09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (2635)

89. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég taldi það í alla staði eðlilegt, að hv. 11. landsk. (LJós), sem hér talaði næstsíðast, legði áherzlu á það, að hann fengi hæstv. viðskmrh. hér inn í þingsalinn. Hann hafði veigamiklar spurningar að leggja fyrir hæstv. ráðh., og þessi hv. þm. hefur þann sess í atvinnulífinu og því umboði þar að gegna, að hann átti fyllsta rétt á því sem slíkur, auk þess sem hann átti heimtingu á því sem alþm., að hér yrði upplýst af hæstv ráðh. það, sem hann vildi fá að vita í sambandi við þetta mál. Það er ekki aðeins svo, að stjórnarandstaðan hér á þingi hafi orðið hvað eftir annað á þessu þingi að krefjast þess, að ráðh. kæmu, til þess að hægt væri að ræða mál við þá, en jafnan án árangurs, heldur hefur það líka komið fyrir, að þingmenn úr hv. stjórnarflokkum hafa orðið að koma hér og standa hér í ræðustólnum langa stund án þess að fá fullnægt kröfunni um það, að viðkomandi ráðherra kæmi inn í þingsalinn, og hafa orðið að hverfa frá þessari sjálfsögðu kröfu sinni án þess að fá henni framgengt. Þegar svona er komið, þá er komið í algert óefni, og ég undrast það mjög, ef hæstv. ráðh. sjá ekki skömm sína í þessu. Þeir geta ekki verið þekktir fyrir það gagnvart hv. Alþingi að haga sér svona, og það er ástæða til þess, að íslenzkir alþm. láti ekki bjóða sér þetta miklu lengur og gangi úr þingsalnum, ef þessu heldur áfram; það er það eina, sem dugir. Við getum staðið hér í ræðustólnum kortér án þess að fá ráðherrana inn, og það getur vel verið, að við grípum til þess að standa hér það sem eftir er dags, en það eru litlar líkur til þess, að það hrífi. En þá kemur bara til þess, að við göngum úr þingsalnum.

Hæstv. viðskmrh. var hér staddur, — ég skal láta það komast inn í þingtíðindin, — hann var hér staddur í hliðarherbergi þingsins, þegar forseti sendi boð eftir honum að koma hér inn. Þá smokkaði hann sér út úr hliðarherberginu og settist niður á Kringlu að spjalla þar við mann. Ég gekk út úr d., meðan hv. 11. landsk. stóð í ræðustólnum áðan, til þess að aðgæta, hvort hæstv. ráðh. sæist innan landhelgi þingsalarins, og sá, hvar hann var sitjandi að rabba hér við mann niðri á Kringlu. Hann átti að gegna sínum ráðherraskyldum að ræða hér við alþm., og það varð að ganga fyrir öllu snakki við óvíðkomandi menn. Nú er hæstv. ráðh. farinn aftur út úr d. Hann kom hér, eftir að hv. 11. landsk. hafði gefizt upp við að halda til streitu sínum réttmætu kröfum. Nú stend ég hér, nú krefst ég þess sama af hæstv. forseta, að hann sendi eftir hæstv. viðskmrh., og ég bið hér og mun bíða hér þangað til hann kemur, a. m. k. þangað til þingfundartími er búinn klukkan fjögur, ef hann er ekki kominn þá. Og ég óska nú, að nú sé enn sent eftir hæstv. ráðherra. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort … ) Ég hef spurningar að leggja fyrir hæstv. ráðh. (Forseti: Lætur hv. þm. sér ekki nægja, af því að þetta er nú 1. umr., að þær spurningar verði fluttar til hæstv. ráðherra?) — Þarna kemur nú hæstv. ráðh. inn í salinn og hefur nú lokið öðrum æðri embættisstörfum en að vera á þingi til viðræðu við þingmenn, og skulum við nú sjá, hvort tekst ekki að koma þeim í ráðherrastólinn sinn oftar, ef við verðum samferða um það í stjórnarandstöðunni að heimta ráðherrana í sína ráðherrastóla, — það er væntanlega ekki óþægilegur sess, — þegar þeir þurfa að vera hér til viðræðu við þingmenn í þýðingarmiklum málum.

Hér hafa komið fram fyrirspurnir í sambandi við frv. um olíueinkasölu ríkisins, frv., sem fjallar um mjög þýðingarmikinn þátt íslenzkra viðskiptamála, og þess vegna er óskað, að hæstv. viðskmrh. sé hér til andsvara og upplýsingar fyrir þm. í þessu máli. — Hér hefur m. a. verið spurt um það af hv. 11. landsk., hvort íslenzka ríkið, sem er kaupandi að nálega öllum þeim olíum, sem ætlað er að Íslendingar muni þurfa að nota á árinu 1953 og líklega 1954, sé ekki einnig innflytjandi að þessum olíum. Það er haldið, að svo muni vera, en þó vita menn ekki vissu sína í því. — Ráðh. hefur einnig verið beðinn að upplýsa, hvort samlög sjómanna og útvegsmanna geti átt þess kost að ganga milliliðalaust inn í þá samninga, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert um olíukaup, og fá olíuna án milliliðakostnaðar, eða hvort þessir samningar hafi verið framseldir olíufélögunum og olíufélögunum einum og að olíufélögin hafi þannig ein aðstöðu til þess að leggja á þessa vöru, áður en sjómenn og útgerðarmenn koma til með að nota hana. Það hefur verið bent á það, að samlög sjómanna og útvegsmanna hafi áður fyrir milligöngu ríkisvalds fengið aðstöðu til þess að fá olíur án milliliðaálagningar og hafi á þeim tíma getað selt olíuna til sjómanna á miklu lægra verði. Er þessa kostur nú? hefur verið spurt. Geta samlögin fengið þessa aðstöðu núna? — Enn fremur leikur þingheimi hugur á að vita, hvernig er háttað flutningsgjaldatöxtum á olíu nú. Hv. 11 landsk. (LJós) spurði um það, hvort farmgjaldataxtar á olíu væru nú í samræmi við hina opinberu auglýstu taxta, sem menn sjá í opinberum skýrslum og tímaritum um viðskiptamál, eða eru þessir taxtar nú lægri vegna þess óvenjulega mikla magns, sem hér hefur verið keypt inn af olíu?

Það er alveg óhugsandi, að hæstv. viðskmrh. geti ekki leyst úr þessum spurningum, og það mun enginn fella þann dóm, að það sé ósanngjarnt, að þm. á Alþ. fái sem gleggsta og áreiðanlegasta vitneskju um þetta. Þetta eru allt saman þýðingarmikil viðskiptaatriði og snerta hagsmuni atvinnulífsins í landinu.

Það hefur flogið fyrir, að íslenzka ríkisstj. hafi hleypt olíuhringunum að strax, og olíuhringarnir séu beinir samningsaðilar við Rússa. Getur það verið satt? Hæstv. viðskmrh. er beðinn að upplýsa það, hvort íslenzka ríkisstj. sé ekki aðili gagnvart Rússum og hvort íslenzka ríkisstj. hafi þannig framselt sinn samning aftur til olíufélaganna. Þetta viljum við enn fremur fá að vita um. Og nú viljum við vænta þess, að hæstv. ráðh. gefi okkur svör, og svo má búast við því, að einhverjar framhaldsumr. verði í sambandi við þetta þýðingarmikla mál, án þess að ég ætli nokkuð að ganga af ráðh. dauðum eða tefja hann mjög frá hinum þýðingarmiklu störfum hans utan þingsalarins. Þökk fyrir.