mál ræða, og ég þakka honum vitanlega fyrir hans umhyggju um að reyna að sannfæra okkur um, að það skipti okkur ekki svo miklu máli, þótt við misstum þessa kærustu, því að hún væri svo slæm og hefði verið okkur svo vond, að það gerði ekkert til, þótt hún færi yfir í aðrar herbúðir. Það snertir okkur vitanlega ekki neitt, en sýnir ákaflega ljóslega, hvaða hugleiðingar eru að baki hjá talsmönnum og flm. þessa máls, þó að þeir hitt veifið neiti því harðlega, að það sé neitt verið að stíla upp á það að ná til samstarfs neinum ákveðnum flokki.

Það atriði, að Sjálfstfl. hafi verið í kosningabandalagi við Framsfl., eins og hv. 1. landsk. sagði, er náttúrlega alveg tilhæfulaust. Það var ekkert kosningabandalag þar á milli. (GÞG: Það sagði ég aldrei.) Jú, það sagði nú hv. þm., held ég, áreiðanlega, en það hefur kannske verið missögn, hann hafi bara átt við samstarf nú eftir kosningar. En úr því að út í þá sálma er farið, þá má kannske vekja athygli á því, sem hv. 3. landsk. mjög harðlega neitaði, að það hefði verið nokkurt samstarf um að ræða milli Framsfl. og Alþfl. við síðustu þingkosningar. Það vita ósköp vel allir þeir, sem fylgdust með þeim málum, að þessir tveir hv. þm., sem eru aðalbaráttumenn að þessu frv., sátu á löngum fundum með ýmsum góðum framsóknarmönnum til þess að reikna út, hvaða niðurstaða yrði, ef þeir gætu komið á samstarfi sín í milli um kosningar. Og þeir reyndu þetta á þann venjulega máta, sem er ekkert óeðlilegt við, að flokkar skiptist á um að bjóða fram og ætlunin sé að styðja svo þann frambjóðanda, sem valinn er. En þetta gaf bara ekki betri raun en það, að þessum sömu hv. þm., og þá sérstaklega form. Alþfl., sem mjög hafði treyst á stuðning framsóknarmanna, brást hann sem raun ber vitni eða þá að hans eigið lið hefur brugðizt eða a. m. k. skilaði ekki þeim árangri, sem til var stofnað. Þá var auðvitað inn á þá braut farið að íhuga, hvort ekki væri hægt að finna einhverjar aðrar leiðir til að ná sömu niðurstöðu.

Það, sem er kjarni þessa máls, og það, sem hv. talsmenn málsins hafa sífellt reynt að breiða yfir, en er kjarni málsins og veldur höfuðandstöðu okkar sjálfstæðismanna, er ekki það, að tveir eða þrír flokkar geti sameiginlega aukið þingmannatölu sína, heldur hitt, hvernig að því er farið með þessu frv. Við höfum tekið skýrt fram, að það er ekkert við því að segja, þó að tveir eða fleiri flokkar komi sér saman um ákveðinn frambjóðanda eða frambjóðendur í einstöku kjördæmi og styðji þá. En við höfum bent á hitt, sem ég vil endurtaka og er kjarni andstöðu okkar við þetta mál, að hér er um að ræða algerlega óhæfilega aðferð, sem beinlínis er til þess fallin að blekkja fólkið til fylgis við menn, sem það kýs ekki að fylgja, með því að það er látið kjósa annan frambjóðanda en raunverulega á að njóta góðs af þess fylgi. Þetta er sá kjarni málsins, sem aldrei verður fram hjá gengið, og þetta er ástæðan til, að við erum andvígir þessu máli.

Það var bent á það af hv. 2. þm. Reykv. hér, að Sjálfstfl. hefði til þessa alltaf staðið með umbótum, sem gerðar hefðu verið á kjördæmaskipuninni. Þetta er rétt. En hann bætti því við, að sjálfstæðismenn hefðu nú valið sér hlutskipti Framsfl. með því að snúast gegn þessu frv. hér. Þessu vil ég mótmæla af þessari ástæðu, að þetta frv. stefnir ekki í hina réttu átt. Eins og við bentum á í okkar fyrri ræðum, eru margir gallar á núverandi kjördæmaskipun, sem þarf að leiðrétta, en þetta er ekki leiðin til þess að leiðrétta annmarkana, enda benti þessi sami hv. ræðumaður einnig á það, að með þessu frv. væri stefnt í þá hættu, að ósamræmið milli þingmannatölu og kjósendatölu gæti meira að segja aukizt mjög verulega frá því, sem nú er, þannig að ljóst er, að ekki er með þessu frv. stefnt í þá átt, sem eðlilegt er, og til aukins réttlætis, og því er það í fullu samræmi við fyrri stefnu Sjálfstfl., að hann sé andvígur þessari hugmynd. Það hefur enn ekki verið sýnt fram á það af talsmönnum þessa máls, hvernig á því stendur, að málið er tekið hér upp í þessu formi um kosningabandalög, eftir að þeir sjálfir upplýsa, að kosningabandalög hafa verið afnumin í tveimur Norðurlandanna, þar sem þau áður giltu. Ef reynslan hefur sýnt, að það hefur verið eðlilegra þar að hafa annan hátt á, þá virðist manni, að það hefði átt að hagnýta þessa sömu reynslu og taka þá þann sama hátt upp einnig hér.

Ég skal ekki fara hér langt út í útreikninga hv. 1. landsk. um það, að eftir útreikningum Morgunblaðsins mundu 43 kjósendur að meðaltali hafa staðið á bak við 8 nýja þm. flokksins, ef það hefði orðið svo sem þar var útreiknað. Þetta er auðvitað hrein fásinna og fjarstæða, því að auðvitað standa miklu fleiri kjósendur á bak við hvern þm., þótt það kunni að vera, að þeir hefðu ekki þurft meiri viðbót til að komast að. Og það er náttúrlega nákvæmlega álíka gáfulegt að segja það, að hinir tveir nýju þingmenn, sem komu nú á þing, gætu komið öllum sínum kjósendum í einn strætisvagn. Það standa mörg hundruð kjósendur á bak við þessa þingmenn, þannig að þetta er hrein firra út í loftið.

Hv. 3. landsk. sagði, að það væri sá stóri kostur á þessari tilhögun, að nú gætu tveir flokkar eftir þessu skipulagi fyrir fram gert með sér landalag og lagt fram ákveðna stefnu í kosningum. Ég hef skýrt frá því, sem allir vita, að það er ekkert því til hindrunar nú í dag, að flokkar geti gert þetta með þeim eðlilega hætti að koma sér saman um ákveðna frambjóðendur í einstökum kjördæmum, og einnig er því til að svara varðandi þessa kenningu, að nú, eins og sakir standa bjóða flokkar fram hver um sig með ákveðinni stefnuskrá. Það er ekkert fram komið, sem sanni það varðandi þessa hugmynd, að kosningabandalag muni endilega bera sigur úr býtum í kosningum, þannig að það er engin frekari vissa fengin fyrir því, að það verði endilega það bandalag, sem ræður ríkisstj. að kosningum loknum, og því getur orðið um að ræða alveg sömu útkomu varðandi það, að flokkar eða flokkabandalög þurfi að gera með sér málefnasamning að loknum kosningum.

Það hefur mjög verið reynt að halda því hér á lofti af hv. flm. þessa máls, að andstaða Sjálfstfl. gegn því byggist á því, að þeir geti ekki hugsað sér þessi kosningabandalög, þar eð þau geti ekki orðið þeim til framdráttar, en hins vegar vilji þeir nota nákvæmlega sama ranglæti til þess að tryggja sjálfum sér meiri hluta. Ég hef sagt það hér og við allir, sem af hálfu Sjálfstfl. höfum talað, að við erum þeirrar skoðunar, að á núverandi kjördæmaskipan séu margir gallar. Það liggur vitanlega fyrir í sambandi við hina nýju stjórnarskrá að koma með nýjar till. til úrbóta á því atriði. Ég fyrir mitt leyti er alls ekki þeirrar skoðunar, að það sé verulega æskilegt, að flokkur, sem hefur mikið innan við helming kjósenda, fái endilega hreinan meiri hluta. Hitt er aftur önnur hlið málsins, að miðað við það ástand, sem verið hefur, er það rétt, að Sjálfstfl. hefur skort þetta á til þess að fá hreinan meiri hluta. En það haggar ekki því, að það geti verið eðlilegt, ef Sjálfstfl. eykur ekki fylgi sitt sem því nemur, að einhver önnur tilhögun sé upp tekin, þannig að flokkur, sem hefur á bak við sig langt innan við helming kjósenda, hafi ekki hreinan meiri hluta þingmanna. Það er sem sagt hlutur, sem kemur til að ræða um, þegar kemur að því atriði að ákveða endanlega um kjördæmaskipun í sambandi við stjórnarskrána, og meðan ekki liggur neitt fyrir varðandi það atriði, að Sjálfstfl. hugsi sér í því efni að viðhalda einhverjum kenningum, sem sérstaklega eigi að auka veg hans, burtséð frá hinu raunverulega fylgi, viljum við algerlega frábiðja okkur, að því sé slegið fram, að við viljum endilega stuðla að því að viðhalda ranglæti í kjördæmaskipun þjóðarinnar. Við höfum haldið því fram, að með þessu frv. væri brotið í bága við þau grundvallaratriði, sem gengið hefði verið út frá í stjórnarskránni, þegar þau ákvæði um kosningar og kjördæmi, sem þar eru, voru á sínum tíma ákveðin. En það er ekki þar með sagt, að við séum ekki til viðtals um margvíslegar breytingar frá þeirri skipan, ef þær breytingar eru gerðar á réttan hátt, þótt við viljum ekki fallast á slíkt fyrirkomulag eins og felst í þessu frumvarpi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að eyða um þetta fleiri orðum, en vildi aðeins nota tækifærið til þess að benda á þá einkennilegu framkomu hv. flm., að þeir jafnframt því að lýsa því yfir í hverju orði, að við höfum engin rök í okkar máli, þruma hér hverja ræðuna eftir aðra til þess að hrekja þessar rökleysur, og jafnframt að leggja áherzlu á það, sem þeir hafa reynt að drepa mjög á dreif, hver er meginröksemdin, sem við sjálfstæðismenn berum gegn þessu frv. Við teljum, að gera megi ráð fyrir, að nú innan ekki langs tíma megi vænta breytinga á stjórnarskránni, ekki sízt þegar það er haft í huga, hvernig hv. Alþýðuflokksmenn virðast hafa geysilegan áhuga á því máli, þegar þeir voru reiðubúnir í sumar til þess að leggja allt annað til hliðar til .að fara í ríkisstj. upp á það mál eitt. Sjálfstæðismenn hafa einnig lagt fram till. í þeirri n., sem um þetta mál fjallar, og mun ekki standa á þeim. Þannig virðast öll rök mæla á móti því, að það sé nú á þessu stigi verið, jafnvel þó að það bryti ekki í bága við stjórnarskrána, að rugla hér með þetta mál, meðan það er í heildarathugun, og má vænta þess, að niðurstaða fáist af því innan skamms. Að minnsta kosti er ástæða fyrir alla að reyna að sameinast um að reyna að hrinda þeirri heildarathugun áfram, í stað þess að vera að grípa til slíkra vandræðabragða eins og hér er um að ræða.